03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í B-deild Alþingistíðinda. (929)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Bjarni Jónsson:

Eg skal ekki lofa því, að halda mönnum vel vakandi, því að það eru margir liðir, sem eg get ekki gengið fram hjá.

Fyrst ætla eg að gera nokkrar athugasemdir við brtill. háttv. fjárln. Það er þá fyrst við 13. gr. A. 1. b. 1., að í stað 7000 komi 6600 kr. Eg veit ekki hvaða rök eru fyrir því, að fara að færa niður laun póstafgreiðslumanna í Rvík um þessar 400 kr. Mér finst frv. ekki fara of hátt, og er því mótfallinn þessu. (Björn Þorláksson. Rökin eru tekin fram í nefndarál).

Þá er brtill. við B. I. 2, um að færa laun aðstoðarverkfr. niður í 2400 kr. Eg lagði til að lækka þessi laun á síðasta þingi, en þá komst þingið að þeirri niðurstöðu, að þau mættu ekki vera lægri. Eina ástæðan nú mun vera sú, að Íslendingur á að taka starfann, en þá ástæðu læt eg mér ekki lynda. Verkfræðingar geta alstaðar fengið hærri laun en þetta, og sérstaklega veit eg það, að sá maður, sem hér er um að ræða, mundi ekki þurfa að leita lengi fyrir sér eftir betri stöðu. Ekki sé eg heldur hvaða ástæða er til þess, að færa skrifstofukostnaðinn úr 700 niður í 500 kr. Það er smámunasemi, en engin rök fyrir.

Þá er ein till. nefndarinnar á þgskj. 239, að í stað 40 þús. komi 39 þús., eða með öðrum orðum að lækka styrk þann, er skifta skal á milli ýmissa flutningabáta um 500 kr. og taka umráð þess fjár úr hendi stjórnarinnar. Eg álít rétt, að stjórnin hafi það í sinni hendi, því að þar þarf ýmist meira eða minna, og úthlutar þá stjórnin fénu, eins og bezt á við, eftir því, hvernig á stendur. Breiðafjarðarbáturinn komst ekki af með minna en 8 þús. kr., en hér er gert ráð fyrir 7 þús. Það ætti að gera mönnum sem hægast fyrir um að bæta flutningana frá því sem nú á sér stað. Nú hefir dönsk verzlun ferðirnar á hendi, og fær þannig landssjóðsstyrk til vöruflutninga sinna.

Það hefir gleymst að lagfæra »hraðskeyti« og setja í staðinn »loftskeyti«. Deildin hefir nú samþykt loftskeytin, og ekki kemur það til mála, að orða þetta sitt á hvað í sömu greininni. Hér eru því þegar tekin af öll tvímæli, svo að þetta ætti að geta gengið orðalaust.

Um D II. 2. skal eg ekki segja annað, en að benda háttv. fjárln. og deildinni á það, að hugsanlegt er að leggja símann frá Búðardal til Stykkishólms aðra leið, en gert er ráð fyrir, sem sé hinum megin fjarðarins frá Langey, og yfir Breiðasund, það er ekki lengra en út Skógarströndina. Eg hefi nú ekki komið fram með till. um það, en veit ekki, hvort eg geri það seinna.

45. brtill. er sama aths. og áður um hraðskeyti og loftskeyti.

Svo kemur aths. við 14. gr. B, um styrkveitingar við æðri skólana, að húsaleigustyrkur skuli veittur utanbæjarmönnum eingöngu. Það getur nú verið nokkuð til í þessu, og eg ímynda mér að allir skólastjórar láti innanbæjarmenn mæta afgangi, en óþarfi er að kveða svo stranglega að orði. Það gæti orðið til þess, að styrkur yrði veittur utanbæjarmönnum, sem betur eru staddir, en hinir, því að þótt menn búi innan bæjar, geta þeir eins þurft á fé að halda, og verið jafn rétt að veita þeim og hinum. Þess vegna er slík aths. óþörf. Skólastjórar vita betur um ástæður nemenda, en þingið, og aldrei er hægt að gera ráð fyrir öllum tilfellum.

