03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í B-deild Alþingistíðinda. (886)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Ráðherra (Kr. J.):

Svo sem hv. þingmönnum er kunnugt, hefi eg ekki átt þátt í undirbúningi þessa frv. og eg hefi ekki starfað með fjárlaganefndinni, enda var hún komin langt með verk sitt, þegar eg varð ráðherra. Eg get því að eins tekið lítinn þátt í þessum umræðum, en tel það þó skyldu mína að segja nokkur orð á þessu stigi málsins um það, hvernig mér lítist á fjárhagshorfurnar. Háttv. framsm. (B. Þ.) hefir þegar tekið margt fram af því, sem eg vildi sagt hafa og þarf eg þá ekki að endurtaka það. Nokkrar upplýsingar vil eg þó gefa um almennan hag landssjóðs. Eg hefi getið þess áður hér í deildinni, að svo var komið hag vorum um nýárið, að þeir sem hafa landssjóðinn með höndum, urðu hræddir um, að hann gæti eigi staðið í skilum með skyldugjöld sín. Það var svo langt komið, að farið var til annars af bönkunum hér í bænum, og hann beðinn um að hlaupa undir bagga með landssjóði, ef á þyrfti að halda. Þetta nefni eg sem dæmi upp á það, hvernig ástandið var. Þegar til kom, þurfti ekki á þessu að halda. Landssjóður er nú í c. 470 þús. kr. viðskiftaskuld við ríkisféhirzlu, sem heimta má hvenær sem vill. Í sjóði hjá landsféhirði eru ca 150 þús. kr., sem ætlaðar eru til að kaupa veðdeildarbréf fyrir. Það er með öðrum orðum svo: að um 200 þús. kr. vantar upp á, að landssjóður geti goldið skuld sína til ríkissjóðs. Það er óhjákvæmilega nauðsynlegt, að svo mikið sé í sjóði hjá landsféhirði, að staðið verði í skilum með dagleg útgjöld hvenær sem er, en það er langt frá því, að þessu sé óhætt Ástæðan til þessa ólags er, að of mikil gjöld hafa verið lögð á landssjóð, og að of mikið hefir verið lánað út síðustu árin, það er að segja, að alt of mikið fé hefir verið fest í viðlagasjóði. Peningaforði landssjóðs hefir verið festur þar. Viðlagasjóður var eftir síðustu prentuðu skýrslum nálægt 1½ miljón króna, en mun nú vera um 1730 þús. kr.

Önnur ástæðan til hins örðuga fjárhags landssjóðs eru bankavaxtabréfakaup hans. Landssjóður hefir keypt þau síðan 1909 svo að nemur um 1.300.000 kr. (1 milj. 300 þús. kr.), en eigi hefir öllu lánsfénu, sem tekið var til þessara kaupa, verið varið til þeirra, og hefir kaupverðið þá verið greitt af peningaforða jarðabókarsjóðs; hvernig lánsfénu að öðru leyti hefir verið varið, er mér ókunnugt; hefi eigi enn getað grafið það upp. Hefi eg þó leitast við að fá skýrslu um það, en ekki tekist enn. Eg mun skýra þinginu frá því, þegar er mér er komin full vitneskja um það, hvernig fé þessu hefir verið varið, sem fyrverandi ráðherra tók hjá bönkunum í Kaupmannahöfn.

Úr því að eg fór að minnast á þetta, þá skal eg skýra frá skuldum landssjóðs. Við danska banka skuldar landssjóður 1425 þús. kr., er það ofannefnt lán; við ríkissjóð ca. 467 þús., eða alls 1892 þús. kr. Fyrir þessu eru til 1300 þús. kr. í bankavaxtabréfum og hið síðara lánið var sett í arðberandi fyrirtæki, aðallega síma. Eg mintist á það áður, að ein orsökin til þessa örðuga hags landssjóðsins, væri sá, hve mikið fé væri fast í viðlagasjóði. Í sambandi við þetta skal eg geta þess, að ekki er útlit fyrir, að nokkurt nýtt lán verði veitt úr viðlagasjóði á næsta fjárhagstímabili. Þetta bendi eg á deildinni til leiðbeiningar, til þess að hún hrapi ekki að því að samþykkja nýjar lánsheimildir. Það er enginn vegur til þess, að landsstjórnin geti veitt lán, þar sem fé er ekki fyrir hendi til þess. Á landssjóði hvíla loforð frá fyrverandi ráðherra um lán, sem erfitt verður að fullnægja, en verður þó að uppfylla, því að það er ekki sæmilegt, að landsstjórnin haldi ekki loforð sín, þótt ráðherraskifti verði.

