03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í B-deild Alþingistíðinda. (896)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Sigurður Gunnarsson:

Það eru fyrst örfá orð viðvíkjandi ræðu háttv. þm. S.-Þing. (P. J.). Það var alls ekki meining mín að rengja tölurnar sjálfar, sem hann fór með. Eg veit, að hann er samvizkusamur maður, sem gerir sér mikið far um að fá glögt yfirlit yfir fjárhagsástandið, en mér sýndust ályktanir þær, sem hann dró út frá þessum tölum, ekki vera sem allra ábyggilegastar. Mér heyrðist á háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.), að hann væri mér reiður, og mér þykir leitt, ef eg á einhvern hátt hefi sært hann með orðum mínum. Hann sagði, að eg hefði kastað til sín smánarorðum vegna konungsmóttökunnar, en það verð eg eindregið að bera til baka. Eg hefi ekkert smánarorð mælt í hans garð, hvorki fyr né síðar. Hann vildi kasta af sér allri ábyrgð af kostnaðinum við konungskomuna, en það verður nú ekki út skafið, að hann var foringi þess flokks, sem þá hafði völdin, bæði í því og öðru, og bruðlunarsemin við konungsmóttökuna verður því að skrifast að miklu leyti á hans reikning. Allir vildu, að móttakan yrði sómasamleg, en ef háttv. þm. hefði lagt eyrun við raddir manna út um land, þá held eg að hann hefði heyrt þá skoðun hjá flestum, að móttakan hefði getað orðið fullsómasamleg, þótt minna hefði verið sóað. En það tjáir ekki að sakast um orðinn hlut. Eg drap að eins á þetta, af því að háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) leiddi samanburðinn á fyrri stjórn og fráfarandi stjórn inn í mál sitt. Líka vildi háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) bera þau orð mín til baka, að hans stjórn hefði verið heppnari, hvað árferði snerti, en stjórn Björns Jónssonar. Eg sný nú samt ekki aftur með það, að í hans stjórnartíð var stakt góðæri, ekki að eins hvað tíðarfar snerti, heldur stóð t. d, verzlun okkar með miklum blóma, og mörg stórfyrirtæki voru á ferðinni. Þetta gaf miklar tekjur í svip. En það fór svo, að landsmenn spiluðu of hátt spil og »speculeruðu« yfir sig. »Reaktionina« vildi háttv. þm. kenna glapræðinu 1908. Hvaða glapræði var það? Var það meðferð landsmanna á sambandsmálinu? Eg get ekki skilið það, að landið hafi mist traust sitt erlendis, þótt það vildi halda í sögulegan og náttúrlegan rétt sinn. Eg býst við, að háttv. þm. fái ekki marga til að skrifa undir það með sér; það væri þá helzt, að bræðraþjóð okkar Danir væru honum kannske sammála um það af skiljanlegum ástæðum.