06.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 953 í B-deild Alþingistíðinda. (810)

139. mál, útrýming fjárkláðans

Sigurður Stefánsson:

Eg verð að játa, að mér sem manni, er ann landbúnaðinum, tekur sárt til frumvarps þessa. Eg skal fúslega játa, að útrýming fjárkláðans þurfi ekki að vera svona kostnaðarsöm fyrir landið. Eg get líka játað með hv. ráðherra, að þetta geti orðið nokkuð ervitt fyrir landssjóðinn, og eg held að með einu fyrirskipuðu þrifabaði gæti hepnast að halda fjárkláðanum í skefjum. En það er eitt, sem ég óttast í þessu máli, og það er innheimtan, sem hreppsnefndir eiga að hafa; hún getur stundum farið nokkuð í handaskolum, fyrst ekki er lögtaksréttur á þeim. Eg hefi nú hugsað mér, þar sem tíminn er orðinn svo naumur, hvort ekki mætti leggja fyrir næsta alþingi, aukaþingið væntanlega, frumv. þess efnis, að öllum bændum væri gert að skyldu að baða fé sitt einu þrifabaði á ári. Þannig lagað fyrirkomulag er nú mjög tíðkað í einu mesta fjárræktarlandi heimsins, Skotlandi, og hefir gefist vel. Slíkt hefir reynst borga sig mjög vel, bæði í ull og öðrum afurðum, og vil eg því lesa upp rökstudda dagskrá þessu viðvíkjandi, er hljóðar svo:

„Í því trausti að stjórnin leggi fyrir næsta alþingi frv. til laga, er skyldi alla fjáreigendur landsins til að baða sauðfé sitt þrifabaði að minsta kosti einu sinni á ári, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“