24.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 890 í B-deild Alþingistíðinda. (749)

63. mál, Húsavík með Þorvaldsstöðum

Kristinn Daníelsson:

Eg ætla ekki að leggja hér út í neinar kappræður, en vildi að eins gera stuttlega grein fyrir atkvæði mínu, þó það sé gert í nefndarálitinu.

Aðalástæða mín er sú, að síðan eg fór fyrst að hugsa um landsmál hefi eg álitið varhugavert að selja nokkrar jarðeignir landsjóðs og þegar er að ræða um svo verðmæta eign, þá álít eg það því síður gerlegt.

Það er ekki hægt að sjá fram í tímann, hve verðmæt slík eign getur orðið með tímanum og hve mikinn skaða landsjóður getur beðið við það, að hafa látið hana af hendi. Það hafa farið fram margar barnalegar sölur á opinberum eignum til skaða fyrir seljanda og ekki sízt varhugavert að selja jarðir þar sem blómleg kauptún eru að rísa upp.

Ef landið á framtíðarvon, þá stækkar þorpið og eignin hækkar í verði og getur hér verið um miklar tekjur fyrir landið að ræða. Og hitt hefir reynslan sýnt, að þorp hafa getað blómgast, hvort sem þau hafa verið einstakra manna eign, landsjóðs eign eða það átti sig sjálft.

Af þessum ástæðum, er eg nú stuttlega hefi tekið fram, get eg ekki varið það að vera með frumvarpinu og mun því greiða atkvæði á móti því um leið og eg greiði atkvæði með breytingartillögu nefndarinnar. En málið geri eg annars ekki að kappsmáli mínu.