02.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 962 í B-deild Alþingistíðinda. (829)

147. mál, ölgerð og ölverslun

Júlíus Havsteen:

Mér þætti gaman að vita, hvort það er nokkur almennings heill í því að óáfengt öl yrði eingöngu selt í Reykjavík eða einhverjum öðrum kaupstað landsins. Það þarf engrar útlistunar við, hve kynlegt það er, að að eins megi búa þetta öl til á einum stað í landinu. Ö1 geymist ekki vel, og flestir fengju það eigi heim til sín öðruvísi en gallsúrt, en eg get ómögulega álitið, að það standi í nokkru sambandi við almenningsheill, að drekka súrt öl; getur verið, að þeir sem hafa búið til þetta lagabrot haldi upp á súrt öl. Svo er lagabrotið hreint og beint einokun á ölverzlun, og kastar það tólfunum, ef vér nú förum að innleiða einokunarverzlunina sælu, sem vér vorum svo glaðir að losast við á sínum tíma. Það er undarlegt að hugsa sér, að menn geta fundið upp á slíku lagabroti. Eg álít það sjálfsagt, að hv. deild eigi ekki að vera að eyða sínum dýrmæta tíma í umræður um þetta frv. heldur fella það undir eins.