27.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í B-deild Alþingistíðinda. (95)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Jósef Björnsson:

Eg hefi komið fram með 2 brtill. við 16. gr. Sú fyrri er á þingsk. 752 og er um, að veita fé til að kaupa áhöld til þess að hægt sé að veita nemendum Hólaskóla tilsögn í smíðum. Í reglugerð fyrir bændaskólann á Hólum 6. ág. 1908, 15. gr., er ákveðið að í skólanum skuli fara fram kensla í smíðum. Samkvæmt þessu skrifaði skólastjóri stjórnarráðinu og fór fram á að fá fjárupphæð veitta, svo þessari kröfu reglugerðarinnar yrði fullnægt. Að því er áætlunina snertir þá er gert ráð fyrir 1000 kr. til að kaupa járnsmíðaáhöld. Skólastjóri áleit það að vísu miklu betra, ef hægt væri að fá til þess 2000 kr., því skólinn hefir fengið tilboð frá Sigurði járnsmið Sigurðssyni á Akureyri um að hann vildi selja járnsmíðaáhöld þau sem hann hefir haft, og sem eru svo góð, að með þeim má smíða jarðyrkjuverkfæri. Sömuleiðis hefir hann boðist til að taka að sér að kenna smíðar. En til þess að fullnægja ákvæðum reglugerðarinnar um að gera menn búhaga, þá mætti duga minni upphæð og við það hefi eg miðað brtill. mína. Að því er trésmíðaáhöldin snertir, þá hefir skólastjóri látið fylgja lista yfir þau verkfæri, sem nauðsynleg eru, og verð á þeim, og er sú upphæð alls 800 kr. Sökum þess, að því verður ekki neitað, að það er mikilsvert að menn á heimilum úti um landið séu búhagir, og að það er nauðsynlegt að bændaskólarnir geti kent piltunum þetta, og svo af hinu, að það er vaknaður talsverður áhugi meðal bænda úti um landið, að skólinn geti fullnægt þessari ákvörðun, þá segi eg að það væri mjög leitt, ef það yrði lengur dregið að fullnægja þessu ákvæði reglugerðarinnar. Þótt eg hafi leyft mér að fara fram á að veitt yrði fé til hvorstveggja, járn- og trésmíðaáhalda, hefi eg þó ekki viljað vera varbúinn við því versta, að, eins og líka háttv. framsm. gaf í skyn, mótblástur yrði hér gegn því að þessi kensla komist á, þá gæti þó skeð að mótspyrnan næði ekki til hvorratveggja áhaldakaupanna, og hefi eg þess vegna til vara lagt það til, að veittar væru 800 kr. til að kaupa áhöld fyrir til trésmíðakenslu. Húsrúmið er til, svo hægt er að láta nemendurna njóta kenslu í þessari grein smíðanna, ef áhöldin fást. Eg vona því, að þó að háttv. deild vilji ekki samþykkja aðaltillöguna um að leggja fram fé til að kaupa bæði járn- og trésmíðaáhöld, þá sjái hún sér þó fært að ganga að smærri upphæðinni, svo hægt sé að feta í áttina til að fullnægja ákvæðum reglugerðar þeirrar sem stjórnarráðið hefir sett. Eg skal svo ekki þreyta menn á meiri meðmælum með þessari tillögu, en vil að eins bæta því við, að þetta er almennar óskir bænda úti um landið. Þegar bændanámsskeið var haldið á Hólum nú í ár í lok marzmán. og byrjun aprílmán., komu þessar óskir fram. Þar voru þá margir bændur af Norðurlandi — eitthvað milli 30 og 40, og síðustu dagana miklu fleiri. Síðasta daginn var haldinn almennur fundur og á þeim fundi samþykt áskorun til skólastjóra um að gera sitt ítrasta til að kenslu yrði komið á í þeim greinum, sem kenna ætti í skólanum samkvæmt reglugerð hans. Eg vona að háttv. deild taki tillit til svona almennra óska.

Á þskj. 755 á eg br.till., þar sem farið er fram á að séra Arnór Árnason í Hvammi fái uppgjöf á eftirstöðvum af húsbyggingarláni 174 kr. fyrra árið. Eg skal taka það fram, að þótt eg hafi gerst flutningsmaður þessarar tillögu, er það fyrir mínum sjónum leiðinlegt að flytja fyrir þingið bænir um uppgjöf á lánum. En með því að sérstaklega stendur á og með því að upp hæðin er lítil, get eg eftir atvikum mælt með því, að þessi uppgjöf sé veitt, og eg vona. að hin háttv. deild verði mér sammála um, að ekkert sé í móti að verða við þessari bæn.

Lán það, sem hér ræðir um, er húsbyggingarlán og tekið 1893. Það var upphaflega 1 þúsund kr. að upphæð og var tekið í tvennu lagi, og er nú borgað að fullu nema 174 kr. Þegar ræða er um þetta, kemur það fyrst til greina, að bygging sú, sem láninu var varið til að reisa, er orðin mjög hrörleg. Eftir því sem biskup skýrir frá og hann kemst að raun um á vísitazíuferðinni seinastliðið sumar, er það óhjákvæmilegt að húsa bæinn upp að nýju. En til þess þarf prestur að fá lán að upphæð alt að 3000 kr., sem biskup segist ekki treystast að mæla með að hann fái, fyr en lánið er greitt að fullu, það sem enn er ógoldið af því. Presturinn í Hvammi er fátækur maður, og á prestssetrinu hvíla eftirstöðvar af jarðabótaláni 360 kr. Hann hefir farið fram á það við biskup, að hann mælti með því, að hann fengi það gefið eftir, en eg hefi ekki treyst mér til að gerast flytjandi þess máls. Með því nú að þörf er á að húsa bæinn og með því að loku er skotið fyrir, að presturinn í Hvammi geti húsað hann fyr en umrætt lán er greitt að fullu og öllu, þar sem hann er svo fátækur, að hann getur ekki bygt, nema hann fái nýtt lán til þess, þá vona eg að hin háttv. deild, jafnvel þótt hún sjái að hér sé farin hættuleg leið, verði á því máli, að ástæða sé til þess, að sú uppgjöf sé veitt, sem hér er farið fram á.