11.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1002 í B-deild Alþingistíðinda. (857)

73. mál, viðkomustaðir strandferðaskipanna

Kristinn Daníelsson:

Það er eins með þessa tillögu eins og hina, að eg ber hana fram eftir ósk kjósenda minna. Hún er líka sama eðlis, sem sú fyrri. Það er farið fram á í henni, að þetta hérað geti orðið betur aðnjótandi samgangnanna á sjó, eins og hún fór fram á umbætur á samgöngum á landi. Héraðsbúar hafa fundið mjög til þess, að héraðið, einkum þó Flateyri, hafi farið varhluta af gufuskipaferðum á síðustu árum. Þá er í 2. lið beiðni um að strandbátur komi við á Súgandafirði. Þetta bygðarlag er afar-blómlegt og er í afarmiklum uppgangi, og er því mjög tilfinnanlegt að engar samgöngur eru á sjó við fjörðinn, sérstaklega í apríl og maí, og svo á haustin í októbermánuði. Hv. þm. Ísafj. þekkir þetta bygðarlag, og mun geta borið það með mér, að það er í geysimiklum uppgangi, og mun hafa tekið meiri framförum á síðustu árum heldur en flest önnur sjópláss á landinu. Eg mælist því til að hv. deild taki góðlátlega á móti tillögunni og samþykki hana. —

Að því er snertir ummæli hv. 4.kk. þm. að það væri að stinga stjórnina með títuprjónum að samþykkja slíkar þingsályktunartillögur, skal eg geta þess, að eg get ekki fallist á það, og mjög fjarri er að slíkt sé tilgangurinn með þeirri tillögu, er hér liggur fyrir. Það hefði ef til vill mátt segja svo áður fyrr, þegar slíkar tillögur voru sjaldgæfar, en eins og nú er farið að nota þær, felast ekki í þessari aðferð neinar títuprjónastungur eða erjur við stjórnina, heldur samvinna milli þings og stjórnar, að þing og stjórn leggist á eitt með að verða við kröfum þjóðarinnar.