06.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 924 í B-deild Alþingistíðinda. (790)

120. mál, farmgjald

Gunnar Ólafsson:

Eins og nefndarálitið ber með sér, gátum við, hv. þingm. Ak. og eg, ekki verið meiri hluta nefndarinnar sammála. Nefndarálitið sýnir ljóst, hvaða stefnu meiri hlutinn fylgir, jafnframt sem hv. framsögumaður hefir haldið fram því sama. En eg get ekki fallist á þá stefnu, og það af mörgum ástæðum. Meiri hl. nefndarinnar telur aðalástæðu sína til að vera á móti frv., þá, að með því sé brotin meginregla í tollmálum, eða „princip“, eins og hv. framsögum. kallaði það. Eg skal ekki deila við hann um það, hvort þetta sé á rökum bygt, en vil þó benda á, að eg sé ekki betur en að einmitt sé fylgt sömu stefnu í frv. og áður hefir verið gert, nefnilega að taka tollana eða gjöldin á þann hátt, að ekki þurfi að bæta við tollþjónum; það er gert ráð fyrir að tollarnir verði teknir á sama hátt og nú, þ. e. eftir skjölum skipanna, og ekki öðru. Meiri hluti nefndarinnar heldur því fram, að verði frumv. að lögum, þá mundi það hafa í för með sér umfangsmikið tolleftirlit, að það eitt út af fyrir sig mundi éta upp mestar þær tolltekjur, er með lögunum fengjust, eins og segir í n.ál. Samt hefir nú meiri hl. ekki bent á neitt þessu til sönnunar, enda er ekki viðbúið að hann geti það. Hv. meiri hl. veit vel að frv. hefir ekki í för með sér nema lítilsháttar aukin störf fyrir þá tollheimtumenn, sem nú eru, dálítið aukin reikningsfærsla; en fyrir þessi auknu störf er þeim ætlað hæfilegt gjald. — Önnur höfuðástæða hv. meiri hl. nefndarinnar er sú, að vöruflokkunin í frv. sé svo margbrotin, að ekki verði við ráðið. Þetta er líka skakt. Hv. framsm. veit það, að gjaldið á að reiknast eftir farmskrám eða farmskírteinum, en í þeim er alt af tiltekið, hver varan er. Þetta er því að eins grýla. Sömuleiðis hefir meiri hl. og framsm. hans gersamlega mistekist þar sem hann leitast við að sýna, að tekjuáætlun meiri hluta nefndarinnar í n. d. sé skökk, enda var ekki von til annars, þar sem nefndin hér hafði mjög nauman tíma, og nefndin í heild sinni kom í rauninni ekki nálægt málinu, heldur vann framsm. einn að því. Eg verð því að álíta, að áætlun hv. frams.m. sé alveg út í loftið, og bendir margt til þess. Hann áætlar að tekjur af frv. verði einar 64 þús. kr., en stjórnarráðið fer aftur nokkuð hærra og gerir ráð fyrir 100 þús. kr. tekjur af frv. Bæði hv. frams.m. og stjórnarráðið virðist hafa farið yfir frv. með lítilli athugun. Að vísu játa eg það, að ekki sé hægt að gera nákvæma áætlun um tekjurnar af því, því til þess þyrfti að vikta upp allar vörur, sem til landsins koma. En með langri og nákvæmri yfir vegun má komast að réttari niðurstöðu en með tómri hundavaðsrannsókn, því annað get eg ekki kallað rannsókn hv. meiri hl. nefndarinnar. Nefndinni var innan handar að beiðast upplýsingar hjá þeim manni, sem mest hefir að þessu máli unnið, bæði á þingi og utan þings í mörg ár, en hún hirðir ekki um það, líklega af því hún hefir ekki viljað sinna þessu máli frekar og ekki kært sig um réttar upplýsingar. Eins og eg tók fram, þá er ómögulegt að gera fullkomlega nákvæma áætlun í slíkum efnum, t. d. er ekki hægt að ákveða nákvæmlega vikt á þeirri vefnaðarvöru, sem inn flyzt árlega, þar sem hún er tilgreind í verzlunarskýrslunum í krónum og aurum. En eftir upplýsingum frá þeim manni, sem mest hefir að þessu máli unnið, þá kostar vefnaðarvaran upp og niður sem svarar c. 1 kr. pundið með umbúðum. Þessi maður hefir um langan tíma vegið alla vefnaðarvöru, sem verzlun hans hefir flutt í umbúðunum, og farið eftir því, þegar hann ákvað gjaldið í frv. Sé svo gengið út frá þessu meðaltalsverði á hverju pundi af vefnaðarvöru, þá má eftir verzlunarskýrslunum reikna út, hve mörg pund flytjist árlega af þessari vöru. Auðvitað getur þessi áætlun aldrei orðið nákvæm fullkomlega, en hún mun þó vera nær sanni heldur en einhver ágizkun út í loftið. Þessa sömu aðferð má hafa við aðrar vörutegundir, ef menn vita fyrir, hve mikil upphæð er flutt inn árlega. Þó má reikna út þyngd alls þess sem flutt er inn, með því að prófa sig fram um það, hve mikið t. d. hvert tonn kostar að meðaltali. Á þessu er frv. bygt, þar sem verzlunarskýrslurnar gefa ekki upplýsingar um magn vörutegunda þeirra sem inn eru fluttar. Önnur leið er ekki fær; þó maður komist ekki að nákvæmlega hárréttri niðurstöðu með henni, þá spillir það ekki frv., ef það í sjálfu sér er gott. — Að þessi leið til tekjuaukningar sé óheppilegri en sú sem hv. meiri hl. nefndarinnar stingur upp á, get eg ekki kannast við, því að slíkt farmgjald kæmi miklu jafnara niður en kaffi- og sykurtollurinn. — Eg tók eftir því í ræðu hv. framsm., að hann sagðist einkum hafa athugað einn lið í frv., nefnil. liðinn um vefnaðarvöru, fatnað, skófatnað, höfuðföt o. fl. þess háttar, og komst að þeirri niðurstöðu, að af öllu þessu mundi fást 10,000. En hann gleymdi að geta um, við hvað hann styðst í þessum skilningi. Hafi hann stuðst við útreikning stjórnarráðsins, þá verð eg að segja, að eg get alls ekki kannast við að sú áætlun sé ábyggileg. Það leiðir af sjálfu sér, að stjórnarráðið hefir ekki tíma til að reikna slíkt nákvæmlega út, og ef til vill ekki einu sinni hvöt til þess. En ef maður ber þetta saman við áætlun flutningsmanns frv., þá gerir hann ráð fyrir að þessi 5. flokkur muni gefa af sér 61,300 kr. Vitanlega reiknar hann hér með litunarefni o. fl., en þó er þessi munur æði mikill og sýnir, að meiri hl. nefndarinnar hefir farið hratt yfir og ekki grafið djúpt. Flutningsmaður frv. hefir gert áætlun um það, hvað hver flokkur muni gefa af sér. Hann áætlar að 1. flokkur muni gefa af sér í tekjur