Næst er að minnast á kvennaskólann í Rvík. Nefndin vill veita honum 7 þús. kr., en með því skilyrði að ? af reksturskostnaðinum komi annarsstaðar að. Þessi aths. við þennan skóla og marga aðra, er þess valdandi, að féð fæst ekki fyr en eftir á, eða þá aldrei, því að skólinn fær ekki svo mikinn styrk úr öðrum áttum, hann hefir ekki nema 500 kr úr bæjarsjóði. Hann hefir sótt um 9—10 þús. kr. og þyrfti að fá það. Kostnaðurinn eykst af aðsókninni; nú segir forstöðunefndin, að sé alveg plásslaust, og skólinn getur ekki borgað kennurum sínum nema 70—75 aura fyrir tímann. Þetta er alveg óviðunanlegt, með því fær hann ekki nema allra lökustu kennara, ef hann fær þá nokkra. Þá hefir og orðið að bæta við einum bekk, og verður það alt til þess að auka kostnaðinn. — Ef mönnum þykir of mikið fara til skólans, eins og hann er nú rekinn, þá er ekki annað, en að landssjóður taki við honum í sína eigu með öllu sem hann á, sem eru 20 þús. kr., því að það stendur til boða. Hann á sjóð, sem ætlast er til, að varið verði til hússkaupa, til þess að hann þurfi ekki að leigja sér húsnæði eins dýrt og það er nú, 2500 kr., auk vatns og ljóss. Nú kunna menn að fara að vitna í það, að þessi skóli sé hér í Reykjavík og ekki fyrir aðra, en þá skulum við bera saman, hve margar sveitastúlkur eru á þessum skóla og öðrum. Þær eru 73 hér, en ekki nema 30—40 á Blönduósskólanum, eða m. ö. o. helmingi færri. Þetta er ekki svo staðbundið, eða hve margar af Blönduósskólastúlkunum ætli séu úr Húnavatnssýslu? Og Reykjavík ætti enda tilkall til síns skóla, þótt hún væri ein um hann, því að þar býr ? hluti allra landsmanna. Þegar svona er ástatt, á skólinn það ekki skilið, að svo sé með hann farið, og hver verður afleiðingin? Féð verður ekki nægt til að reka skólann, nema hann fari ofan í sinn eiginn vasa og eyði hússjóðnum. Eini liðurinn, sem kynni að mega hækka, er styrkurinn úr bæjarsjóði, og drægi það víst ekki stórt. Eg sé ekki hvað er unnið með þessu, annað en það, að hamla þroska og viðgangi skólans. Hann verður þá að hætta við að bæta við sig einum bekk og bæta við sig kennurum. Því ætti landið ekki að kosta þann skóla, sem sótt er að um land alt? Það kostar gagnfræðaskólann á Akureyri, þótt annar sé hér samskonar. Það er sagt, að konur eigi aðgang að þeim báðum líka. Já, eg skal koma að því. Hvernig færi, ef 121 stúlka kæmi inn í mentaskólann? Þá þyrfti að fjölga bekkjum og byggja nýtt skólahús, ef til vill. Það yrði dýrt, og kennurum þyrfti að fjölga um svona þriðjung. Menn geta nú reiknað, hvort ódýrara muni vera. Það er margt að athuga við þetta. Það er ekki rétt að taka aftur með annari hendinni það sem veitt er með hinni, og landssjóð eiga allir, Reykvíkingar jafnt og aðrir, og segi eg þetta af því, að það kveður einatt við, hve mikið þeim sé lagt til. Reykvíkingar hafa ekki beiðst meiri fjárframlaga, en þeir hafa átt rétt á, tiltölulega við aðra. Þær tölur, sem eg hefi tilfært, eru frá skólastjórninni sjálfri og því óhrekjanlegar.

Svo ætla eg að minnnast á 60. lið hjá fjárlaganefndinni. Þar er talað um kenslu blindra barna í Danmörku. Eftir orðalaginu hlýtur hér að vera átt við blind böm í Danmörku, helzt dönsk og önnur, sem þar eru í landi, en ekki eingöngu íslenzk börn, sem þangað eru send. Annars skil eg ekki, hvers vegna endilega þarf að binda þetta við Danmörku með lögum, í stað þess að hafa erlendis. Er óskiljanlegt að ekki megi fá eins góð kjör annarsstaðar en í Danmörku.

Ein tillaga nefndarinnar er það, sem eg er mjög fylgandi, og það er styrkurinn til Stefáns Eiríkssonar til kenslu í tréskurði. Verð eg því að mæla hið bezta með þeirri tillögu.

Í 13. gr. er gert ráð fyrir brú á Austurá í Dölum. Þykir mér mjög vænt um það. Á þessi er oft ófær yfirferðar; rennur hún þar sem komið er niður af Bröttubrekku, þegar að sunnan er komið. Geta menn því orðið úti við hana, ef illa vill til.

Auk þessarar brúar er mikil þörf á brúm og vegum í því héraði. Á þingskjali 404 hefi eg farið fram á, að landið léti brú gera á Ljá í Dölum. Verkfræðingur landsins hefir áætlað, að brú þessi mundi kosta 3000 kr. Á þessi er ill yfirferðar, rennur í halla og er stór hættuleg á vetrum, því að kaldaversl er í og ryður hún sig því, þegar minst varir. Póstur sá, sem gengur á milli Ísafjarðar og Hjarðarholts, leggur sterklega til, að á þessi sé brúuð. Yfir á þessa á allur vesturhluti Dalasýslu að sækja til læknis, og stórt hérað í kaupstað í Búðardal.

