27.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í B-deild Alþingistíðinda. (90)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Jósef Björnsson:

Eg ætla að leiða hjá mér að fara að deila við hv. frsm. um álagið til Viðvíkurkirkju, þótti mér hann fara helzti hörðum orðum um það mál. En eins og biskup landsins hefir tekið fram, er fullur réttur til þess, að kirkjan fái þetta álag greitt.

Þá tók hann ekki mýkri móðurhöndum á orðum þeim, er eg sagði um Skagafjarðarbrautina, og hann gat þess til, að þau orð mín mundu ekki hafa sannfært marga. — Eg skal nú ekki um það segja, en vel má vera að þau hafi gefið einhverjum deildarmanni efni til athugunar, þótt þau að vísu hafi ekki sannfært hv. frsm.

Eg vil geta þess, að vegurinn frá Sauðárkróki er hvergi nærri eins góður og hann vildi halda fram. Hann talaði og mikið um, hvað miklu fé hafi verið varið til vegagerðar um Skagafjörð. Já, sér er nú hvað. Vitanlega hefir verið gert dálítið við veginn af Vatnsskarði og fram Blönduhlíð, — rutt nokkrum steinum úr götunni o. s. frv. Þó liggja enn margir steinar víða í götunni, og vegur sá er enginn gæðavegur á ýmsum pörtum.

Þá mintist hann á, að eg hefði gleymt brúnni á Norðurá; það er að vísu satt að eg mintist hennar ekki; en sú brú heyrir eiginlega ekki frekar til Skagafjarðarsýslu en Eyjafjarðarsýslu, því hún er á Öxnadalsheiðarveginum — póstleiðinni — fyrir framan alla bygð. Sú brú er auk þess mjög lítilfjörleg, en ekkert stórvirki, svo að þótt hennar hefði verið getið, þá raskaði það sáralitlu fjárhæð þeirri, sem eg sýndi, að Skagfirðingar hefðu fengið til vega. Og þetta er aðalástæða háttv. frsm. gegn brautinni. O, jæja! „Litlu verður Vöggur feginn.“

Ekki eru röksemdirnar gegn því að leggja brautina sterkar.