06.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 928 í B-deild Alþingistíðinda. (791)

120. mál, farmgjald

Sigurður Hjörleifsson:

Það er ekki ástæða til þess að tala langt erindi um þetta mál; forlög þess munu vera augljós hér í deildinni. En á hitt vildi eg benda, að þetta frv. var síðasta tilraunin til þess, að fjárlögin gætu farið nokkurnveginn skaplega héðan úr deildinni. Og verði þessu frv. hafnað, sem eg býst við, því verður það að vera á ábyrgð þeirra manna, er móti því hafa unnið. Verði frumvarpið felt, er nálega enginn vegur til þess að fá fjárlögin þannig úr garði gerð, að tekjur og gjöld standist á. Eg verð að taka það fram, að af minni hálfu hefir verið gert alt, sem hægt var til þess, að eitthvert samkomulag gæti komist á um frv. þetta. En það hefir víst alt orðið árangurslaust.

Eg vil einnig leyfa mér að benda á, að eg og mínir flokksbræður eru nú ekki lengur stjórnarflokkur, heldur þvert á móti. En venjulega hafa það verið stjórnarflokkarnir, sem beitt hafa sér fyrir það að afla landinu sem mestra tekna. Háttv. þm. Vestur-Skaftf.sýslu og eg getum ekki ábyrgst að tekjur þær sem áætlaðar hafa verið af þessu frumvarpi sé nákvæm áætlun. Tekjurnar geta orðið nokkuð minni, en líka nokkuð meiri, eftir því hvernig lætur í ári að öðru leyti. En það þori eg að fullyrða, að sá útreikningur, sem hér liggur fyrir frá vorri hendi, er eins nærri því sanna og rétta, sem verið getur. Annars liggur í hlutarins eðli að ekki er hægt að gerbreyta öllu okkar núverandi verzlunarfyrirkomulagi á svipstundu, og þó við vildum reyna að halda okkur við fáa tollstofna, eins og sumir halda að eitt sé heppilegt, þá er ekki hægt að breyta því til gagns á næsta fjárhagstímabili. En þeir menn, sem halda fram fáum tollstofnum, gæta þess ekki, að því meir sem tollarnir hækka, þess meiri mundu tollsvikin aukast, og þá yrði fyrst óumflýjanlegt tolleftirlit, og það þykir mér næsta ólíklegt, að embættismenn vorir fengju skrifarakrampa, þótt frv. þetta næði fram að ganga og yrði að lögum. Og eg leyfi mér að mótmæla því algerlega, sem hreinni og beinni fjarstæðu, sem andstæðingar þessa frv. í nefndinni hafa haldið fram, að það gæfi ekki af sér nema um 60,000 krónur í tekjur.

Eg vil líka leyfa mér að benda á það, að eg fór þess á leit við meðnefndarmenn mína, að nefndin leitaði upplýsinga hjá manni þeim, er mest og bezt hafði unnið að undirbúningi þessa máls, en við það var ekki komandi. Og þess vegna afsala eg mér fyrir hönd minna flokksmanna öllum þeim illu afleiðingum, sem fall þessa frumvarps hlýtur að hafa í för með sér.