Þar sem brú þessi mun ekki kosta meira en 3000 kr, og þegar tekið er tillit til, hversu nauðsynleg hún er, þá vonast eg til, að þingið samþykki þessa fjárframreiðslu. Landssjóður hefir lagt lítið fram til samgöngufæra í þessu héraði, og lítið að öðru leyti því til þarfa. Á síðasta þingi voru að vísu veittar 10,000 kr. til að mæla upp Gilsfjörð, en stjórnin hefir ekki látið gera neitt í því efni. 1000 kr. voru veittar til vegagerðar milli Ljárskóga og Svínadals. Á Fáskrúð vantar brú, sem er á ill yfirferðar. Hérað þetta hefir verið mjög vanrækt. Enn hefi eg verið beðinn að leita eftir styrk til að brúa Kjarlaksstaðaá. Er það stór á, og má oft frá henni snúa, einkum þegar íshroði er á henni. Hún liggur að vísu ekki á landssjóðsvegi, heldur sýsluvegi. En yfir hana verður að sækja lækni og margt fleira. Vildi eg fara fram á, að þingið veitti ? hluta af verðinu. Verkfræðingur landsins hefir gert áætlun um, að sú brú mundi kosta 7000 kr. Áin er of breið til þess, að það geti trébrú verið. Hún hlýtur því að verða annaðhvort úr járni eða steini. Eins og eg gat um, þá hefir verkfræðingurinn gert áætlun um þessa brú, en skjöl því viðvíkjandi munu glötuð. Eru hvorki hjá stjórnarráðinu né sýslumanni, og enginn veit hvar þau eru niðurkomin. Eg veit ekki, hvort sýslan vill leggja fram þann ? hluta, sem á mundi vanta, en þó svo væri ekki, þá yrði það ekki eyðslufé, þótt þingið leyfði þessa fjárveitingu Skal svo lokið umræðum um það mál

Við 14. gr. hefi eg gert nokkrar breyt. till. Handa aukakennara við Mentaskólann ætlast eg til að veittar verð 1800 kr. í stað 1600 kr. Eftir minni hyggju er það rangt að níðast á vissum mönnum, sem ekki hafa annars að gjalda, en að þeir hafa komið of seint, og verða fyrir þá sök að vera atvinnulausir, eða sama sem, svo árum skiftir. Eg hefi stungið upp á 1800 kr., ekki af því, að eg álíti það sæmilega borgun, en þó er það nokkuð í áttina.

Þá hefi eg borið það fram, að síra Ólafi Ólafssyni í Hjarðarholti í Dölum séu veittar 2000 kr. til þess að halda lýðskóla á heimili sínu. Hefir hann haldið þessháttar skóla í vetur. Allir hér þekkja þennan mann og vita, að það er gáfaður maður og vel mentaður. Börn hans hafa og notið góðrar mentunar, meðal annars hér í Mentaskólanum, og munu því vel fallin til að taka þátt í þeirri kenslu. Eg hefi að vísu tekið þessa till. aftur í bili, og bíð þar til eg sé, hvað verður um fræðslufrumvarp stjórnarinnar í efri deild.

Þá er ein till. viðvíkjandi prestinum í Suður-Dalaþingum. Vill hann fá styrk til að byggja upp prestssetrið Kvennabrekku. Eftir þeim nýju lögum um skipun prestakalla, eiga 2 brauð þar að steypast saman. Situr hann í öðru þeirra, en prestssetur verður ekki ákveðið, fyr en brauðin renna saman. Fær hann því ekki lán úr landssjóði upp á brauðið. Húsin eru þar fallin, en maðurinn er bláfátækur. Vona eg því, að háttv. deild líti á nauðsyn þessa manns og veiti þennan litla styrk. Þessar fjárhæðir, sem eg hefi nefnt, eru svo litlar, en allar nauðsynlegar.

Þá hefi eg gert ráð fyrir 200 kr. til póststimpla. Það stendur svo á því, að á mörgum stimplum hér stendur Danmörk. Ætti þessu að breyta. Ekki veit eg hvort þetta fé er of lítið, eða mikið, en stjórninni er óhætt að bæta við, ef þörf gerist. Það sjá allir, hver ómynd er að hafa þessa stimpla. Ef upphæðin er fjarri sanni, þá má laga það við 3. umr.

Þá býst eg við, að eg hafi vikið að flestu því, sem eg hefi verið beðinn fyrir, og mér hefir legið á hjarta.