08.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 958 í B-deild Alþingistíðinda. (824)

51. mál, sveitarstjórn

Kristinn Daníelsson:

Eg geri ráð fyrir, að háttvirtir deildarmenn hafi fengið tíma til að kynna sér þetta stutta frumvarp, sem eg leyfi mér að leggja fyrir hina háttvirtu deild og fela velvild hennar. Frumvarp þetta er ekki margbrotið, en eg vona að hinni háttvirtu deild þyki það þó svo mikils vert, að hún skipi nefnd að umræðum loknum til þess að athuga það.

Það sem hefir komið mér til að bera þetta frumvarp fram er reynsla mín í þessum málum, sem hefir sýnt mér, að hin núgildandi lög eru ekki fullnægjandi. Sérstaklega eru það tvö atriði þeirra, sitt í

hvorri grein, sem mig langar til að vekja athygli hinnar háttvirtu deildar á.

Í fyrri greininni er talað um 4 mánaða dvalartíma sem skilyrði til gjaldskyldu.

Eftir því sem atvinnureksturinn verður fjörugri og margar nýjar atvinnugreinar bætast við, sem ekki voru til áður, eftir því verður þetta ákvæði meira ófullnægjandi. Meðal annars á þetta sér stað þar sem útlendingar eiga í hlut. Þeir ættu ekki að sleppa við gjaldið, þegar þeir koma að stunda mjög svo góða atvinnu hér, þótt um stuttan tíma geti verið.

Eg skal til dæmis nefna Norðmenn, sem koma hingað til að bræða þorskalýsi, og hlýtur þessi atvinna að vera þeim mjög arðsöm. Eg hefi raunar ekki séð atvinnureikninga þeirra, en þeir koma hingað ár eftir ár og þeim fjölgar með hverju ári.

Þeir eru hér að eins 6—8 vikna tíma og hefir því ekki verið leyfilegt, vegna fjögurra mánaða ákvæðisins, að leggja á þá útsvar. Þetta er þó þvert ofan í það, sem þeir hafa búist við sjálfir.

Eg hefi heyrt utan að mér, að þetta miði að eins til smámunalega að nurla nokkrar krónur handa sveitarsjóðunum. En eg vil halda því fram, að það sé full ástæða til að gjaldstofn sveitanna sé ekki rýrður, heldur ef unt er færður út, því að á því er hin brýnasta þörf.

Það er ekki smálitlar gjaldabyrðar, sem lagðar eru á alþýðu manna með sveitarútsvarinu, og mætti mönnum standa verulegur stuggur af, hve mjög þær vaxa ár frá ári.

Eg vil sem dæmi nefna eitt hreppsfélag, sem eg þekki vel til. Þar var aukaútsvarsbyrðin fyrir fám árum fimm þúsundir króna. Nú hefir það verið gert að tveim hreppsfélögum og eru aukaútsvörin í þeim saman tíu þúsundir króna. Það mun vera hér um bil þúsund manns í hreppsfélögunum, svo að tíu krónur koma þá á hvert einasta mannsbarn. — Þannig hafa útgjöldin aukist, svo að ekki er vanþörf á að nota alla sanngjarna álögustofna.

Þó að sumir haldi, að hér sé um smámuni að ræða, að hér sé verið að reyta inn nokkra aura handa sveitafélögunum, þá mun samt bezt að halda utanað tekjum sveitafélaganna, og gera þeim sem auðveldast að afla hins nauðsynlega fjár.

Eg hefi gert um leið nokkrar smábreytingar, sem eg er þó ekki viss um að öllum þyki heppilegar, en þær verða þá athugaðar í nefnd og lagfærðar. Þegar fjórum mánuðum er breytt í fjórar vikur, þá ætlaði eg að sleppa mætti úr lögunum ákvæðunum um hvalveiði, síldarveiði og laxveiði, en verið getur þó, að þessu megi ekki sleppa að öllu, sérstaklega ákvæði um síldarveiði með nót, því það getur verið að hún sé rekin enn styttri tíma með ákaflegum miklum ágóða.

Sömuleiðis sleppi eg niðurlagi 36 gr.

Eg gerði það með ásettu ráði að sleppa þessum kafla úr, með því mér virtist hann óþarfur, þótt vera kunni að öðrum lítist annað, enda bjóst eg við að þegar frumvarpið væri komið á framfæri, yrðu fleiri, sem vildu laga eitthvað.

Það getur verið að einhverjir komi með þær mótbárur móti frumvarpinu, að hér sé verið að koma með smábreytingar á stórum lagabálki, en ekkert er eðlilegra en að lög, sem svo daglega eru notuð, þurfi ýmsra smábreytinga við.

Þá kem eg að annari greininni og vildi eg minnast stuttlega á hana.

Í henni er fólgið bersýnilegt misrétti milli fiskimanna á róðrabátum. Eftir núgildandi lögum er ekki hægt að leggja á þá aukaútsvar, ef þeir koma frá sama flóanum og veiðistöðin er við, og einu gildir hversu stór flóinn er, en undir eins og maður kemur annarstaðar frá, verður lagt á hann útsvarið.

Eg skal sem dæmi nefna hér suður með sjó. Ef maður kemur til róðra úr Grindavík, þá er hægt að leggja útsvar á hann, en ekki aftur á mann, sem kemur undan Jökli og hefir það einmitt komið stundum fyrir, að menn undan Jökli hafa stundað róðra hér suður með sjó.

Það þarf að gera þessum mönnum öllum jafn hátt undir höfði. Annaðhvort þarf að leysa þá alla undan útsvarsskyldunni eða leyfa að lagt sé á þá alla.

Þá hefi eg slept úr orðunum, að formaður skuli hafa lokið útsvari áður en hann fer á brott, með því eg áleit þau óþörf eftir atvikum. Það gerir ekkert til, þótt sá sem lagt er á sé farinn úr sveitinni, þegar jafnað er niður, ef ákveðið væri, til hvers væri að snúa sér með gjaldið. Eg vil svo ekki fjölyrða meir um málið að sinni, en vil stinga upp á, að í það sé kosin heldur 5 en 3 manna nefnd. Málið er að vísu ekki yfirgripsmikið og ætti ekki að vera tímafrekt, en betur sjá augu en auga.

(Lárus H. Bjarnason: Mættu ekki vera sjómenn í nefndinni).

Eg geri það ekki að tillögu minni, en háttvirtur fimti konungkjörinn getur gert það að sinni, og þætti mér þá betra að hann gerði það standandi en sitjandi.