03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í B-deild Alþingistíðinda. (885)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Framsögumaður (Björn Þorláksson):

Eg vil leyfa mér áður en eg tala um einstakar breyt.till., að fara fáeinum orðum um fjárhaginn. Eg gat þess við 1. umr., að samkvæmt till. nefndarinnar yrði tekjuhallinn 140 þús. kr., þar við bætast 140 þús. á aukafjárlögunum; það verður samtals 280 þús. kr. Þar að auki hafa komið fram milli 60 og 70 brtill. um fjárveitingar, og hefir mér talist svo til, að þær mundu nema yfir 250 þús. kr. Ennfremur hefir verið farið fram á lánveitingar, sem nema eitthvað 160 þús. kr., og færi þá tekjuhallinn að verða sæmilegur, ef þetta yrði alt samþykt. Þess skal reyndar getið um leið, að stungið hefir verið upp á að færa niður ýmisleg útgjöld, og mun sú niðurfærsla nema hér um bil 80 þús. kr. — Eg get nú ekki stilt mig um að lýsa undrun minni yfir slíku háttalagi og vil leyfa mér að spyrja háttv. þingmenn um, hvaða leik menn eru að leika hér í deildinni. En vera má, að þingmennirnir, sem sjálfir taka þátt í þessum leik, verði eigi fljótir til svars, og væri því ef til vill réttara að beina þessari spurningu til áheyrendanna. Margir mundu kalla það trúðleik, þennan bardaga þingmanna um krónur landssjóðs, sem er tómur, — en eg vil kalla það sorgarleik. Mér dettur í hug dálítil skrítla. Mann einn langaði til að fá sér á pytluna. Hann fór til konu einnar, sem hann var vanur að selja fisk, og spurði hana, hvort hún vildi ekki kaupa heilagfiski fyrir 2 kr. Hún kvað já við og borgaði honum peningana, en þegar hún spurði, hvar heilagfiskið væri, svaraði náunginn, að það væri í sjónum! Mér finst vera hér um líkt að ræða; hér er verið að deila um peninga, sem eru — í sjónum, og geta ekki komið á land í næstu 2 ár, að minsta kosti ekki nema lítill hluti þeirra. Aðganginum undir umræðunum um fjárlögin hefir oft verið líkt við hvalskurð í fjöru; en eg vil ekki endurtaka þá samlíking, því að hvalinn hefir ennþá ekki rekið og hann getur ekki rekið. Eg skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta.

Eg vil þá snúa mér að tekjukaflanum og gera stutta grein fyrir, að hverju leyti nefndin hefir breytt áætluninni um tekjurnar. Breytingarnar eru ekki miklar. Aukatekjurnar eru færðar niður um 5000 kr., en útflutningsgjald af fiski, síld og lýsi hækkað úr 135 þús. kr. upp í 150 þús. Árið 1909 voru tekjumar af þessu 200 þús. kr., svo að eg vona að deildin sjái, að hér er farið gætilega að. Aftur á móti þótti meiri hluta nefndarinnar stjórnin hafa áætlað of háan áfengistoll fyrir árið 1912. Samkvæmt áætlun hennar ætti hann að verða 360 þús. kr. Rétt er að taka það fram til skilningsauka, að áfengi má ekki flytja inn, þegar þetta ár er liðið, en það sem áður er flutt inn, má vera í tollgeymslu 1 ár, og má þá búast við, að tollgreiðslan af því að meiru eða minna leyti dragist fram undir árslokin. Stjórnin leit nú svo á, að áfengi mundi eigi einungis verða flutt inn fyrir þetta ár, ?: 1912, heldur og fyrir 2 ár að auki, því að svo lengi helzt vínsöluleyfið. Fyrir síðara árið hefir stjórnin slept að setja nokkurn toll, og skoða eg það sem gleymsku, því að þó eigi leyfist að flytja inn áfengi 1913, þá verður þó flutt inn óáfengt öl og meðalaspíritus, og hefir nefndin áætlað 30 þús. kr. toll af þeim vörum. — Eg vil þá aftur víkja að þessum 360 þús. kr. Eg held að það sé eigi of hátt áætlað, en meiri hluti nefndarinnar vildi lækka þessa upphæð um 60 þús. kr. og varð það að bráðabirgðasamkomulagi í nefndinni, að halda fast við 300 þús. kr. En nú er það orðið kunnugt, að nokkrir nefndarmenn þykjast ekki bundnir við þetta samkomulag og ætla að greiða atkvæði með, að áætlunin verði lækkuð niður í 200 þús. kr. Eg skal svo ekki tala fleira um það að sinni.

Að lokum vil eg geta um eina lítilfjörlega brtill. Nefndin vill fella burt undir 13. tekjulið orðin: »Leyfisbréfagjöld og«, og hækka liðinn á ári um 2500 kr., því að eftir að bannlögin eru komin á, geta engin ný vínsöluleyfi bæzt við, og má þá ganga að því vísu, að ársgjöldin lækki. — Þá er ein lítil brtill. á þskj. 402, að fyrir »ríkissjóð« komi »ríkissjóð Danmerkur«. Nefndin er henni samþykk.

Eg hefi svo ekki annað að segja um tekjurnar en þetta.