27.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í B-deild Alþingistíðinda. (93)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Ráðherra (Kr. J.):

Eg hefi leyft mér að biðja um orðið, til að mæla með mjög lítilli br.till., sem eg hefi komið fram með. Eg get sagt það mér til hróss, að það er í fyrsta sinn á æfi minni, sem eg kem með br.till. til hækkunar á fjárlögunum, þó eg hafi oft fengist við þau í þessari deild. Það stendur svo á þessu máli, að hreppsnefndin í Ytri-Akranesshreppi fór þess á leit við mig, að eg færi fram á nokkurn styrk fyrir hreppinn, til aðgerðar á bryggjunni í Krossavík á Akranesi. Hv. fjárlaganefnd þessarar deildar hefir haft skjölin til athugunar. Þau komu eigi til mín, fyr en nefndin í nd. hafði lokið starfi sínu, og því kaus eg að snúa mér til nefndarinnar hér. Nú hefir nefndin ekki séð sér fært að taka þessa beiðni Akurnesinga til greina og því hefi eg borið fram þessa br.till. á þskj. 717, er fer fram á 1000 kr. fjárveiting fyrra árið til þessarar bryggjuaðgerðar. En svo hefi eg bætt við því ákvæði, að styrkurinn veitist með því skilyrði að hreppurinn hafi ábyrgð á því, að bryggjan verði til almenningsnota og annist viðhald hennar. — Þessi bryggja var bygð árið 1908, og kostaði rúmar 7 þús. kr., en hreppurinn fékk úr landsjóði 2000 kr. styrk til verksins, auk þess sem laun verkfræðingsins, 380 kr., voru einnig greidd úr landsjóði. Afganginn, c. 4800 kr., hefir þessi litli hreppur lagt til, að undanskildum 700 kr., er sýslusjóður lét af hendi rakna. Eg hygg, að sumir hv. deildarmanna hafi séð þessa bryggju. Hún er aðal- eða eina bryggja á Akranesi, og notuð þar af póstbátnum og við alla uppskipun. Nú er það komið í ljós, að hún hefir skemst svo mjög á síðastliðnu hausti, að hún þarf talsverðrar aðgerðar við. Landsverkfræðingur Þorvaldur Krabbe hefir skoðað skemdirnar og lýst þeim í bréfi, sem nefndin hefir haft handa í milli. Þar segir hann svo: „Brúin er þannig löguð, að á steinsteyptum stöplum hvíla járnbitar og bera þeir þverbita af timbri, en yfir þeim eru þilplankar lagðir eftir endilangri bryggju. Það sem skeð er, er að sjórinn hefir mætt svo á stöplunum, þar sem járnbitarnir voru steyptir fastir, að þeir eru nú alveg lausir á 5 neðstu stöplunum. Ennfremur hafa þverbitarnir smátt og smátt skorist niður yfir járnbitana, og sjórinn hefir loks slegið nokkra þilplanka úr.“ — Þannig er lýsing verkfræðingsins á skemdunum. Eigi þetta mannvirki ekki að verða ónýtt, þá verður að vinda bráðan bug að aðgerðinni. Eg býst líka við að hreppurinn ráðist í það, en hann er ekki ríkur, og á því afar örðugt með það. Hann er sömuleiðis talsvert skuldugur, og stafar það meðal annars af því, að hann hefir tekið að sér kirkju, sem hefir orðið honum æði dýr. Ennfremur hefir hann bygt dýrt skólahús, sem þó er oflítið samkvæmt nýju skólalögunum. Af þessum ástæðum treystir hreppurinn sér ekki til að standast kostnaðinn við bryggjuaðgerðina, og því er þessi br.till. fram komin. Þessar 1000 kr., sem farið er fram á, er hin lægsta upphæð, sem landsverkfræðingurinn álítur að komast megi af með, ef aðgerðin á að vera sæmileg. En svo á hreppurinn að hafa allan veg og vanda af bryggjunni á eftir. Eg gat þess áðan, að póstbáturinn notaði þessa bryggju, og ef svo fer, sem ýmsir telja líklegt, að innsiglingin á Borgarfjörð reynist svo slæm til lengdar að farið verði að setja póstinn á land á Akranesi, þá verður hún enn nauðsynlegri. Hitt get eg líka um, að þetta er einasta lendingar- og uppskipunarbryggjan á Akranesi, sem nú er orðinn æði stór verzlunarstaður. Eg vona að hv. deild líti náðugum augum á þetta mál; ef frekari upplýsingar óskast, skal eg fúslega láta þær í té.