kr. 4,500

2. flokkur " 2,700

3. " " 27,100

4. " " 61,000

5. " " 61,300

6. " " 18,000

7. " " 2,500

Hann hefir nákvæmlega sundurliðað, hvað hver tegund muni gefa af sér, og komist að þessari niðurstöðu. Ef ekki er hægt að komast að nokkurnveginn niðurstöðu með þeirri aðferð, sem hann hefir haft, þá er það því síður hægt með því, að gizka á út í loftið og af handa hófi, eins og eg hygg að meiri hl. nefndarinnar hafi gert, og eins og eg tók fram áðan, þá spillir það ekki frv. í sjálfu sér, þó flokkunin væri ekki sem nákvæmust; því má alt af breyta, og gæti vel verið að ástæða væri til þess. Frv. í heild sinni getur verið jafngott fyrir það, þó einhverju smávegis þyrfti að breyta í því. — Eins og n.ál. ber með sér, leggjum við hv. þm. Ak. og eg það til, að frv. verði samþykt nálega óbreytt. Við hefðum ef til vill gjarnan viljað gera nokkrar smábreytingar á því, en látum okkur þó nægja, að leggja til að gjaldið verði tekið af kolum, þau verði höfð í flokki út af fyrir sig. Sumum kann að þykja það rangt, en þegar þess er gætt, hversu lágt gjaldið er, að eins 50 au. af hverri smálest, þá verða menn að kannast við, að það er ekki þungur skattur. Sömuleiðis bætir það úr, að mikill hluti þeirra kola, sem til landsins flytjast, eru ekki notuð af Íslendingum sjálfum heldur útlendum mönnum. Það getur vel verið, að rétt væri að leggja lítinn skatt á fleiri vörutegundir, ef þessi stefna verður ofan á, en við vildum ekki koma með fleiri br.till. í bili. — Skal eg svo ekki þreyta hv. deild með lengri ræðu, enda er ekki ástæða til þess, þar sem málið hefir verið rætt hér í deildinni áður.