03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í B-deild Alþingistíðinda. (943)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Einar Jónsson:

Eg vildi leyfa mér að segja fáein orð, vegna þess, að eg hefi komið fram með nokkrar breyt.till. við fjárlagafrumvarpið, sem hér liggur nú fyrir. Háttv. fjárlaganefnd hefir ekki komið fram með neinar breytingartillögur um skáldastyrkina og hefi eg því leyft mér að koma með þær. Eg sýndi á síðasta þingi, að eg er því mótfallinn, að skáldum sé yfirleitt veittur nokkur styrkur. En ef þeim er veittur styrkur, verður styrkveitingin að vera óhlutdræg. Þess vegna hefi eg komið fram með breytingartillögur á þskj. 384 um að Einari Hjörleifssyni verði ekki veittur hærri styrkur en Guðmundi Magnússyni, eða með öðrum orðum, að styrkur Einars verði lækkaður niður í þá upphæð, er Guðmundur hefir, og ennfremur, að styrkurinn til Þorsteins Erlingssonar verði færður niður um helming. Eg veit, að Þorsteinn Erlingsson hefir aðeins einu sinni gefið út 1 kvæðabók, sem flestum mun að vísu þykja góð. En á þingið altaf að halda áfram að launa hann fyrir þetta? Eg hygg, að hann sé búinn að fá bókina nógu vel borgaða. Hann hefir ekki, að undanteknum nokkrum tækifæriskvæðum, er honum mun oftast vera goldið fyrir, ort neitt annað en þessa einu bók. Annað liggur ekki eftir hann. Mér finst það ekki rétt, að landssjóður sé að halda áfram að launa hann fyrir að ganga með hendurnar í vösunum, og vildi mega vænta þess, að honum væri sjálfum þyrnir í augum, að taka meiri peninga úr landssjóði fyrir Þyrna sína. Eg vona að háttv. þm. athugi það vel, að hér er um landsfé, en ekki þeirra eigin fé, að ræða. Mig langaði til að koma fram með tillögu um, að styrkurinn til Þorsteins Erlingssonar, og helzt allra skálda yfir höfuð, yrði strykaður út af fjárlögunum. En af því að eg þekki vel, hvernig háttv. deild tók í þetta mál á síðasta þingi, hefi eg ekki þorað að koma fram með slíka tillögu, en er háttv. deild hinsvegar þakklátur, ef hún vildi taka breytingartillögu mína til greina.

Mér finst óréttlátt, að styrkurinn til Einars Hjörleifssonar skuli vera meiri en til Guðmundar Magnússonar, sem vinnur þó alla jafna mest allra skálda, og að margra dómi engu lakari en aðrir skáldsagnahöfundar. Einar Hjörleifsson hefir ritað ýmislegt, sumt dágott, en sumt fremur lélegt. Mér er ekki kunnugt um, að hann hafi gefið út nein rit síðan »Ofurefli« kom út, en sem eg hygg að hafi verið honum sjálfum ofurefli, þar sem hann þarf svo mjög að hvíla sig á eftir. Mér er nú að vísu tjáð, að rit hans, sem »Gull« nefnist, sé þegar komið út. Það er á þessu augnabliki lagt hér á borðið hjá mér og sýnist vera fallegt hið ytra. En þar eð bókin er alveg nýútkomin, býst eg við, að margir hafi alls ekki lesið hana ennþá. Það er því alls ekki víst, að þetta gull sé nokkurs virði, en landssjóðsgullið aftur á móti hefir fult gildi. En alveg burtséð frá því, hvort þetta Gull hans Einars Hjörleifssonar er nokkurs virði, verð eg að halda því fram, að það er mjög ranglátt að veita honum hærri styrk en Guðmundi Magnússyni. Það ætti þó að minsta kosti að gera þeim jafnhátt undir höfði. Að því er styrkveitingu skáldanna snertir, sem virðast reyndar fremur vera föst laun en styrkveiting, skal eg til samanburðar geta þess, að bændur fá að eins einu sinni styrk úr þeim sjóðum, sem annars veita þeim nokkuð, t. d. sjóði Kristjáns 9., Ræktunarsjóðnum og máske fleiri, fyrir framúrskarandi dugnað í jarðabótum; þessi styrkur er mjög lítill, svo sem 50—150 kr., og þetta á bændunum að nægja. En á þá Þorsteinn Erlingsson o. fl. skáld að liggja altaf uppi á landssjóði, enda þó verkið sé að eins að hafa einu sinni gefið út eina kvæðabók? Mér finst að sama regla ætti að gilda um skáldin og bændurna, að heiðursstyrkur sé veittur í eitt sinn fyrir vel unnin, þörf og nauðsynleg verk, en árleg laun ekki. Einar Hjörleifsson og Þorsteinn Erlingsson eru að ýmsu leyti vel gefnir og gætu því lifað á því, sem þeir ynnu sér inn við ýms ærleg störf, sem vel hæfra manna þarfnast. Það er óþarft, að landssjóður skuli vera að ala þá. Hið sama er að segja um Guðmund skáld Guðmundsson. Hann er vel gefinn maður og hefði vel getað lokið námi, ef hann hefði verið reglusamur. En landssjóður á ekki að gjalda þess, og sé eg enga sanngirni í að veita honum neinn styrk. Það ætti helzt að slá svörtu striki yfir allar þessar styrkveitingar til skáldanna.

