11.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í B-deild Alþingistíðinda. (74)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Ráðherra (Kr. J.):

Ég vildi leyfa mér að segja fáein orð, sérstaklega í sambandi við ræðu hv. 5. kk. þm. Hann hefir skilið orð mín svo, að ég hafi verið að mála fjárhag landsins dökkum litum. En þetta er ekki rétt. Það sem ég benti á voru að eins peningaástæður landssjóðs, eins og þær eru nú. Ég er ekkert hræddur um það að þetta land geti ekki vel borið útgjöld sín. En það geta verið þær kringumstæður, að landssjóður sé í peningaþröng í augnablikinu, og þá verður auðvitað að taka tillit til þess og skapa fjárlögin eftir því. Það var að eins þetta, sem ég vildi benda á, en hitt var vissulega eigi meining mín, að neitt væri að óttast um fjárhagslega framtíð þessa lands.

Í sambandi við þetta skal ég einnig minnast á annað atriði í ræðu háttv. 5. kk. þm. Hann kvaðst vera hræddur um, að tekjur landsjóðs væru áætlaðar fullhátt. Mér er kunnugt um fjárhagsáætlanir þingsins alt frá árinu 1875, og það er eftirtektavert, að framan af hefir jafnan verið lögð áherzla á að áætla tekjurnar aldrei hærri en full vissa var fyrir að þær mundu reynast. Þetta kom fótum undir landsbúskapinn. En á síðari árum, einkum á síðasta 15 ára tímabili, hefir orðið breyting á þessu. Þá hefir þingið orðið að víkja frá þessari meginreglu og einkum síðan á aldamótum hafa tekjurnar verið teygðar meira og meira, svo að nú orðið er ekki hægt að reiða sig á, að tekjurnar nemi neinu fram yfir það, sem áætlað er í fjárlögum. Miklu fremur má óttast, að tekjurnar nái eigi áætlunarupphæð. —

Út af því sem hefir verið talað um vínfangatollinn sérstaklega, skal ég geta þess að tekjurnar af honum reyndust tæpar 200 þús. kr. árið 1908, en 1909 ekki nema ( rúml. 176 þús kr. Og ég hefi spurt mig fyrir um það í stjórnarráðinu, hve miklu hann muni nema fyrir árið 1910, og fengið það svar, að hann mundi verða lítið yfir 180 þús. kr.

Að því er snertir lántöku landssjóðs, þá er ég alveg sammála háttv þm. um það að ekki sé neitt athugavert við að taka lán til arðberandi fyrirtækja. Það er auðvitað fullkomlega rétt pólitík. Í því ljósi skoða ég lán þau, sem landið hefir tekið eða kann að taka til símalagninga, því að reynsla hefir sýnt að símarnir borga sig vel. Enn fremur getur verið fullkomlega rétt að taka lán til fyrirtækja, sem ekki er hægt að búast við að borgi sig, ef þeim er svo varið, að þau verði að skoðast bráðnauðsynleg fyrirtæki, sem ekki megi fresta að koma í framkvæmd. Ég fer ekkert út í það hér, hver þau fyrirtæki kunna að vera. Það er auðvitað þingið, sem sker úr því í hverju einstöku tilfelli, hvort fyrirtækið er svo nauðsynlegt, þó að það sé ekki beint arðvænlegt, að það sé rétt að koma því í framkvæmd með lánsfé. Aftur á móti má alls ekki taka lán til þess að nota það sem eyðslufé. Það er algerlega óforsvaranlegt að jafna mismun á árlegum tekjum og gjöldum landsins með lánsfé.

Það var minst á það hér í deildinni áðan, að sum af lánum viðlagasjóðsins mundu vera ótrygg. Eg hefi nýlega spurt mig fyrir um þetta hjá einum af háttv. þm. neðri deildar, sem hefir rannsakað þessi lán allnákvæmlega. Hann sagði, að lánin mundu yfirleitt vera trygg. Þau lán, sem helzt væru ótrygg, væru hin svokölluðu skipalán, en af þeim væri þó ekki nema eitt verulega illa trygt. Það hefir nokkuð tapast af þessum lánum, en af þeim sem eftir voru taldi hann að eins þetta eina verulega athugavert. En svo eru önnur lán, sem að vísu geta altaf verið nokkuð athugaverð, nfl. lán til sveitafélaga. Þar kemur auðvitað alt undir því, hvernig sveitafélögin standa sig.

En svo framarlega sem landið í heild sinni á framtíð fyrir höndum, þá verður maður að vona hið sama um hin einstöku sveitafélög, og því er ekki ástæða til að óttast, að þessi lán tapist. Eg fyrir mitt leyti álít slík lán örugg.

Í sambandi við viðlagasjóð skal ég taka það fram, að landssjóður skuldar af láninu, sem var tekið til að kaupa bankavaxtabréf, um 1,450,000 kr., en upp í það eru ekki til bankavaxtabréf, nema fyrir 1,300,000 kr.; það hefir eigi verið keypt meira af bréfum fyrir lánsféð.

Hitt hefir orðið að að eyðslufé landsjóðs, og gengið upp í kostnað við lántökuna. Af símaláninu gamla skuldar landssjóður nú 450 þús. kr. Þetta eru þá skuldir, sem nema til samans nálægt 2 miljónum. En að vísu eru þessi lán að mestu leyti arðberandi.

Úr því að tveir háttv. þm hafa minst á frestun aðflutningsbannslaganna, skal ég lýsa því yfir fyrir mitt leyti, að ég álít vel tiltækilegt að fresta þeim nokkuð, eins og kringumstæður standa nú til. Og ég get ekki álitið að neinn háski stafi af því fyrir málið. En hvað tímann snertir, þá hefði ég helzt kosið að fara mitt á milli þeirra tveggja tímalengda, sem stungið hefir verið uppá, nfl. að fresta banninu um 2 ár. Ég tel óþarft að fresta því um 3 ár, til 1. jan. 1915, og heldur stutt að fresta því að eins um eitt ár. Annars bjóst ég ekki við, að þetta mál kæmi neitt til umræðu í dag, og skal ekki heldur fara lengra út í það að sinni. Að eins skal ég taka það fram, að ég tel slíka frestun svo gersamlega hættulausa fyrir málið sjálft, að hver maður ætti að geta tekið henni með mestu hugarró, ef menn annars komast að þeirri niðurstöðu, að hér sé hagkvæmt ráð til að bæta úr fjárkröggum landssjóðs. Og ég get sagt fyrir mitt leyti, að ef ég hefði tekið þátt í umræðum um bannlagamálið á síðasta þingi, þá mundi ég hafa lagt til að samþykkja ekki bannlögin að því sinni, heldur fresta því þar til menn væri búnir að koma sér niður á, hvernig væri heppilegast að fylla það skarð, sem aðflutningsbannlögin höggva í tekjur landsjóðs. Eg tók ekki þátt í umræðum þá, en ég get vel lýst þessu yfir nú, þrátt fyrir það, að mér er kunnugt um, að kjördæmi mitt, eða sumir hlutar þess, eru á meðal áköfustu bindindishéraða landsins, og aðflutningsbanninu mjög fylgjandi.