19.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 896 í B-deild Alþingistíðinda. (769)

25. mál, vegamál

Framsm. (Gunnar Ólafsson:

) Í nefndarálitinu er tekið fram alt það, sem nefndin vildi sagt hafa, og tilgreindar þær misfellur, sem henni þótti vera á því. Tilgangur frumvarpsins er aðallega sá, að létta nokkurri byrði af Árnessýslu (Margir: og Rangárvallasýslu) og að nokkru leyti af Rangárvallasýslu. Árnessýsla losnar, samkvæmt þessu frumvarpi, ef það verður að lögum, við kostnað á viðhaldi flutningsbrautar frá Reykjarétt austur að vegamótum Grímsnesbrautarinnar við Ingólfsfjall. Rangárvallasýsla losnar aftur á móti við viðhaldsskyldu á brautinni milli Þjórsárbrúar og Ölfusárbrúar, að ? sem nú hvílir á henni. Nefndinni þótti þetta sanngjarnt. En þótt hún geti fallist á þetta, þótti henni það ekki koma nógu greinilega fram, hvar þessi kostnaður, sem Rangárvallasýsla losnar við, ætti að lenda, og því kemur hún með breytingartillögu, þar sem það er beint tekið fram, að hann skuli að öllu leyti hvíla á Árnessýslu.

Um 4 gr. er þess að geta, að nefndin gat ekki fallist á hana óbreytta. Hún lítur svo á, að það sé ekki rétt að gera sýsluvegagjaldið að persónugjaldi og vill því eigi að þar sé breytt um í nokkru, og það því fremur sem þetta getur orðið allhátt gjald, því að bæði hreppsnefnd og sýslunefnd, hvor í sínu lagi, hefir leyfi til að hækka hreppavega- og sýsluvegagjaldið upp í 3 kr. til hvors — þetta getur orðið allhár skattur, eigi sízt fyrir efnalitla og heilsulitla menn, getur orðið 6 kr., sem virðist of mikið.

Fyrir því stingur nefndin upp á að þessu sé breytt og að sýsluvegagjaldið sé goldið úr sveitarsjóði, eins og að undanförnu.

Í 5. gr. er svo ákveðið, að meiri hluti gjaldenda þeirra er fund sækja geti samþykt, að meira fé megi verja til hreppsvegagerða en hreppsvegagjaldið hrekkur fyrir. Þetta „og fund sækja“ þótti nefndinni athugavert. Það getur verið, að samþykt yrði gjald úr sveitarsjóði, sem fjöldi hreppsbúa væri mótfallinn. Því hefir hún lagt til, að orðin „og fund sækja“ falli burt.

Eg skal geta þess, að einn háttv. þm. var meiri hluta nefndarinnar ekki samdóma um þetta efni, þó hann gerði það ekki beint að ágreiningsatriði. Hann mun gera grein fyrir því nú við umræðurnar.