31.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1013 í B-deild Alþingistíðinda. (867)

116. mál, bæjarfógetaembættið á Akureyri og sýslumannsembættið í Eyjafirði

Lárus H. Bjarnason:

Fyrsta spurningin, sem hér rís, er sú, hvort breyta þurfi frá því sem nú er. Og þurfi að breyta til, þá er að athuga, hvort ekki séu hér fleiri leiðir líklegar en hv. flutningsmaður vék að. Mér skildist hv. flutningsm. vilja gera 3 embætti úr þessu eina, sem nú er, sem sé sérstakt bæjarfógetaembætti á Akureyri, og sérstakt sýslumannsembætti á Siglufirði, auk gamla sýslumannsembættisins. En þetta hefir ef til vill verið misskilningur hjá mér. Það situr reyndar ekki á mér sem viðriðnum lagaskólann, að vera á móti því að ný lagaembætti séu stofnuð, svo að kandídatar þaðan geti fengið eitthvað til að lifa á, en svona djúptækur get eg þó ekki verið, enda mun vera óþarfi að breyta til frá því, sem nú er, svo, að það kosti landsjóð nokkuð. Það mætti taka af bæjarfógetanum forstöðuna fyrir bæjarstjórninni líkt og gert hefir verið hér í Reykjavík. Með því væri að vísu teknar af launum hans 500 kr., en eg læt vera þó að þau væru ekki nema 3000 kr., sérstaklega þar sem aukatekjurnar eru mjög miklar, enda hlyti að hægjast um fyrir honum að stórmiklum mun með því móti. Það mun nú vera um 2000 manns á Akureyri og um 6000 í sýslunni, eða alls 8 þús. manns. Mér hefir verið sagt, að aukatekjurnar af tolli o. fl. séu þar miklu meiri en föstu launin, sumir segja að launin séu jafnvel 9—10 þús. kr. brúttó. Héldi sýslumaður sumarlögreglustjóranum á Siglufirði áfram, ætti hann með þessu móti að geta annað embættinu, enda engin vorkun að leggja fram töluvert fé til sæmilegs skrifstofuhalds af svo háum launum. Úr tollsvikunum, sem hv. flutningsmaður var að tala um, geri eg ekki svo mikið. Mér var ekki kunnugt um, þar sem eg var sýslumaður, að nein tollsvik ættu sér stað; en menn hafa kannske lært þau á þessum síðustu og verstu tímum. Mikil brögð munu þó ekki vera að þeim. Og ekki heldur neinar horfur á, að það breytist verulega til batnaðar, þó að sýslumaður kæmi til Siglufjarðar. Það hefir verið skipaður þar sérstakur lögreglustjóri þann tíma, sem mest er um gjaldheimtu, og undir hann heyrir að líta eftir að tollur sé ekki svikinn.

Sé ástæða til að rannsaka, hvort skifta beri Eyjafjarðarsýslu, þá mun vera lík ástæða til að taka til skoðunar, hvort hið sama gildir ekki um alla hina kaupstaðina, Ísafjörð, Hafnarfjörð og Seyðisfjörð og væri þá rammi tillögunnar of þröngur. Þar að auki er þingsályktunartill. alt of hátíðlegt form fyrir ekki meiri mál. Slíku vopni á ekki að beita eins títt eins og nú er gert. Eg vil því leyfa mér að leggja það til, og vona eg að háttv. flutnm. verði mér sammála um það, að þetta mál verði afgreitt til stjórnarinnar með rökstuddri dagskrá, sem nái til rannsóknar allra kaupstaðanna. Góð stjórn mundi engu síður taka málið til athugunar, þótt það væri afgreitt með rökstuddri dagskrá, en, hana mætti orða svo:

„Í því trausti, að landstjórnin athugi til næsta alþingis, hvort og hvernig skifta eigi störfum bæjarfógetans á Akureyri og sýslumannsins í Eyjafjarðarsýslu og annara bæjarfógeta og sýslumanna, þar sem líkt á stendur, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá“.

Hér er farið fram á alveg það sama og í þingsáltill., bara með öðru móti.