27.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í B-deild Alþingistíðinda. (94)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Gunnar Ólafsson:

Eg hefi, eins og fleiri, komið með br.till. við þennan kafla fjárlaganna, þær eru þrjár talsins, og eru á þgskj. 750, 751 og 758. Engin þeirra er stór, en þó vill svo illa til, að nefndin leggur á móti þeim öllum. Um till. á þgskj. 750 skal þess getið, að maðurinn, sem farið er fram á styrk til, Karl Sveinsson, er sonur Sveins bónda í Hvammi í Mýrdal. Hann sigldi fyrir fjórum árum til Hafnar, og stundaði þar rafmagnsnám í þrjú ár. Síðan fór hann til Mittweida á Þýzkalandi og hefir verið á þeim skóla á annað ár. Hann sótti til þingsins um 1000 kr. styrk hvort árið, og í rauninni getur hann ekki haft full not af minni upphæð. En þar sem þingið hefir í svo mörg horn að líta og svo margar styrkbeiðnir hafa komið fram, þá hefi eg að eins farið fram á 600 kr. hvort árið. Þessi maður er mjög efnilegur, og hefir gengið framúrskarandi vel, eins og hin ágætu meðmæli hans, er hann hefir sent til þingsins, bera með sér. En nú er svo ástatt fyrir föður hans, að hann getur ekki kostað hann lengur. Hann seldi eignarjörð sína, til að geta kostað hann utanlands, og hefir nú bara bú eins og hver annar rétt sjálfbjarga bóndi og getur því ekki látið neitt verulegt af hendi rakna. Þegar þess er ennfremur gætt, að margir hafa áður fengið samskonar styrk, sem ekki hafa haft jafngóða hæfileika og þessi maður, þá sé eg ekki, að það geti kallast ósanngjarnt að fara fram á þessa litlu fjárveitingu til hans. Auk þess eru hér á landi, eins og kunnugt er, fáir menn, sem hafa sérþekkingu á rafmagnsfræði, en á hinn bóginn verða verkefnin fyrir slíka sérfræðinga stöðugt fleiri og meiri, svo að landið hefir sjálft mestan gróða af að styrkja menn til þessa náms. Eg vona því, að hv. deild lofi þessari till. fram að ganga, þó að nefndin hafi ekki getað fallist á hana. — Þá hefi eg á þgskj. 758 farið fram á 600 kr. styrk hvort árið til Guðjóns Samúelssonar frá Reykjavík til þess að fullkomna sig í húsbyggingafræði í Khöfn. Eg játa, að eg er þessum manni ekki persónulega kunnugur, en á hinn bóginn hefi eg sannfrétt, að hann er framúrskarandi góðum hæfileikum búinn, enda hefir hann ágæt meðmæli, sem hv. nefnd eru kunn, því hún hefir haft þau handa á milli. Eg verð því að álíta það fullkomlega réttmætt, að styrkja þennan efnilega unga mann til náms, ekki sízt þegar þess er gætt, að við eigum mjög fáa sérfræðinga í þessari grein, en þörfin fyrir þá vex með ári hverju. Guðjón hefir gengið í þrjú ár á skóla í þessum fræðum í Höfn, og hefir þaðan ágætan vitnisburð. En faðir hans hefir ekki efni á að kosta hann þar lengur, og því hefir hann leitað til þingsins. Eg vona, að hv. deild taki þessari beiðni vel. — Þá er þriðja br.till., á þskj. 751, við 22. gr. fjárlaganna. Hún fer fram á það, að stjórninni veitist heimild til að lána lækninum í Vestmannaeyjum, Halldóri Gunnlaugssyni, alt að 6000 kr., til að standast byggingarkostnað við embættisbústað, sem hann hefir ráðist í. Hv. framsögumaður gat þess, að þesskonar beiðni hefði verið vísað frá í nd., af þeirri ástæðu, að nd. leit svo á, að stjórnin gæti lánað embættismönnum fé til að koma sér upp embættisbústað, án þess heimild þyrfti til þess í fjárlögunum. Sama álit lét hæstv. ráðherra í ljós, að ekkert væri því til fyrirstöðu, að læknirinn geti fengið þetta lán, þó heimild til þess væri ekki samþykt á þinginu, ef á annað borð væri fé fyrir hendi til þess. Að vísu þætti mér bezt, að þessi lánsheimild væri samþykt, eins og till. fer fram á, en þar sem þetta er upplýst, og hv. nefnd er á móti henni, þá getur verið að eg taki hana aftur síðar.

