03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í B-deild Alþingistíðinda. (948)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Sigurður Gunnarsson:

Eg á ekki margar breyt.till. við þennan kafla fjárlaganna. Á þgskj. 413 er breyt.till. frá mér um að hækka styrk til búnaðarfélaga úr 22 þús. kr. upp í 26 þús. kr. og lækka að sama skapi styrk til Búnaðarfélags Íslands, svo að þetta er í rauninni tilfærsla. Í þeim héruðum, sem eg er kunnugur, hafa búendur látið mikið af, hve gagnlegur styrkurinn til búnaðarfélaga væri, og að vert væri að færa hann upp. Sömuleiðis hafa þeir látið í ljósi, að þótt búnaðarfélag Íslands hafi unnið markvert og mikilsvert starf, þá hafi þeir samt ekki haft eins mikil not þessarar stóru fjárveitingar, eins og styrksins til búnaðarfélaga. Því hefi eg komið með þessa breyt.till til athugunar. Það er óneitanlegt, að Búnaðarfélag Íslands hafi unnið mjög mikið, en samt hefir það ekki gert eins mikið í þá átt að vekja áhuga manna út um land, eins og búast mætti við. Eg veit að mér verður svarað af háttv. 2. þm. Árn. (S. S.), að óskir um þetta efni komi ekki nógu ljóst fram. En jafndýrt félag á ekki að bíða eftir óskum manna í þessu efni. Það á að segja eins og Muhammeð sagði: »Úr því að fjallið kemur ekki til mín, þá kem eg til fjallsins«. Að öðru leyti ræður deildin, hvort hún samþykkir þetta eða ekki.

Þá á eg breyt.till. við 13. lið 16. gr. um styrk til að gefa út dýralækningabók, alt að 400 kr. Eg hefi ætlað á, að hún mundi verða 12—14 arkir. Sú bók mundi seljast allvel, því að tilfinnanlegur skortur er hér í landi á leiðbeiningum í þessu efni og sterkar óskir hafa komið fram í mínu kjördæmi, um að slík bók yrði samin. Eins og kunnugt er, fullnægja ekki þessir 2 dýralæknar þeim þörfum, sem í landinu eru fyrir dýralækningar. Mig hefði langað til að bera fram tillögu um, að bætt yrði við einum dýralækni fyrir Breiðafjörð, sem sæti í Stykkishólmi, en þorði það ekki og fór því fram á þessa litlu upphæð. Eg þykist vita, að dýralæknirinn hér í Reykjavík mundi ekki vera lengi að því að semja þessa bók. Eg þarf ekki að fara mörgum orðum um það, hve áríðandi það er að hafa bók, sem veitti góða tilsögn í dýralækningum, og vona eg því, að háttv. þingdeild taki vel í þetta.

Margar tillögur liggja hér nú fyrir um aukin útgjöld, en eg mun fara varlega í atkvæði mínu, því að þröngt er í búi. Það hefir verið minst á það af mér og öðrum áður, að vinsa bæri úr þær tillögur, sem miða að því að auka framleiðsluna, verzlun og siglingar, fiskveiðar og landbúnað. Það, sem miðar að þessu beint og óbeint, verður að sitja í fyrirrúmi fyrir öðru. Til þessa tel eg alt það, sem greiðir samgöngur, svo sem síma, vegi og hafnargerðir, því að það miðar alt að því að auka framleiðsluna í landinu og tryggja hana. Eg er hlyntur fjárveitingu til bryggjugerðar á Sauðárkrók; slíkt hið sama styrk til Fiskifélags Íslands.

Þá hafa margar breyt till. komið fram við 15. gr., bitlingagreinina, eins og vant er, og háttv. þingdm. orðið skrafdrjúgt um þær. En vegna fjárhagsins verður að fara varlega hér sem annarsstaðar. En úr því, að vér erum sérstök þjóð, mentaþjóð, þá verðum vér að velja þá menn úr, sem gera oss mestan sóma og heiður. Má þar til nefna af sagnaskáldunum Einar Hjörleifsson og Guðmund Magnússon. Eg þarf ekki að tala langt fyrir styrk til Einars Hjörleifssonar. Háttv. þm. Vestm. (J. M.) gerði það sanngjarnlega og viturlega. Fá af nútíðarskáldum vorum eru kunnari utanlands en Einar. »Ofurefli er komið út á dönsku og í undirbúningi með að hún komi út á þýzku. Þessi saga hefir, eins og aðrar hans bækur, hlotið mikið lof að maklegleikum. Af ljóðskáldum sé eg ekki betur en að Guðmundur Guðmundsson sé styrks maklegastur. Þau eru indæl hans ljóð; þau vekja og glæða siðgæðistilfinninguna og alt það, sem er háleitt og fagurt.

Þá skal eg víkja að breyt.till. á þskj. 389 um fjárveitingu til viðskiftaráðunauta. Það lítur út fyrir, að fjárlaganefndin sé mótfallin þessari fjárveitingu, hvort hún er það öll, veit eg ekki. Mér þykir það alveg ótilhlýðilegt að fella þessa fjárveitingu niður, án þess eg líti til nokkurrar ákveðinnar persónu. Hafi þetta þótt gott 1909, þá er það ekki síður þörf fjárveiting nú. Það hefir sýnt sig síðan ráðunauturinn var settur, að nauðsynlegt er að eiga forsvarsmenn í útlöndum til að verja oss og leiðrétta ranghermi í dönskum blöðum, sem og til að koma oss í ný viðskiftasambönd.

Fjárlaganefndin vill lækka styrkinn til smjörbúanna um 2000 kr. hvort árið, en svo er aftur komin fram breyt.till. um, að styrkurinn verði að eins 5000 kr. og sé varið aðeins til nýrra smjörbúa. Mér þykir þessi breyt.till. miklu nær því rétta en till. fjárlaganefndar. Það er aðgætandi, að rjómabúin eru arðvænleg fyrirtæki með góðri stjórn og góðu fyrirkomulagi. Aftur á móti er það rétt, að menn eru jafnan tregir til að mynda nýjan félagsskap, og er því nauðsyn að örfa menn til þess.

Þá skal eg snúa mér að 22. gr. fjárlaganna. Það eru hér um bil 160 þús., eftir því sem háttv. framsögumaður (B. Þ.) sagði, sem lánbeiðnirnar nema, og mun varla unt að fullnægja þeim öllum. Hitt er satt, að ýmsar af þessum lánbeiðnum hafa við góð rök að styðjast, svo sem beiðni um lán til sláturhúss á Austurlandi, til hafnargerðar í Vestmannaeyjum og til símalagninga. Það er alt of lítið fé, sem stjórnin ætlar til að lána héruðum til símalagninga, að eins 10 þús. kr. Úr því að þingið neyðir héruðin til að leggja undan sinni blóðugri nögl fé til móts við landsjóð til símalagninga, þá er það siðferðislega krafa frá héruðunum, að fá lán til þeirra. Menn mega ekki, úr því að komið er inn á þessa framfarabraut, líta á það þótt upphæðirnar séu háar, heldur hafa það fyrir augum, hvort þær miða í rétta átt, ?: miða að því að auka framleiðsluna.