03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í B-deild Alþingistíðinda. (895)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Ráðherra (Kr. J.) Háttv. l. þ. m. Eyf. (H. H.) beindi þeirri fyrirspurn til mín, hvort eg hefði sagt, að lánspeningar þeir, sem landssjóður átti að fá til bankavaxtabréfakaupa, væru ekki enn þá að fullu komnir fram og greiddir á réttan stað. Eg ætlaði ekki að segja þetta, og eg held, að þetta hafi ekki falist í orðum mínum. Hitt vildi eg sagt hafa, að eg hefi enn ekki fengið neina áreiðanlega, greinilega og sundurliðaða skýrslu um, hvernig fénu hefir verið varið og bíð eg eftir henni. Eg ætti að geta haft hugmynd um þetta málefni, því að síðan 1. jan. 1910 hefi eg daglega verið í Landsbankanum og haft stöðugt eftirlit með því sem fram hefir farið þar, bæði uppi og niðri. En eg hefi ekki enn getað gert mér glögga grein fyrir því, hvernig umræddu lánsfé hefir verið varið. Eg efast ekki um, að því hafi verið varið réttilega og að öllu leyti eftir tilgangi sínum, og hefi nú lagt fyrir skrifstofu stjórnarráðsins, þá sem á að fara með slík mál, að gera fullkomna og ábyggilega grein fyrir ráðstöfun lánspeninganna, og mun eg þá að sjálfsögðu þegar skýra þinginu frá skýrslum þeim, er fram koma.