19.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 897 í B-deild Alþingistíðinda. (770)

25. mál, vegamál

Kristinn Daníelsson:

Eg hefi skrifað undir nefndarálitið án fyrirvara, en var þó ekki fyllilega samdóma meiri hluta nefndarinnar. Og skal eg leyfa mér að gera nokkra grein fyrir skoðun minni að því er snertir ágreiningsatriðin. Háttv. form. gat um, að eg hefði ekki verið alveg sammála nefndinni um breyt.t. hennar við 5. gr. frv., að orðin „og fund sækja“ falli burt. Eg óttast að þessi breyting á greininni stefni að því, að hreppstjórarnir geti aldrei löglega ráðist í verulegar vegabætur í hreppnum. Þetta atriði skiftir þó ekki miklu máli og skal eg ekki orðlengja um það. En það er annað atriði, sem eg var meira ósamdóma nefndinni um, og háttv. frsm. nefndi ekki. Það eru ákvæði 6. gr. frv. um það, hverjar gr. vegalaganna frá 1907 skuli úr gildi fallnar. Þar eru taldar upp þessar greinar: 10. gr., 24. gr., 26. gr., og fyrri liður 27. gr. og finn eg ekkert athugavert um það. En öðru máli er að gegna um 54. gr. og 55. gr., sem einnig á að fella niður, því að þar með er gerð töluverð lagabreyting til óhags fyrir kauptún, sem eru hreppsfélög út af fyrir sig. Afnám 54. gr. hefir það í för með sér að hreppsvegagjaldið í þessum kauptúnum lækkar úr 2,50 niður í kr. 1,25 fyrir hvern verkfæran mann. Þetta gerir nú að vísu ekki mikið til, því að annarsstaðar er heimild til að hækka gjaldið, ef þurfa þykir. En það er aðallega 55. gr. sem mér þykir ekki rétt að fella niður. Eg skal með leyfi hæstv. forseta lesa upp greinina; hún hljóðar svo:

„Verzlunarstaðir, sem eru hreppsfélög út af fyrir sig, skulu lausir við að gjalda þann þriðjung sýslusjóðsgjaldsins, sem þeim annars bæri að greiða eftir tölu verkfærra karlmanna þar, ef hreppsfélagið ver árlega til vegagjörðar í verzlunarstaðnum að minsta kosti jafnmiklu fé úr sveitarsjóði, auk hreppsvegagjaldsins, sem þessi þriðjungur sýslusjóðsgjaldsins mundi nema“. —

Þannig er með lögum 1907 þessum kauptúnum heimilað að halda eftir þriðjungi sýslusjóðsgjaldsins, sem miðast við tölu verkfærra manna, ef jafnmikilli upphæð er varið úr hreppssjóði til vegagerða í kauptúninu, auk hreppsvegagjaldsins. Það er viðurlitamikið að kippa burtu þessari heimild, því að það verður að taka tillit til þess, að kauptúnsbúar þurfa venjulega að verja töluverðu fé til ýmsra lagfæringa á kauptúnssvæðinu, auk þess sem þeir verða einir að kosta vegalagningar í kauptúninu. Eg hefi því hugsað mér að koma með breytt. við 3. umr. málsins, í þá átt, að slík kauptún fái að njóta nokkurs af sýsluvegagjaldi sínu. Vona eg að háttv. meðnefndarmenn mínir taki það ekki illa upp, með því að eg gat þess í nefndinni, að eg væri ekki sammála að þessu leyti og mundi ef tíl vill koma með breytt.