03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í B-deild Alþingistíðinda. (907)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Jón Jónsson (1. þm. N.-Múl.):

Eg vil andmæla ummælum háttv. 2. þm. Rang. (E. J.) um styrkbeiðni þá til sjúkraskýlis, sem komið hefir úr kjördæmi mínu. Hann leit heldur einhliða á það mál og fór um það ósæmilega hörðum orðum. Hvaða gagn hafa menn af því, að læknishéruð séu stofnuð, ef enginn læknir fæst til að tolla í þeim. Hér er aðallega um það að ræða að byggja bústað handa lækni. Læknar eru, hvað það snertir, heimtufrekari en alþýða og ef þeim er ekki gert til hæfis, geta menn átt á hættu, að þeir þakki fyrir góð gerðirnar og hverfi úr héraðinu; þeir geta sett héraðsbúum sínum stólinn fyrir dyrnar og þess vegna verða menn að taka tillit til þeirra og hlynna að þeim. Eg veit ekki heldur betur, en að bæði landlæknir og aðrir skynbærir menn telji nauðsyn á að koma upp sjúkraskýlum. Það getur að vísu verið erfitt, að koma þeim upp, en mikið má ef vel vill, enda verður að sjá einhver ráð til þess jafnframt því sem ný læknishéruð eru stofnuð. Eg endurtek að aðallega er um það að ræða, að koma upp bústað handa lækninum, þar sem hann unir hag sínum og getur tekið á móti sjúklingum og veitt þeim nauðsynlega hjúkrun. Og eins og eg tók fram áðan, getur læknirinn sagt: Ef eg fæ ekki bústað, þá fer eg. Auðvitað mætti spyrja, hvort héraðsbúar gætu ekki framkvæmt þetta sjálfir. Ef til vill gætu þeir það, en þeim mundi veita það mjög erfitt, enda er ósanngjarnt að demba slíkum kostnaði á sveitarfélag. Eg skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta, en vænti að till. fái gott fylgi í deildinni.