06.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 939 í B-deild Alþingistíðinda. (797)

120. mál, farmgjald

Augúst Flygenring:

Eg ætla aðeins að svara hv. þm. V.-Skaftaf. nokkrum orðum. Hann sagði, að jafn-auðvelt yrði að innheimta farmgjaldið eins og kaffi og sykurtolla nú, og rökstuddi hann þessa staðhæfing með því, að farið væri eftir „manifestum“ eða farmskrám skipanna, og að það væri jafnauðvelt að reikna út tollinn eftir þeim eins og að leggja saman tölur. Eg vil benda honum á það, að í hverjum umbúðum geta verið vörur úr fleiri en einum flokki. Þessvegna yrði algjörlega ófullnægjandi að fara eftir farmskránum; það þyrfti að taka vörurnar upp og vega þær. — Hann vildi sanna að áætlun okkar væri handahóf og ágizkun ein, með því að benda á það, að við nefndin hefðum áætlað tekjur o. s. frv. aðeins 64,000 kr., stjórnarráðið 100 þús. kr., en sjálfur flutningsmaður málsins 180 þús. kr.

Eg skal ekki fara inn á áætlun flutningsmanns, því eg þekti hana ekki. En það sem okkur ber á milli, mín og stjórnarráðsins, er það meðal annars, að í áætlun þess er trjáviður alt of hátt áætlaður, eins og eg áðan tók fram. Það nær ekki nokkurri átt að hingað flytjist 10—11 þús. tons af trjáviði. Eg hefi í þessu efni stuðst við umsögn gamalla timburkaupmanna. Hitt atriðið, sem okkur ber á milli, er það, að eg geri ráð fyrir, að alt of mikið sé í áætlun stjórnarráðsins gert úr því, hvað vefnaðarvara muni gefa mikið af sér. Eg geri ráð fyrir, að það hafi fengið upplýsingar um þetta atriði hjá flutningsmanni frv., því að áætlun þess er nokkuð lík hans áætlun um þennan flokk. En það nær vitanlega engri átt, að þessi flokkur geti gefið af sér nálægt 60 þús. kr. Það er líka hreinasta fjarstæða, að hvert pund af vefnaðarvöru kosti að jafnaði ekki meira en 1 kr. Eg vona að allir menn sjái það, að efni eins og ull, silki, baðmull, skór ?: leður o. fl., er mörgum sinnum dýrara en sem svarar 1 kr. á pund. Efnið óunnið í þessum vörum kostar mikið meira en 1 kr., jafnvel í ódýrustu tegundunum. Og ekki geta umbúðirnar, þó þær séu reiknaðar með, lækkað meðalverð vörunnar á hverju pundi, því þær eru alt af mjög litlar og léttar, venjulega að eins þunnur strigapappír. Eg játa það, að ómögulegt er að gera nákvæmlega rétta áætlun um innflutning á slíkum vörum, en hinu verð eg að halda fram, að betur muni vandað til þeirrar áætlunar, sem við í meiri hl. nefndarinnar höfum gert, en til hinna. — Hv. þm. Ak. staðhæfði, að kaffi- og sykurtollurinn kæmi ranglátar niður en farmgjald, vegna þess að það dreifði gjöldunum á sem flesta, en það sjá allir að er hinn fáránlegasti misskilningur. Gjaldaliðirnir verða fleiri, en notendurnir að vörum þeim sem gjaldið legst á verða ekki fleiri, heldur miklu færri en þeir menn eru, sem nú neyta kaffi og sykurs. Þetta afgjald legst aðallega á vörur, sem fátækir sjómenn og aðrir, sem á sjávarútvegi lifa, brúka og verða að kaupa, og er það skýlaust ranglátt að íþyngja þeirri stétt fremur öðrum. Sömuleiðis verða þeir sem reka einhverja iðn, og hafa marga menn í sinni þjónustu, að reikna sér rentur af áhöldum sínum, og eftir því hversu dýr þau eru, fara að miklu leyti kjör þeirra manna, sem atvinnu hafa hjá þeim. — Það er ekki rétt hjá hv. þm. Ak. að slá því fram, að brtill. sú er eg og annar þm. bárum fram við tolllögin í gær hafi verið tómur leikur. Við mundum standa við hana, hvenær sem við sæjum okkur það fært. En við vildum ekki koma fram með mál, sem við vissum að hafði enga von um að ganga fram. Það hefði verið leikur. Við tókum till. aftur af þeirri ástæðu einni. Við vorum búnir að leita fyrir okkur og höfðum komist að raun um, að hún hafði mjög lítið fylgi. — Eg er alveg steinhissa á því, að hv. sami þm. skuli sífelt vera að halda því fram, að þetta frv. hafi mikla kosti alment skoðað. Mér vitanlega hefir ekkert mál mætt jafnmikilli mótspyrnu bæði í blöðum og meðal einstakra manna. Nefndin hafði í höndum bréf frá mörgum kaupmönnum þessa bæjar, þar sem þeir telja frv. afarmiklum ókostum búið. Fyrverandi stjórn, sem hafði frv. fyrir framan sig, nefnir það neyðarúrræði, og er þó hv. þm. Ak. vanur að byggja nokkuð á ummælum hennar. — Það er rangt af þm. Ak., að brígsla okkur, sem erum mótfallnir þessu frv., um að okkur sé ósárt um fjárhag landsins; sömu aðdróttunum hefðum við með meiri rétti getað beint að honum, þegar hann var á móti frestun bannlaganna.