11.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í B-deild Alþingistíðinda. (75)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Sigurður Hjörleifsson:

Með því að enginn þeirra háttv. þm., sem talað hafa, hefir stungið uppá, að vísa málinu til nefndar þeirrar, sem hefir verið skipuð hér í deildinni til að íhuga fjármál landsins, þá skal ég leyfa mér að gera þá uppástungu.

En það er ýmislegt í umræðunum, sem eg vildi minnast dálítið á. Fyrst er það, að hæstv. ráðherra vildi halda því fram, að tekjurnar af vínfangatollinum væru of hátt áætlaðar á þessu frv. En hann færði engin rök fyrir því, önnur en þau, að einhverjir menn í stjórnarráðinu hefðu tjáð sér, að víntollurinn hafi verið svo og svo mikið fyrir neðan áætlun á árinu 1910. Eg get ekki verið honum sammála um, að tollurinn sé of hátt talinn á þessu fjárlagafrumvarpi. Vitanlega má þræta um það, og reynslan ein getur skorið úr því. En úr því að tollurinn nam þó 180 þús. kr. síðastliðið ár, 1910, þá þykir mér undarlegt, ef það er of hátt að áætla hann 330 þús. kr. á næsta fjárhagstímabili, þó að vín verði ekki flutt lengur en til 1. jan. 1912. Mér þykir undarlegt. ef löngun manna til víns er ekki svo mikil, að tollurinn geti numið þessu, þegar á að fara að birgja sig upp með vín, sumir til lífstíðar og vínsalarnir til 3 ára verzlunar með vín. Því að vitanlega verður tollurinn af þessum birgðum, allur eða rétt-allur, einmitt greiddur á næsta fjárhagstímabili, en ekki því sem nú stendur yfir.

Hinsvegar er ég alveg samdóma hæstv. ráðherra um það, að tekjuhallinn, eins og hann er nú á þessu fjárlagafrv., er ískyggilega mikill. Það heggur ekki lítið skarð í viðlagasjóð, ef það þarf að ganga á hann, til þess að borga tekjuhalla á fjárlögum uppá 280 þús. kr. Og það er eðlilegt að hæstv. ráðherra þyki þetta ilt, því að hann tók það fram, þegar er hann settist í ráðherrastól, að hann vildi stuðla að því, að samin yrðu sæmileg fjárlög. Og það tel eg fullkomlega rétt. Eg vil ennfremur benda á það, að þó að útgjaldaliðurinn sé nú orðinn þetta hár, þá má búast við, að hann hækki enn meir áður þingið gengur frá fjárlögunum til fulls. Það má búast við því, að Efrideildarmenn hafi ýmsar fjárkröfur fram að bera, engu ómerkari eða óþarfari en þær, sem samþyktar hafa verið í Neðri deild. Að vísu má einnig búast við því, að deildirnar felli nokkuð af fjárveitingum, hvor fyrir annari. En þá er sameinað þing eftir og má að sjálfsögðu gera ráð fyrir að meira eða minna af slíkum fjárveitingum gangi aftur fram þar. Tekjuhallinn verður því sjálfsagt engu minni, ef ekki meiri, en nú er gert ráð fyrir í þessu frv. og því er full ástæða til að líta svo á, að ástandið sé ekki glæsilegt, og þurfi að bæta úr því á einhvern hátt.

Í því sambandi hefir verið minst á frestun aðflutningsbannsins. Ég held að það sé nú ekki vert að byggja mikið á þeim tekjuauka; það er ekki víst, að sú uppástunga nái fram að ganga. Ég fyrir mitt leyti vona að áætlunin um tekjur af vínfangatolli á fjárl. reynist rétt, eða ekki of há, en hitt vona ég líka, að ekki verði um neinn tekjuauka af frestun bannlaganna að ræða. — En ég vil benda á að vel getur svo farið, að það verði í raun og veru hæstv. ráðherra sjálfur, sem mest veltur á um það, hvernig þetta þing gengur frá fjármálum landsins. Efri deild hefir möguleika til að skera niður allar þær tillögur, sem kynnu að koma frá neðri deild til aukningar á tekjum landsins; í neðri d. er nú á ferðinni frv., sem mundi auka tekjurnar verulega, og ef það frv. kemur hingað í deildina, getur vel verið að það verði að nokkru leyti á valdi hæstv. ráðherra að skera úr því með atkvæði sínu, hvort frv. á að ganga fram eða ekki. Ég á við frv. um farmgjald, sem nú liggur fyrir n. d. Verði það fyrirsjáanlegt, að sú aukning á tekjum landsins fái ekki framgang, þá horfir óneitanlega illa við um fjárhaginn, og þá er ekki annað að gera fyrir þessa deild en að skera niður sem mest af fjárveitingum neðri deildar og bæta sem fæstum nýjum við.

Þá er að minnast á eitt atriði af því, sem háttvirtur 5. konungkjörinn bar fram, en það er um símaeign landsjóðs.

Það er rétt að eign landsjóðs hefir vaxið mikið við símann, þó að lán sé öðru megin, en þar sem hann færir til 5½%, sem síminn gefi af sér, eru slíkar tölur nærri villandi, þó út séu gefnar af símastjóra.

Því hvaða meining er í að taka ekki tillit til þeirra 35 þúsunda, sem við borgum til Stóra Norræna.

Enn er þess að gæta, að ýms héruð hafa lagt mikið til símans og annast að mun reksturskostnað.

Enn er ótalin fyrning, því þó símanum sé haldið við, svo að hann sé nothæfur þá leiðir það af sjálfu sér, að nokkuð verður að gera fyrir fyrningu.

Þegar á alt er litið, er ekki af miklu að státa um símann.

Hinar svo kölluðu beinu tekjur fara að verða heldur litlar.

Símaeignin gefur enn þann dag í dag mjög litlar tekjur, sorglega litlar %, ef rétt er reiknað, og það er sorglegt að hafa þetta ekki nákvæmt.

Það væri mjög þarft verk, ef stjórnin gæti útvegað rétta og ábyggilega áætlun, sérstaklega þegar verið er með „plön“ fyrir þinginu um nýjar símalagningar.

Það er ekki gott að þurfa að byggja á plönum, sem sýna að eins aðra hlið málsins, eins og mönnum hættir við; en þetta er hrein og bein fásinna. Eg vil brýna fyrir hinni háttvirtu deild þann sannleika, að þó að við veittum núna ekki afarmikið til verklegra nytsemdarframkvæmda í fjárlögunum, þá er ekki með því dregið úr framförum í landinu, þar sem næsta þing er haldið svo snemma á fjárhagstímabilinu að veita má fé til margskonar nauðsynjafyrirtækja á fjáraukalögunum, ef þá yrði sýnt að eitthvert fé yrði til þess.

En það er næsta óvarlegt að ausa nú út þessum væntanlegu landsjóðstekjum alveg í óvissu, eins og hitt líka er ánægjulegt að geta veitt mikið fé í fjáraukalögum til þarflegra fyrirtækja, þegar það er sýnt að efni eru til þess.

Á síðasta þingi var sjálfstæðismönnum hér í deildinni brigzlað um það, að þeir væru að svíkja framsóknarviðleitni þjóðarinnar, af því, að þeir vildu fara gætilegar í fjárframlögum en flestir hinna. Slík brigzlyrði geta ekki staðist fyrir dómi nokkurs þess manns, er ber minsta skyn á fjármál landsins.