25.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1007 í B-deild Alþingistíðinda. (860)

152. mál, guðsþakkafé

Kristinn Daníelsson:

Eg hefi gerst flutningsmaður að þessari tillögu á þingskjali 696.

Háttvirtri deild er kunnugt, að fyrir neðri deild hefir legið tillaga svipaðs efnis. Sú tillaga féll þar þó, með litlum atkvæðamun, sem sýndi, að deildinni þótti nokkurs vert um þetta, þó að henni félli ekki búningurinn. Þar var farið fram á, að þetta væri gert með töluverðum kostnaði. Eg er á sama máli, að athuga beri guðsþakkafé og hefi borið mig hér saman við hæstvirtan ráðherra og hann hefir tekið því vel að þetta nái fram að ganga.

Það er óviðkunnanlegt um fé þetta, sem er opinbers eðlis, að ekkert skuli vera vitað um, hvernig því er varið.

Það hefir áður verið hugsað um þetta og Harbo biskap lét rannsaka það mál á 18. öld, 1744—1745. Þá kom út Kansellibréf um málið 30. september 1820 og var aftur skipað fyrir að rannsaka það, en sú ransókn hafði ekki orðið til neins.

Aftur býður stjórnarbréf frá 3. júní 1866 að slengja þessu saman við sveitarsjóði.

Þó að afraksturinn muni sumstaðar ganga til sveitarsjóða, virðist eiga vel við að athuga þetta nánara.

Hugmyndin guðsþakkafé hefir annars tæplega ákveðna merkingu.

Undir það heyra hinar svonefndu Kristfjárjarðir og einnig má telja hér til Thorkilliisjóðinn, sem er ætlaður til uppeldis og mentunar fátækum börnum. En það þyrfti að athuga alt ástand þess sjóðs. Hjá því verður varla komist, að gerðar séu ráðstafanir um notkun hans. Samkvæmt fræðslulögunum er nú séð fyrir þeirri kenslu barnanna, sem sjóðurinn var ætlaður til, svo að nauðsyn er á að einhver breyting sé gerð á ráðstöfun gjafabréfsins.

Fleira þarf að athuga viðvíkjandi þessum sjóði. Talað hefir verið um að töluvert af fé hafi verið brúkað úr honum, sem vafasamt er, hvort heimild var fyrir. Eg á við útgáfu dýrrar bókar, sem gefin var út á hans kostnað.

Svo skal eg ekki þreyta menn með fleiri orðum, en vona að háttvirt deild geti verið mér sammála í þessu máli og sérstaklega þar sem stjórnin hefir tekið vel í það.