03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í B-deild Alþingistíðinda. (944)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Jón Magnússon:

Eg á breytingartillögu, sem stendur í sambandi við fjárveitingu, sem fyrir skömmu var samþykt hér í deildinni. Þessi breyt.till. fer fram á að lána Vestmanneyingum fé til hafnargerðar í eyjunum. Eins og eg tók fram, þegar fjáraukalögin voru hér til umræðu, þá er höfn í Vestmanneyjum lífsskilyrði fyrir fiskiútveg eyjabúa. Mótorbátum eyjamanna, nú um 50, og mörgum stórum, er allhætt á höfninni í vissri átt, ef hvasst er, því að höfnin er lítil um sig og grunn, og bátunum hætta búin að liggja á henni, ef sjór er mikill. En aftur á móti er hvergi eins auðvelt að gera höfn trygga, eins og þar og með tiltölulega litlum kostnaði. Á þrjá vegu er land að höfninni, og það mundi mega gera þar alveg trygga bátahöfn fyrir 50—60 þús. kr. Þennan kostnað vilja Vestmanneyingar leggja á sig, og þeir fara ekki einu sinni fram á að fá styrk til þess hjá landssjóði, þó alstaðar annarsstaðar hafi verið veittur styrkur til hafnargerðar, og þingið talið sjálfsagt að veita hann. En þeir vilja ekki fara fram á slíkt. Vita að fjárhagurinn er mjög þröngur nú, og eru hræddir um, að það mundi að eins tefja fyrir málinu, að fara slíks á leit, en hafnargerð hjá þeim þolir enga bið

Aðra breyt.till. á eg, sem fer fram á, að veita styrk til bryggjugerðar í Vestmanneyjum, sem nú er lokið. Bryggjan hefir kostað um fimtán þúsund kr. En er taldar eru með festar fyrir vélabáta til að liggja við, hefir tilkostnaður við höfnina þar orðið um 23 þúsund. Nú er þess farið á leit að veita 5 þús. kr. til bryggjugerðarinnar. Hér á hlut að máli lítið sveitarfélag, og hér er ekki farið fram á annað, en það, sem öll kauptún, er fram á það hafa farið, hafa fengið, er þau hafa ráðist í bætur á höfn eða bryggjum. Mér er kunnugt um, þótt hv. frsm. (B. Þ.), hafi ekki getið þess, en það hlýtur að vera af gleymsku hjá honum, að meiri hluti hinnar háttv. fjárlaganefndar er þessu meðmæltur, eins og hennar var von og vísa, því þetta er ekki annað en réttmæt og sanngjörn krafa. Eg þarf því ekki að fjölyrða frekar um þetta, en vona, að þeir, sem hafa heyrt mál mitt, muni samþykkja þessa fjárveitingu. Að því er snertir lán til hafnargerðarinnar, þá skal eg að lokum láta þess getið, að eg býst við að beiðnin um það fái áheyrn vegna nauðsynjar eyjamanna. Eg veit það að vísu, að það er rétt hjá háttv. frsm., að ekki sé hægt að veita féð, ef það er ekki til. En ef það er til, þá á sannarlega að veita það til slíks fyrirtækis. Eg skal svo ekki þreyta hina háttv. deild með öllu lengri ræðu. Þótt eg sé yfirleitt á móti hinum miklu skáldlaunum eða skáldastyrk, er þingið eys stöðugt út, altaf meira og meira, þá vil eg þó láta þess getið sérstaklega, að eg er ekki með því að færa niður eða fella burtu styrkinn til Einars Hjörleifssonar. Eg er ekki að þessu leyti samdóma hv. 2. þm. Rangv. (E. J.). Síðan Einar Hjörleifsson fór að njóta styrks af almannafé fyrir rit sin, þá hefir hann sannarlega unnið íslenzkum bókmentum gagn. Styrkurinn hefir borið ávexti. Hann hefir gefið út tvær stórar skáldsögur, og margar smærri. Hann er með öðrum orðum stöðugt að auðga bókmentir vorar, og það að stórum mun. Og get eg ekki að því gert, að minnast á það, að þá er öðru máli að gegna um Þorstein Erlingsson, sem ekkert sést eftir framar, eða ekkert sem teljandi sé. Eg vil í þessu sambandi geta þess, að það gæti verið ástæða til þess að hækka styrkinn til Guðmundar Magnússonar og það stendur sérstaklega á með hann, þar sem hinir tveir, er eg nefndi, hafa svo að segja verið kostaðir til þessa frá upphafi af almannafé, þá hefir aldrei verið eytt neinu til þessa manns. Ef tillit væri tekið til þess, þá ætti hann að fá hærri styrk nú. Að öðru leyti skal eg ekki tala um þær breyt.till., sem ekki koma mér við. En yfirleitt mun eg greiða atkvæði þannig, að sem minst bætist við tekjuhallann og vera móti þeim fjárveitingum, sem ekki er ætlað til verklegra fyrirtækja.