26.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í B-deild Alþingistíðinda. (878)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Benedikt Sveinsson:

Svo sem háttv. 1. þm. S.-M. (.J. J.) drap á, hefir það áður verið siður við þessa umr. að ræða gerðir stjórnarinnar, ávíta hana fyrir það, sem aflaga hefir farið og benda á það, sem ábótavant hefir þótt í fari hennar. Þetta var þó ekki gert á síðasta þingi, vegna þess að þá voru orðin ráðherraskifti við 1. umr. fjárlaganna. Nú hafa að vísu verið haldnir tveir eldhúsdagar á þessu þingi þegar bornar hafa verið fram vantraustsyfirlýsingarnar, en þó finst mér rétt, að sú venja sé ekki látin fyrnast með öllu að nota framhald 1. umr., fjárlaga til þess að tala um það, sem ábótavant er í fari stjórnarinnar, enda væri á margt að minnast, sem ennþá hefir ekki verið tekið fram. Eg ætla mér ekki að fara að ganga í skrokk á fyrverandi stjórn, en ætla aðeins að benda á nokkur atriði, þar sem mér virðist hún hafa sýnt hirðuleysi, og getur það þá verið núverandi stjórn til leiðbeiningar.

Eins og menn vita, berast stjórnarráðinu mörg bréf og póstsendingar á ári hverju. Er það venja, að landritari tekur öll frímerkin af bréfum þessum og póstsendingum. Þessu hefir verið hreyft í blöðunum og bent á, að það ætti ekki að eiga sér stað. En landritari hefir svarað, að hér væri aðeins um lítilræði, svo sem 100—150 kr. á ári, að ræða. Þetta er alls ekki rétt, og hefi eg full rök fyrir því, að hér er um stórum meira fé að ræða. Það er alls ekki réttlátt, að landritari, hæst launaði maðurinn í stjórnarráðinu næst ráðherra, fái þessar aukatekjur, hvort sem þær eru litlar eða miklar. Tekjurnar af frímerkjunum ættu annaðhvort að renna beint til landssjóðs eða þá til þeirra starfsmanna í stjórnarráðinu, sem eru lægst launaðir, til þess að síður þyrfti að hækka laun þeirra.

Eg ætla ekki að fara langt út í það, að sýna fram á, hvað frímerkin nema miklu fé. En eg vil benda á, að það hlýtur að vera mikið og að það er eign landsins, en ekki landritara. Eg skal geta þess, að einn sýsluskrifari hefir tjáð mér, að hann hafi eitt ár haft 300 kr. aukatekjur af frímerkjum þeim, er sýslumanninum bárust á bréfum og póstsendingum árlangt. Það má því geta nærri, að frímerki þau, er berast stjórnarráðinu árlega, eru nokkrum sinnum 300 kr. virði. Í því sambandi skal eg geta þess, að stjórnarráðið sendi í haust manntalsskýrslur út um land alt og nam þyngd þeirra nálægt 3000 pundum. Þessar skýrslur eru nú endursendar stjórnarráðinu. Var burðargjaldið 1 kr. fyrir hvert pund með landpóstum, en lægra með skipum. Eg hygg, að óhætt sé að ráðgera, að ekki hafi meir en þriðjungur af skýrslunum verið sendur með skipum, þar eð þetta var um nýársleytið og skipaferðir þá ekki tíðar. Hinir ? hlutamir hafa verið sendir með póstum. Nú er aðgætandi, að stjórnarráðinu berast einungis þjónustufrímerki eða þá önnur verðhá frímerki, helzt 1 og 2 kr. almenn frímerki. Verð allra þessara frímerkja er, þá er þau eru brúkuð, frá 60—90% af ákvæðisverði þeirra eða að minsta kosti 70% að meðaltali. Eftir þessum útreikningi hefir landritari haft um 1400 kr. aukatekjur, að eins af þeim 2000 pundum af manntalsskýrslum, er gera má ráð fyrir, að verið hafi endursendar stjórnarráðinu landveg. Hér við bætast svo tekjumar af þeim 1000 pundum, er send hafa verið með skipum og nema þær heldur ekki lítilli upphæð. Alt þetta hefir landritari fengið, auk allra þeirra venjulegu aukatekna, er hann hefir af frímerkjum stjórnarráðsins á hverju ári, sem eru geysimikil. Er nú nokkur sanngirni í, að landritari skuli fá alt þetta gefins? Nei, eg skil ekki, að nokkrum geti blandast hugur um, að réttara væri, að þessar aukatekjur rynnu beint í landssjóð eða þá til þeirra starfsmanna í stjórnarráðinu, sem lægst eru launaðir.

Svo vildi eg minnast á annað, sem að vísu eru ekki stórsakir, en leiðinlegt, að skuli eiga sér stað. Það er viðvíkjandi einkennisbúningum embættismanna og merkjum þeim, er sett eru utan á opinberar stofnanir. Það er algerlega ótilhlýðilegt og ástæðulaust, að ríkismerki Dana skuli vera sett utan á þinghúsið. Eg vonast til, að búið verði að taka þetta innlimunarmerki burtu, þá er eldhúsdagur verður hér næst. Það er einnig leitt að sjá lögregluþjónana hafa dönsk merki á húfu og belti, þar sem lögreglumál eru þó, jafnvel af Dönum, viðurkend sérmál Íslendinga.

Það er alveg sjálfsagt, að lögregluþjónar vorir beri íslenzk skjaldarmerki, eins og þeir dönsku dönsk.

Þetta kann sumum að þykja lítils varðandi, en það er þó ekki þýðingarlaust. Ber vitni um hirðuleysi og skort á þjóðarmetnaði, að burðast með útlend einkenni á búningum, þar sem íslenzk eru til og ætti stjórnin að koma þessum og þvílíkum óvenjum af sem fyrst.