03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í B-deild Alþingistíðinda. (917)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Jón Sigurðsson:

Eg vildi að eins leyfa mér að minnast með fáum orðum á breytingartillögu þá á þskj. 395, er eg hefi komið fram með um styrkveitingu til mótorbátsferða á Hvítá í Borgarfirði. Það hefir að undanförnu verið veittur 750 kr. styrkur til þessara ferða. Nú hefir það komið í ljós, að vélin í bátnum, sem notaður er til ferðanna, er ekki nógu kraftmikil og þarf þess vegna að kaupa nýja. Hlutaðeigendur hafa óskað eftir að fá 1000 kr. styrk til þessara kaupa, en eg hefi ekki þorað að koma fram með beiðni um hærra en 800 kr. Skal eg geta þess, að hér er um nauðsynjamál að ræða, og að ekki væri rétt að kippa nú að sér styrkveitingu til fyrirtækis, sem áður hefir verið veittur styrkur til. Slíkt gæti orðið til þess að eyðileggja fyrirtækið, og hefði þá verið betra, að aldrei hefði verið veittur neinn styrkur til þess. Eg vonast fastlega til, að háttv. fjárlaganefnd verði vel við þessari styrkbeiðni. Það mætti auðvitað binda styrkveitinguna því skilyrði, að stjórninni skuli heimilt að kveða á um ferðir og flutningsgjald. Eg skal ennfremur geta þess, að ef styrkur þessi verður veittur, er ráðgert að halda uppi mótorbátsferðum víðar en á Hvítá, t. d. upp eftir Mýrunum; hagar þar víða svo til, að hægt er að fara á mótorbát upp eftir árósum þar. Eg skal svo ekki fjölyrða meira um þetta, en vænti þess, að háttv. deild sjái, að hér er um þarflegt fyrirtæki að ræða og verði við styrkbeiðninni.