25.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 917 í B-deild Alþingistíðinda. (787)

120. mál, farmgjald

Steingrímur Jónsson:

Hv. þm. Ak. vill beina að mér, að eg hafi ekki talað kurteislega í garð neðri deildar, en þetta er af einhverjum misskilningi sprottið. Eg sagði, að eg gæti ómögulega kallað þetta annað en draumóra og það get eg ekki tekið aftur. Eg sagði ekki, að þetta væru draumórar, heldur gat aðeins um mína persónulegu skoðun á málinu og það var ekki einungis svo að eg hefði rétt til þess, heldur var það beinlínis skylda mín.

Þar sem eg talaði um að bannlagafrestunin hefði verið feld í neðri deild, þá get eg ekki dregið úr ummælum mínum þar að lútandi, því meðferðin á þessu máli var vægast sagt hrottaleg. Einkum var það ræða þingmanns Seyðisfjarðar, sem var hneykslanleg. Eg álít, að eg hafi fullan rétt til að vita það hér, hvernig þar var farið að.

Eg ætla ekki að ræða hér um einstöku atriði frumvarpsins, sem nú liggur fyrir og geymi það 2. umræðu, en eg vildi leiðrétta það hjá háttvirtum þingmanni Akureyrarkaupstaðar, að hann sagði að ¾ atkvæða hefðu verið með aðflutningsbanninu.

(Siqurður Hjörleifsson): Eg sagði ? eða ætlaði að segja svo). Jæja, hafi þingmaðurinn ætlað að segja ? þá er það leiðrétt, en þess ber að gæta, að það voru ekki ? allra kjósenda landsins, það voru aðeins ? af þeim er kosningarrétt notuðu, og þeir sem kusu voru ekki nema rúmlega 67% af öllum kjósendum, og þetta vildi eg taka fram hér.

Þá er þess að gæta, að engin áætlun liggur fyrir um væntanlegar tekjur af þessu frumvarpi, Eg hefi heyrt menn vera að tala um 80 þúsundir á ári, en þessu er helzt hvíslað, það er líka að mínu viti á engum rökum bygt, algjörlega út í loftið og mjög ósennilega til getið.

Eg vil með leyfi háttv. forseta leyfa mér að lesa upp eina grein hér úr frumvarpinu, það er önnur greinin og hljóðar svo:

Af áburði tilbúnum, bókum prentuðum, gólfplötum úr leir og steini, húðum ósútuðum, heyi, járni óunnu í klumpum, kornvörum allskonar, kalki, kokes, kolum, leir, leirpípum, salti, sementi og líkum steinblendingsefnum, steinolíu, saltketi íslenzku í tunnum, skinnum ósútuðum, tunnum tómum, tunnustöfum, tíglsteinum allskonar, vörum sem keyptar eru og sendar í nafni landssjóðs, og vörum sem sérstaklega er lagður tollur á, skal ekkert farmgjald greiða.

Þegar svo mikill hluti af þungri vöru er undanskilinn tollinum, sé eg ekki að gjaldið geti orðið mikið. Raunar er hátt gjald lagt á 4. flokks vörur, en aðgætandi er að af þeirri vöru er að eins fá tons flutt til landsins.