Þá vildi eg minnast á breytingartillögu, er eg hefi komið fram með, um lánbeiðni til að hlaða í Djúpós til verndunar Safamýri. Mér hefir verið tjáð, að ekkert þýddi að koma fram með lánbeiðnir, því að ekkert fé væri til, en eg hefi samt sem áður komið með tillöguna, samkvæmt vilja kjósenda minna. Eg hygg, að allir hinir háttv. þm. hafi heyrt Safamýri nefnda. Skal eg í stuttu máli skýra frá því, hvað hún gefur af sér nú og hvað hún gæti gefið af sér, ef hún væri vernduð fyrir vatnságangi af Djúpós, eftir því sem kunnugir og fróðir menn álíta. Mýrin er um 4000 vallardagsláttur að stærð og er nú venjulega heyjað í henni um 11—12 þús. hestar. En ef hið umbeðna lán yrði veitt og því varið til þess að vernda mýrina fyrir vatnságangi, mætti, að kunnugra manna sögn, heyja í henni 40—48 þús. hesta til viðbótar, og auk þess á Hofshverfis- og Sandhólaferjuengjum 6—7 þús. hesta fram yfir það, sem nú gengst við. Eg hygg því, að engum geti blandast hugur um, að lánbeiðnin sé á góðum rökum bygð og að þessum peningum sé mjög vel varið til þessa fyrirtækis. Lánið umbiðst því aðeins, að landsverkfræðingurinn skoði, hvort hægt sé að stemma stigu fyrir vatnságanginum, og einungis gegn ábyrgð sýslunnar. Það hafa komið svo margar breytingartillögur við fjárlagafrv., að það er nálega ókleift að rekja þær allar. Eg get þó ekki stilt mig um að minnast á eina breyt.till., sem gengur út á að veita stórstúku Good templara styrk sem að undanförnu, enda þótt eg þykist vita, að margir háttv. þm. reki upp stór augu, er eg minnist á þetta. Það er alkunnugt, að til eru hin svo nefndu aðflutningsbannslög frá 1909. Hvað hefir þá stórstúkan að gera með styrk? Ætlar hún kannske að nota hann til þess að útrýma víni úr landinu, þegar ekkert vín er innflutt? Þarf hún að senda Sigurð regluboða út um land, til þess að stofna stúkur, þegar allir verða að vera í bindindi, vegna þess að ekkert vín er að fá? Nei, það er augljóst, að styrkveitingin er óþörf. Stúkan getur hætt að starfa og má því setjast í helgan stein, en það er algerlega óþarft að launa hana til þess.

Eg skal ennfremur minnast á tillögu frá háttvirtum þm. Rvk., um að veittar verði kr. 3000.00 til þess að rannsaka járnbrautarsvæði austur í sýslur. Eg er háttv. þm. þakklátur fyrir tillöguna og hefðu þeir ekki komið með hana mundi eg og háttv. samþingismaður minn hafa gert það. Samskonar tillaga var feld á síðasta þingi vegna eintómrar hlutdrægni. Áður hafði verið veittar kr, 16000.00 til þessa fyrirtækis, en síðasta þing vildi ekki veita þá hina litlu upphæð, sem fram á var farið, til þess að rannsakað yrði til hlítar, og þær 16000 kr., sem áður voru notaðar, því til einkis gagns enn þá. Það er bæði sjálfsagt og nauðsynlegt að rannsaka þetta mál, og óska eg þess fastlega, að tillagan nái fram að ganga.