25.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í B-deild Alþingistíðinda. (879)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Jón Þorkelsson:

Það er nú orðin venja, að nefndarálitin í stórmálunum eru farin að verða nokkuð rýr, eins og t. d. frá háttv. 2 þm. S.-Múl. (J. Ó.) í gær. Eg skal að öðru leyti ekki fara mikið út í þessi nefndarálit. Að eins vil eg geta þess, að mér virðist, að fjárlaganefndin hafi lítið annað gert en sitja yfir því að tína og telja skildinga, sem vafasamt er, hvort til séu. Fjárhaginn telur nefndin sökkvandi, en hefir þó ekki komið fram með neinar tillögur um að auka tekjumar, en hefir aftur á móti lagt það til, að landið lánaði út 70—80 þús. kr. Rýrara fjárlaganefndarálit hefir víst ekki sést hér á þingi. Þetta kemur kanske af því, að skrifari nefndarinnar er vanur að vera fremur fámæltur. En af öllu má þó ofmikið gera. Breytingartillögur nefndarinnar eru eins og goðasvör, og engar ástæður færðar fyrir neinum þeirra.

Út af ummælum háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) vil eg geta þess, að eg er honum samdóma um, að þessi dönsku innlimunarmerki, svo sem áletranir á hús, merki þau, er lögregluþjónar vorir bera á húfu og belti, og annar hégómi og hégilja, sem er arfur frá eldri tímum, ætti sem fyrst að hverfa. Ef öðru vísi stæði á, væri og ástæða til að fara út í ýmsar sakir, er stjórnin hefir ekki haft tíma til þess að framkvæma á fjárhagstímabilinu.

Eg vil minnast á eitt atriði hjá háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.). Hann talaði um að það væri rangt, að landritari skyldi hirða öll þau frímerki, er stjórnarráðinu bærust á bréfum og póstsendingum, og að þetta mundi nema mikilli fjárupphæð. Það getur verið, að hér sé um stóra upphæð að ræða, þó að eg telji það ekki mjög líklegt, en það er aðgætandi, að það er engin skylda fyrir landritarann eða neinn embættismann að hirða brúkuð þjónustufrímerki og því síður að skila landsstjórninni þeim. Það er og siður erlendis, að starfsmenn hirði frímerkin og fái vasafé af andvirði þeirra. Að landritari hafi dregið sér fé af þessu er mjög orðum aukið. Það hefir verið vakið máls á þessu í blaði háttv. þm. og hefir landritari gert fulla grein fyrir andvirði frímerkjanna, hefir hann t. d. varið nokkru af frímerkjafénu til að gefa heilsuhælinu, annað hefir gengið til lægsta starfsmanns stjórnarráðsins. Ef á að víta landritara fyrir að hirða frímerkin, mætti víta fleiri t. d. póstmeistara og landsgjaldkera. En landritari getur alls ekki verið vítaverður fyrir þetta, því að það er engin lagaskylda fyrir hann að hirða frímerkin. Með því að það er utanþingsmaður, er hér á í hlut, finnst mér, að háttv. þm. hefði heldur átt að koma með þessar aðfinnslur í blaði sínu en hér, svo að hlutaðeiganda hefði gefist kostur á að svara fyrir sig. Eg skal svo ekki að sinni fara lengra út í mál þetta nú. Það er lengi kostur á að ræða fjárlögin.