03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í B-deild Alþingistíðinda. (942)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Framsögumaður (Björn Þorláksson):

Eg skal þá leyfa mér að fara fyrst nokkrum orðum um 15. gr. frv. Fyrir breyttill. sínum hefir nefndin gert grein í nefndarálitinu, en eg verð þó að fara nokkrum orðum um sumar þeirra. Það er lagt til, að 600 kr. séu veittar hvort árið, til þess að Ísland gangi í hið svonefnda Bernersamband, til þess að vernda rétt íslenzkra rithöfunda. Það hefir tíðkast í útlöndum, að íslenzkar bókmentir hafa verið þýddar og gefnar út að höfundum fornspurðum og endurgjaldslaust. Þannig hefir verið hallað á íslenzka rithöfunda. Tillagan er þá gerð í því skyni, að rétti þeirra verði ekki lengur traðkað, og þeir fái fult endurgjald fyrir, að rit þeirra eru þýdd á önnur mál. Styrk þennan má kalla almennan skáldastyrk, og því er minni ástæða eftir en áður að hækka styrk til einstakra skálda í framtíðinni.

Þá er önnur tillaga þess efnis, að bókasafni Seyðisfjarðarkaupstaðar séu veittar 500 kr., eitt skifti fyrir öll, til kaupa á íslenzkum bókum. Bókasafn þetta er ekki mjög gamalt, það er stofnað fyrir tæpum 20 árum, hefir altaf haft lítið fé til umráða og aðallega varið því til kaupa útlendra bóka. Það á því ekki aðrar íslenzkar bækur en þær, sem hafa verið gefnar út fáein síðustu árin, eftir að þau lög gengu í gildi, að fjórðungabókasöfnunum skyldi sent eitt eintak af öllum þeim ritum, sem gefin eru út á Íslandi. Eg vona því, að tillaga þessi fái góðan byr hér í deildinni, og verði samþykt.

Þá verð eg að leiðrétta dálítið mishermi í nefndarálitinu. Þar stendur nefnilega, að magister Ágúst Bjarnason skuli fá sama styrk og hann hefir nú. Þetta er ekki rétti. Hann hefir undanfarin 2 ár haft styrk bæði árin, en nú hefir nefndin viljað leggja til, að hann fái aðeins styrk fyrra árið, 1912. Eg hefi heyrt sagt, að þessi styrkur geti ekki komið að fullum notum, og býst því við, að málið verði athugað aftur á fundi nefndarinnar fyrir 3. umræðu og ef til vill leiðrétt þá.

Frá háttv. þingmönnum hafa komið 13 breyt.till. við þær greinar, sem nú eru til umræðu. Eg mun, eins og áður, að eins minnast á þær, sem nefndin hefir fallist á. Það er þá fyrst breyt.till. á þingskjali 386, um að styrkurinn til jarðskjálftarannsókna sé hækkaður um 50 kr. á ári. Maðurinn, sem við þær fæst, hefir lýst því yfir, að hann geti ekki fengist við starfið lengur, ef styrkurinn sé ekki hækkaður, og þar sem farið er fram á svo lága upphæð, sér nefndin eigi ástæðu til að leggja á móti þessari fjárveitingu.

Þá er breyt.till. á þskj. 410, um hækkun á námsstyrk til Laufeyjar Valdimarsdóttur. Styrkurinn var í upphafi áætlaður 300 kr. Brtill. fer fram á 500 kr., en nefndin vill fara meðalveg og mæla með 400 kr. styrk. Eg verð að fara örfáum orðum um brtill. á þskj. 402, um útgáfu alþingisbókanna. Sú fjárveiting var feld í nefndinni með öllum atkvæðum Eg var persónulega hneigður til þess að styðja þessa fjárveitingu, því að hér er um mikinn fróðleik að ræða, en þar sem það hefir ekki fengið náð á fyrri þingum, get eg sætt mig við, að það dragist eitt árið enn.

Þá hafa komið nokkrar tillögur um hækkun skáldastyrks. Meiri hluti nefndarinnar vildi halda sér við frv. stjórnarinnar, en ýmsir háttv. nefndarmenn lýstu því þó yfir, að þeir vildu hafa atkvæði sín óbundin í þessu máli.

Viðvíkjandi brtill. nefndarinnar við 16. gr., get eg vísað til nefndarálitsins. Þó skal eg geta þess, að nefndin hefir lagt til, að ein upphæðin til bændaskólans á Hólum, ?: til verklegrar kenslu, sé færð niður, í því skyni, að samræmi komist á milli fjárveitinganna til Hólaskóla og Hvanneyrarskóla. Hólaskóli hefir hingað til haft hærri styrk, en nefndinni þykir rétt að gera ekki upp á milli skólanna, þar sem engar ástæður hafa verið færðar fyrir því.

