08.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 987 í B-deild Alþingistíðinda. (842)

164. mál, gufuskipaferðir

Sigurður Hjörleifsson:

Eg vil taka það strax fram, að eg mun greiða atkvæði með tillögum þeim sem hér liggja fyrir. Eg sé ekkert að athuga við þær, og reyndar ættu allir að geta verið sammála um þær. Hitt er annað mál, hvaða gagn verði að því að samþykkja þær. Hér er við ramman reip að draga, að koma máli þessu í það horf, sem æskilegt er. Aðalatriðið er það, að fá félögin til að vinna saman, að fá félögin til að haga ferðum sínum hvort eftir öðru. Það sem mig aðallega vantaði í framsöguna var það, að það væri ekki nóg að hugsa fyrir ferðunum til landsins, heldur þyrftum við að koma á réttu sambandi milli millilandaferðanna, strandferðanna og flóabátanna, koma í veg fyrir að þau elti hvert annað. Það sýnist svo sem að við þyrftum að hugsa út eitthvert system, og hygg eg þá að aðaldrættirnir í því yrðu þessir, að við yrðum að koma á samræmi milli innanlandsferðanna, flóabátanna og strandbátanna, því þegar það er búið, kemur hitt af sjálfu sér, en fullkomið samræmi kemst á þegar strandferðabátarnir hafa vissar stöðvar út af fyrir sig, og þurfa ekki að flækjast inn á hverja vík og vog; þar eiga flóabátarnir að taka við og flytja vörurnar í strandferðabátana. Þegar þessu væri komið í gott og skynsamlegt lag, gætum við komið á miklu betra og fljótara póstsambandi við útlönd. Þá mætti fá velútbúin, stór og hraðskreið skip til að sigla á aðalhafnirnar, Ísafjörð, Akureyri, Seyðisfjörð og Reykjavík. Með því að þessi skip færu hratt yfir, væru þau aðallega fyrir farþega og póst. Þau ættu ekki að taka vörur annarstaðar en á þessum 4 aðalstöðvum, en strandferðabátarnir eiga að flytja og safna vörunum saman í þessi skip, og flytja vörur úr þeim á þá viðkomustaði, sem þeim eru ætlaðir.