25.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 905 í B-deild Alþingistíðinda. (780)

120. mál, farmgjald

Lárus H. Bjarnason:

Enda þó að meiri hluti deildarinnar muni líta svo á, að frumvarp þetta sé svo ranglátt, svo handahófskent og svo praktískt óframkvæmanlegt, að ekki geti komið til mála að samþykkja það, þá vil eg þó ekki leggja til, að meiri hluta neðri deildar, þar sem víðsýni þm. Seyðfirðinga, sjálfræði þm. Barðstrendinga og drengskapur þm. Reykvíkinga virðast ráða svo miklu, sé svarað upp í sama lit og hann svaraði nýlega meiri hluta þessarar deildar.

Má og vera að umsteypa megi frumv. svo, að við það mætti bjargast eitt eða hálft fjárhagstímabil, t. d. með lögleiðingu lestagjalds eða einhvers annars handhægs gjalds. Vil eg því, eftir atvikum, leggja til að frumvarpinu verði vísað til nýkosinnar nefndar í 1. máli á dagskránni.