Það var felt hér í deildinni fyrir nokkru frumvarp til laga um eftirlaun handa

Torfa skólastjóra í Ólafsdal, með rökstuddri dagskrá. Deildin ætlaðist til þess, að fjárlaganefndin sæi fyrir fjárveitingu til hans, sem viðurkenningu fyrir gott starf í þarfir þjóðarinnar. Nefndin hefir því lagt til, að Torfi í Ólafsdal skuli settur inn í þessa grein fjárlaganna með 1200 kr. í stað 1500 kr., sem hann hafði áður. En nefndin hefir sömuleiðis felt í burtu orðin: til verklegrar búnaðarkenslu, og með því gefið í skyn, að hann þurfi ei að gera grein fyrir, hvernig hann verji þessu fé, en það beri að eins að skoða sem viðurkenningu fyrir langt og gagnlegt æfistarf.

Í 99. breyt.till. nefndarinnar við 16. gr. stendur, að 33. liður falli burt. Það er prentvilla — á að vera 31. liður. 31. liður er um 2500 kr. fjárveitingu fyrra árið, til þess að byggja turn á Hólakirkju. Nefndin vill fella þessa fjárveitingu burt, jafnvel þótt hún viðurkenni, að kirkjan sé merkileg. En hún sá ei ástæðu til að veita fé til þessa nú, þar sem svo mörg þarfafyrirtæki verða að bíða.

Þá skal eg minnast á brtill. háttv. þm. við þessa grein. Nefndin hefir athugað þær allar, en eg vil að eins tala um þær, sem hún hefir aðhylst.

Fyrst er breyt.till. á þskj. 363, um að 3000 kr. séu veittar til framhalds rannsóknar á járnbrautarstæði austur í sýslur. Nefndinni var kunnugt, að fé hefir verið veitt til þessa á fjárlögunum áður, en veit ei hve langt rannsókninni er komið og hversu mikið fé muni þurfa til að ljúka henni. Afstaða nefndarinnar í þessu máli er því óráðin, þangað til nánari upplýsingar koma, sem hæstv. ráðherra getur væntanlega gefið.

Þá hefir komið fram tillaga um það, að fella burt styrkinn til samvinnusmjörbúanna, en veita í þess stað 5000 kr., til þess að styrkja nýstofnuð smjörbú. Nefndin verður að leggja á móti þessari tillögu, með því að hún lítur svo á, að tilgangurinn með styrkveitingunni til smjörbúanna hafi í upphafi verið sá, að hjálpa til að koma þeim á laggirnar og styrkja þau fyrstu árin. Í samræmi við það hefir styrkurinn minkað um 2000 kr. á ári. Mér hefir láðst að geta þess, að í frumv. stjórnarinnar er byrjað á sömu upphæð og endað var á seinasta ári, 12 þús. kr., og hefir nefndin því komið með brtill., að í stað 12 þús. og 10 þús. kr. í frv. stjórnarinnar komi 10 þús. og 8 þús. kr.

Ennfremur hefir nefndin fallist á breyt.till. háttv. þm. Skagf. (Ó. Br.) á þskj. 373, um fjárveitingu til bryggjugerðar á Sauðárkrók, 3000 kr., gegn ? hlutum annarsstaðar frá. Með því að hér er farið fram á það sama og nefndin hefir fallist á, að veitt sé til bryggjugerðar á Húsavík, vill nefndin einnig mæla með þessari styrkveitingu.

Á þskj. 369 er brtill. sem fer fram á, að Landsbankanum séu gefnir upp vextir af seðlum, sem bankinn hefir frá landssjóði. Eins og kunnugt er, fékk bankinn 750 þús. kr. frá landssjóði í seðlum, og á samkvæmt 2. gr. bankalaganna að gjalda 1% vexti af þeim. Meiri hluti nefndarinnar lætur tillögur þessar hlutlausar og eru atkvæði nefndarmanna því óbundin í þessu máli.

Þá eru ekki fleiri breyt.till. við þessa grein, sem nefndin hefir aðhylst, eða lætur hlutlausar. Við 17. og 18. gr. eru engar brtill.

Við 19. gr. er ein brtill. frá háttv. þm. Dalamanna (B. J.), en með því að hún fer fram á það sama og brtill. nefndarinnar nr. 105, þá er hún óþörf.

Þá skal eg leyfa mér að fara nokkrum orðum um lánbeiðnirnar í 22. gr. Eins og eg sagði í upphafsræðu minni um fjárlögin, þá er farið fram á lán úr viðlagasjóði, sem samtals nema 161 þús. kr. Hæstv. ráðherra hefir nú lýst því yfir, að ekkert handbært fé væri að fá úr viðlagasjóði, enda var nefndinni kunnugt um, að svo mundi vera. Þar sem ganga má að því vísu, að ekkert gagn verði að því, þótt lánbeiðnir þessar séu samþyktar, vill nefndin ekki vera að leggja fast að þingmönnum að fella þær, þótt hún sé yfirleitt á móti þeim. Ef menn hafa gaman af að vera að flagga með þessar lánsheimildir á pappírnum, þá er, ef til vill, ekki vert að vera að svifta þá þeirri ánægju.

Eg hefi þá drepið lauslega á þær breyttill. við þennan kafla fjárlaganna, sem nefndin vill leggja til að samþyktar verði, eða er ekki mótfallin. Flestum hinum, sem eg hefi ekki minst á, er nefndin á móti.