03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í B-deild Alþingistíðinda. (891)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Björn Jónsson:

Eg vil benda á það, að hefði ekki áfengisbannið komist á, þá hefði áfengistollurinn í þessi 3 ár, 1912, 13 og 14, orðið 600 þús. kr. En nú er gert ráð fyrir 330 þús. árið 1912, enda er ólíklegt, að úr því að áfengi fæst í landinu, að menn muni minka það við sig meir en alt að helmingi. Það eru alt spádómar.

En að skortur verði á áfengi þessi 3 ár frá 1912—15, tel eg mjög ólíklegt, því að þótt margir kaupmenn hefðu ekki reiðu peninga til að birgja sig upp, þá má ganga að því vísu, að lánstraust til vínkaupa verði takmarkalaust í Danmörku, því að ef ilska er í bræðraþjóð vorri út af nokkru máli, þá er það út af bannlögunum. Og eg tel það áreiðanlegt, að allar peningalindir þar í landi verði galopnar til þess að veita áfengi yfir Ísland.

Það gæti verið á margt að minnast, sem eg þó tel tilgangslítið að fara út í að sinni. Þegar til atkvæða kemur má búast við, að handagangur verði í öskjunni, og sá þyki mestur, sem rífast fær af hvalnum.

Eg stóð aðeins upp til að benda mönnum á það, að fjárhagurinn hefir oft verið óálitlegri en nú.