Stjórnin gerir í frumv. sínu ráð fyrir 12 þús. kr. tekjuhalla. Þar við bætast 125 þús. kr., sem háttv. framsögum (B. J.) sagði, að fjárlaganefndin bætti við í tillögum sínum. Á fjáraukalögum er útgjalda aukinn um 142 þús. kr. Og enginn veit, hvað miklu einstakir þingmenn fá bætt við. Enn er ótalið, að til skólanna vantar í fjárlögunum minst 15 þús. kr., ef fullnægja á fyrirmælum gildandi laga.

Þá skal eg víkja að einum tekjuliðnum, sem eg tel alt of hátt settan. Það er ölfangatollurinn. Stjórnin gerir ráð fyrir í frv. sínu, að hann verði 360 þús. kr. f. á. og 30 þús. síðara árið. Þetta er mikils til of hátt. Eg hefi spurst fyrir hjá mönnum, sem bezt skyn bera á þetta mál, embættismönnunum í stjórnarráðinu, og að þeirra áliti er það eigi gerlegt að áætla upphæðina hærri en 200 þús. kr. f. á. og 20 þús. kr. síðara árið. Eg sé líka, að einhverjir þingmenn hafa komið með br.till. um að lækka þennan tekjulið nákvæmlega eins og eg nú drap á, að sennilegast væri, hvort sem þeir hafa bygt á sömu skýrslum sem eg eða ekki. Það má því gera ráð fyrir, að tekjurnar séu áætlaðar um 110 þús. kr. of hátt hjá fjárlaganefndinni, en 140 þús. kr. hjá stjórninni. Auk þessa má gera ráð fyrir ca. 250 þús. kr. útgjöldum við br.till. einstakra þingmanna, svo að með því yrði tekjuhallinn samkvæmt framansögðu rúmar 700 þús. kr. á fjárhagstímabilinu. Og þótt tillögur einstakra þingmanna væru undanskildar, mundi tekjuhallinn nema rúmri ½ miljón á fjárhagstímabilinu. Eg veit ekki, hvaðan á að taka alt þetta fé. Mitt álit er og hefir frá öndverðu verið, að landið ætti aldrei að taka lán nema til ákveðinna, nauðsynlegra og helzt arðberandi fyrirtækja, en alls ekki til að fylla það skarð, sem verður af tekjuhalla fyrir ógætilega fjárlagasetningu. Það er óyndisúrræði, og vona eg, að aldrei komi til þess, ef deildin beitir sínum ítrustu kröftum til að gera lögin svo úr garði, að þau verði viðunanleg, sjái ráð til að auka tekjurnar sannsýnilega og færi niður gjöldin sem mest má verða, gæti þess, að veita ekki fé til fyrirtækja, sem landssjóður getur orðið fyrir skakkaföllum af. Eg treysti því og veit það, að deildin gerir skyldu sína í þessu efni, og vona. að þingdm. sjái, að eg tala þetta af einlægri umhyggju fyrir velferð landsins.

Eg gleymdi að minnast á það, er eg mintist á tekjur landssjóðs, að fjárlaganefndin leggur til að gefa ullarverksmiðjunni á Akureyri upp vexti, að upphæð 6000 kr., af láni teknu 18. jan. 1908. Frá sjónarmiði landsstjórnarinnar er þetta hættuleg braut. Sjálfur er eg algerlega mótfallinn þessari tillögu. Ef þetta verður samþykt, þá verður næsta sporið að biðja um uppgjöf á öllu láninu. Þetta ættu þingmenn vel að athuga.