03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í B-deild Alþingistíðinda. (899)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Framsögumaður (Björn Þorláksson:

Eg heyri að í dag eru eldhússdagsumræður, en eg ætla ekki að taka þátt í þeim, heldur halda mér við efnið. Eg vildi sérstaklega minnast á vínfangatollinn, því að umræður hafa talsvert snúist um það, hvort hann væri rétt áætlaður. Háttv. S.-Þing. (P. J.) sagði, að vínfangatollurinn væri nú of hátt áætlaður, af því að hann hefði reynst að vera minni en áætlað var á síðasta þingi. En þetta er ekki rétt hjá háttv. þm., því það getur enginn sagt neitt með vissu um það. Að vísu reyndist vínfangatollurinn minni en áætlað var á síðasta þingi, en ástæðan fyrir því mun hafa verið sú, eins og háttv. þm. Snæf. (Sig. G.) tók fram, að, þá er tollurinn var 1909 hækkaður um 30%, hafi ýmsir kaupmenn birgt sig svo vel upp, áður en tollaukalögin öðluðust gildi, að þeir hafi haft nægilegar vínbirgðir fram á síðastliðið ár. Þetta mun einmitt vera ástæðan fyrir því, að vínfangatollurinn reyndist minni en áætlað var á síðasta þingi. Eg hygg því, að tollurinn muni reynast samkvæmt því sem hann nú er áætlaður. Háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) sagði, að tollurinn væri of hátt áætlaður, því að 1907 hefði hann aðeins verið 213 þús. En það er aðgætandi, að tollgjaldið var þá lægra, 30% hækkun tollsins var þá ekki komin til sögunnar; og sé eg því enga ástæðu til að færa áætlunina niður nú. Háttv. þm. Barð. (B. J.) tók fram með réttu, að ef flutt yrði inn vín til 3 ára, og ef innflutningurinn væri miðaður við hvað mikið hefði verið brúkað af víni að undanförnu, þá væri áætlun fjárlaganefndarinnar sízt of há. Eg vildi taka þetta fram til þess að mótmæla ummælum háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.). Ástæður þær, er færðar hafa verið á móti áætluninni eru á alls engum rökum byggðar. Annars þýðir ekki að ræða mál þetta meira, því eg hygg, að háttv. þm. geti ekki orðið ásáttir um það, og verða atkvæði þingdeildarmanna að skera úr ágreiningnum.