25.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í B-deild Alþingistíðinda. (877)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Framsögumaður (Björn Þorláksson):

Eg vil aðeins tala örfá orð á þessu stigi málsins til þess að skýra frá, hvernig eg lít á fjárhag landsins. Eins og menn vita eru útgjöldin á aukafjárlögunum 142 þús. kr. í fjárlagafrv. stjórnarinnar er tekjuhallinn ekki nema 12 þús. kr., en hjá nefndinni hefir hann aukist um 130 þús. Þetta verður til samans um 280 þús. kr. Ef að vanda lætur, bætist talsvert við í báðum deildum; eg hefi lauslega áætlað, að það yrði 100 þús. kr. og er þá tekjuhallinn orðinn um 400 þús. Eg vil leyfa mér að benda á þetta, svo að þingmenn reyni að finna einhver ráð til þess að útvega tekjur, sem geti vegið þennan halla upp, því að öllum hlýtur að vera ljóst, að ekki tjáir að skilja við fjárlögin í slíku ástandi. Eg vil því vona, að menn gæti allrar varúðar og sanngirni; það er ekki nóg að heimta fé úr landsjóði, ef hag landsjóðs er svo illa komið, að enginn vegur sé til að hann geti fullnægt öllum þeim kröfum, sem gerðar eru til hans. Eg skal geta þess, að í ráði er, að borin verði fram frumvörp til þess að auka tekjur landsjóðs, og vona eg, að því verði vel tekið, þegar þar að kemur, því að öllum hlýtur að vera ljóst, að einhvern veg verður að finna til þess að bæta úr fjárhag landsjóðs, sem sannarlega er ekki góður nú sem stendur.