Eg get ekki stilt mig um að minnast á eina br.till. nefndarinnar við 16. gr., sem sé þá, að gefa H/f Iðunn 6000 kr. Háttv. framsm tók það reyndar fram, að félag þetta hefði sótt um lán úr Viðlagasjóði, en þar sem ekkert fé væri fyrir hendi að lána, þá hefði nefndin tekið þetta ráð, að gefa félaginu 6000 kr. Eg get ekki betur séð, en að nefndinni hafi verið hér mjög mislagðar hendur. Hún verður að neita fjölda fjárbóna, sem mesta nauðsyn væri á að veita, en svo hleypur hún til og fer að gefa hlutafélagi stórfé. Og það er því síður ástæða til að gjöra þetta, sem félagið mun gefa rentur, eða að minsta kosti ekki bera sig mjög illa. Háttv. framsm. sagði, að félagið hefði nýlega orðið fyrir tjóni, þar sem hús þess hefðu brunnið. En eg held, að það sé einsdæmi, ef þingið fer að gefa fjárupphæðir, þótt félög eða einstakir menn verði fyrir tjóni af eldsvoða, eða öðrum ástæðum. Eg vil taka það fram, að eg álít þetta ekki rétta meðferð á fé landsins, og þar að auki er það hættulegt, ef þingið byrjar á slíku. Því ef þessu félagi er veitt fé, þá eru mörg önnur félög í landinu og einstakir menn, sem eiga sanngirniskröfu á hinu sama. Hér er því gengið út á stórhættulega braut fyrir þingið, að fara að gefa á þennan hátt, og það því fremur, sem þetta félag getur vel haldið áfram, þótt það fái ekki þessa peninga. Margir af hluthöfunum eru menn góðum efnum búnir.

Þá er enn eitt, sem eg vildi minnast á. Háttv. nefnd hefir lagt það til, að lækka styrkinn til Helga Péturssonar. Eg skal ekkert dæma um það, hve vel eða illa hann hefir unnið að sínu starfi, en eg vildi að eins benda nefndinni á, að það hittist illa á, að hún skuli leggja þetta til nú, þar sem það er kunnugt, að maðurinn misti heilsuna svo að hann gat ekki sótt um styrk úr Carlsbergsjóðnum, og að hann hefir engan annan styrk en þennan. Mér finst því sanngjarnt eftir ástæðum að láta styrkinn halda sér eins og hann er.

Þá vildi eg minnast á að eg get ekki felt mig við, að lækkuð sé upphæð sú, sem háttv. neðri deild vildi veita til Þorsteins skálds Erlingssonar, eins og fjárlaganefndin vill gjöra. Mér finst styrkurinn svo lítill, að það taki því ekki að minka hann frá því sem áður var. Eg ætla, að menn skilji það, að úr því að skáldin hafa fengið skáldalaun, þá sé það leiðinlegt að taka það af þeim eða minka þau, þegar þau fara að eldast. Mér finst, að þingið megi ekki kippa að sér hendinni í þessu efni, og þar sem þetta er svo lítið, en hefir þó talsverða þýðingu fyrir skáldið, þá tekur ekki að breyta því. Mér finst þessi lækkun líka eiga sérstaklega illa við af því, að nefndin vill hækka styrk við annað skáld, Matthías Jochumsson, sem að vísu er eldri og meira liggur eftir, en það er samt ekki samræmi í því. Eg held, að réttara hefði verið að láta sama styrk standa og verið hefir handa báðum þessum mönnum, og eg vona að fleiri verði til þess að fylgja þessari skoðun, fremur en tillögu háttv. nefndar. Þá leggur nefndin til, að fjárveitingin til viðskiftaráðunautsins sé ekki bundin við nafn, hún vill fella það burtu. Eg sé ekkert á móti því að þessi fjárveiting sé bundin við nafn, eins og margar aðrar fjárveitingar. Sá maður, sem hefir haft það starf á hendi undanfarið, hefir gegnt því vel, svo vel, að eg efast um að aðrir hefðu gert það betur. Það er reyndar vitanlegt, að allir hafa ekki litið svo á, en það ber að taka til greina, að á móti manninum hafa verið miklar æsingar, oft litaðar af pólitískri óvild; eg segi ekki að tillaga nefndarinnar stafi af því.

Þetta var það helzta, sem eg ætlaði að benda á, og eg sé ekki ástæðu til að lengja umræðurnar meira.