25.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í B-deild Alþingistíðinda. (881)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Benedikt Sveinsson:

Eg veit, að háttv. þm. Vestm. (J. M.) er svo vanur að fá góðar aukatekjur, að hann metur tekjur af frímerkjum ekki mikils. En þetta virðist þó vera honum viðkvæmt mál, eins og embættismönnum er vant að vera, þegar minst er á tekjur þeirra. Eg sé ekki, að það geti verið goðgá af mér að minnast á það, að ósanngjarnt sé, að landritari hafi stórar aukatekjur af frímerkjum landssjóðs og að þessar tekjur ættu heldur að renna til þeirra starfsmanna í stjórnarráðinu, sem eru lægst launaðir. Eða er það nokkur sanngirni í því, að landritari, sem er svo hálaunaður, skuli t. d. hafa haft um eða yfir 1400 kr. aukatekjur af frímerkjum þeim, er bárust stjórnarráðinu á manntalsskýrslunum?

Háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ ) sagði, að sýslumenn hefðu einnig aukatekjur af frímerkjum. Satt er það. En hér er alt öðru máli að gegna, því að bæði berast stjórnarráðinu margfalt fleiri bréf og póstsendingar á ári hverju en einum sýslumanni og svo mun það oft, að sýslumennirnir láta skrifara sína hafa aukatekjur af frímerkjunum, sem þeim berast. — Samkvæmt því ættu skrifararnir í stjórnarráðinu að fá frímerkin þar. Það er enginn samanburður á þeim aukatekjum, er landritari hefir af frímerkjum og þeim, er einn sýslumaður hefir af þeim. Það er heldur ekki að marka, þótt bæjarfógetinn hafi ekki þann tíma, er hann hefir gegnt embætti sínu, haft meiri aukatekjur af frímerkjum en 100 kr., þar sem hann fær nálega einungis bréf úr sínu lögsagnarumdæmi og burðargjaldið innanbæjar er miklu meira en helmingi lægra en burðargjaldið út um land. Ennfremur berst honum allur þorri bréfa, án þess að nokkurt burðargjald sé greitt undir þau. Háttv. þm. Vestm. (J. M.) furðaði sig á, að einum sýslumanni hafi á einu ári borist frímerki fyrir 300 kr. En það er aðgætandi, að þá voru frímerkjaskifti og svo verður einmitt einnig á þessu ári. Nú verða frímerkjaskifti í sumar, samkvæmt nýlega fengnum upplýsingum frá fyrverandi stjórn, svo að verð hinna eldri frímerkja hlýtur mjög að hækka. Hér er því alls ekki um neinn hégóma að ræða, eins og háttv. þm. Vestm. (J. M.) vildi halda fram. Annars virðist mér oft vera þrefað um 100 kr. og þesskonar smáræði hér á alþingi, þegar ræða er um þóknun til þeirra starfsmanna þjóðfélagsins, sem minsta borgun fá fyrir verk sín; þá eru slíkt ekki kallaðir smámunir. En þegar hér er um margfalt meiri upphæð að ræða, sem einhver hálaunaðasti embættismaður landsins tekur í fullkomnu lagaleysi og með engri sanngirni af eign landsins handa sjálfum sér, þá eru það kallaðir smámunir og hégómi. Er nokkur samkvæmni í þessu? Eg get ekki skoðað það neina goðgá að tala um utanþingsmenn, sem eru opinberir starfsmenn. Hjá því verður oft ekki komist, enda er daglega gert hér í þinginu. Það var heldur alls ekki ætlan mín, að mannskemma neinn, heldur aðeins að benda á það, að óhæfilegt væri að verja jafnmiklu fé, sem er landsjóðseign á þann hátt, sem gert hefir verið.

Háttv. þm.Vestm. (J. M.) sagði, að þingið varðaði ekkert um einkennisbúninga lögregluþjóna bæjarins. En þetta er algerlega rangt. Lögreglumál heyra undir valdsvið þingsins og það hefir fullan rétt til þess að krefjast, að lögregluþjónarnir hafi þann einkennisbúning, sem það ákveður. Það segir sig sjálft, að það er þvert ofan í lög og rétt, að íslenzkir lögregluþjónar hafi danskt ríkismerki á einkennisbúningum sínum. En hvað kostnaðinn við búningana snertir, finst mér sjálfsagt, að þingið leggi til fé til þess að lögregluþjónarnir geti losnað við þessi dönsku innlimunarmerki.