25.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1009 í B-deild Alþingistíðinda. (862)

152. mál, guðsþakkafé

Ráðherra:

Það er ervitt fyrir mig að svara uppá fyrirspurn þá, sem beint hefir verið til mín, þar sem eg hefi engan hlut átt að máli því, sem hér er um að ræða. — Sjóður þessi, Thorchillis sjóðurinn stóð fyr meir undir stjórn stiftsyfirvaldanna, en er nú undir stjórn stjórnarráðsins og á ábyrgð ráðherra. Og hefir landritari aðallega haft stjórn hans með höndum.

Nú er mér tjáð, að í ráðherratíð Hannesar Hafsteins hafi verið ákveðið að gefa út minningarrit um stofnanda sjóðsins; og að svo hafi í tíð Björns Jónssonar verið samið við höfundinn að þessu riti að gefa það út til minningar um sjóðsstofnandann; var þá samið um ákveðinn arkafjölda ritsins, er eigi mætti fara fram yfir, enda fer ritið eigi fram yfir þann arkafjölda. — Höfundurinn hefir eðlilega fengið kaup fyrir starfa sinn, og það hefir ekki orðið tekið af öðru fé en þessum sjóði. Eg býst við að svo verði að líta á, að stjórnarráðið hafi eftir atvikum haft vald til þess að ráðstafa þessu þannig. Það hefir verið talað um stofnskrá sjóðsins í þessu sambandi. Ákvæði hennar eru mér eigi kunnug, svo að eg muni þau nú glögt, en eg býst ekki við, að brotið hafi verið gegn þeim með útgáfu þessarar bókar.