03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í B-deild Alþingistíðinda. (950)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Björn Kristjánsson:

Eg ætla fyrst að minnast nokkrum orðum á viðaukatill. á þingskjali 358, um það, að Hafnarfjarðarbæ sé veittur alt að 25000 kr. styrkur til bryggjugerðar. Hafnarfjörður hefir haft allmikil stórræði með höndum síðan hann varð kaupstaður, bæði vatnsveitu og raflýsing, og nú er í ráði að gera steinbryggju, sem kosta mun um 75—80000 kr. Hafnfirðingar hafa notið aðstoðar landsverkfræðingsins og fengið tilboð erlendis frá, sem er dýrt, svo dýrt að ekki er við því lítandi. Hins vegar hafa innlendir menn boðist til að framkvæma fyrirtækið fyrir þetta verð, svo líklega þarf ekki tillagið að nema meiru en 20000 kr., þó hér sé farið fram á 25 þús. kr. fjárveitingu. Þetta fyrirtæki mundi hafa sömu þýðingu fyrir Hafnarfjörð og önnur slík fyrir aðra bæi, og það því fremur, sem þar þarf ekki að kosta til hafnar að öðru leyti. Þar er bezta höfn á Suðurlandi, og því vantar ekkert nema bryggjuna. Bærinn vill sjálfur leggja fram ¾ hluta kostnaðarins, og er það sama fyrirkomulag og hér á að verða með Reykjavíkurhöfn, og víðast hefir verið annarsstaðar t. d. bæði á Akureyri og í Stykkishólmi. Eg skal taka það fram, að það hefir mikla þýðingu fyrir fiskveiðarnar, að skip geti lagst þar að bryggju, til þess að ferma og afferma. Nú þurfa þau oft að bíða fleiri daga, þar sem þau annars gætu lokið sér af á einum degi. Það er því brýn nauðsyn á því, að koma þessu í gott lag, og þótt þröngt kunni að vera um peninga, sem þó er mest barlómur, þá eru hér engar aðrar leiðir, því ef fyrirtækið borgar sig, þá hjálpar ekki að horfa í kostnaðinn, enda hefir það sýnt sig á seinni árum, síðan landið fékk innlent fjárveitingarvald, þá hefir því farið fram, og það einmitt af því, að menn hafa ekki verið of hvumpnir við það, að leggja gjöld á sig til nauðsynjafyrirtækja. Eg vona að þessi tillaga njóti sömu velvildar og aðrar slíkar. Þótt hér standi alt að 25000 kr., þá verður framlag landssjóðs ekki öllu meira en 20000 kr. Eg skal svo ekki mæla meira með þessari fjárveitingu, sanngirnin mælir bezt með henni.

Þá er önnur breytingartillaga á þingskjali 319, um að hlífa Landsbankanum við borgun fyrir seðlalán það, sem þar er um að ræða. Eg hafði áður borið fram frumvarp um það, að leysa bankann frá gjaldinu til byggingarsjóðs. Var því vísað til nefndar og varð hún því ekki samdóma, en gekk aftur á móti að því, að létta þessu gjaldi af bankanum — um tíma. Landsbankinn hefir orðið að setja nær 1000000 kr. í verðbréfum að veði fyrir veðdeildirnar, sem eiginlega koma honum ekki við, en á þessu tapar hann svo mikið á móts við það, að hafa féð í veltu, að beint vaxtatap á þessu nemur um 13000 kr. á ári, auk ýms annars arðs, sem hann gæti haft, ef hann hefði þetta mikla fé, 1000000 kr. í veltu. Eg þykist mega ganga út frá því sem sjálfsögðu, að þetta verði veitt.

Svo á eg tillögu á þingskjali 357, um lán til húsabóta á Þingvelli. Sem kunnugt er, er húsakynnum þar mjög áfátt — og þetta gistihús, sem þar er, »Valhöll«, má miklu fremur nefnast skýli heldur en gistihús. Nú hefir Sigmundur á Brúsastöðum sótt um að fá leigðan Miklaskála — en langar til að kaupa hann — en hann er efnalaus — en afarduglegur — og væri því óskandi, að þing og stjórn hlypi undir bagga til þess að hjálpa honum með þetta. Hér er heldur ekki um neina stórupphæð að ræða. — Annars hefði þingið fyrir löngu átt að vera búið að taka þetta mál að sér — því það er satt að segja þjóðarskömm að hafa ekki sæmileg húsakynni á þeim stöðum, sem eru jafnfjölsóttir eins og Þingvellir. Eg vona því, að allir geti fallist einróma á það að veita þetta lán.

Þá á eg ekki fleiri breytingatillögur; en skal þá minnast örlítið á breytingartillögu fjárlaganefndar, viðvíkjandi lækkun á styrknum til dr. Helga Péturssonar. Fjárlaganefndinni hafa eflaust ekki verið nógu kunnar ástæður dr. Helga. Hann hefir, eins og ef til vill sumum háttv. þingmönnum er kunnugt, notið styrks af Carlsbergssjóði — annars hefði hann ekki getað framkvæmt það, sem hann hefir gert fyrir þann lúsastyrk, sem hann hefir haft úr landssjóði; — en nú í vetur stóð svo á, þegar hann átti að sækja um styrkinn, þá var hann veikur, og þess vegna fær hann engan styrk þaðan þetta árið. Af þessu hækkaði fráfarandi stjórn styrkinn til hans upp í 2000 kr. — Það er og þjóðkunnugt, að dr. Helgi hefir gert landi sínu mikinn sóma, bæði utan lands og innan, og þess vegna er það skylda að fara vel með hann. En að veita honum 1200 kr. styrk — og ætlast til að hann ferðist og geri jarðfræðisrannsóknir fyrir það fé — það er með öllu ómögulegt. Allir vita, hversu afskaplega dýrt er að ferðast hér á landi, og þegar þar við bætist, að jarðfræðingar þurfa oft að kaupa dýra menn til að grafa og því um líkt, kaupa dynamit til sprenginga o. fl., þá get eg ekki hugsað mér, að nokkur sé svo skammsýnn að halda, að 1200 kr. geti komið að nokkru verulegu gagni, þegar hann þar að auki á að lifa á þeim — nei 3—4 þús. kr. væri hæfilegt. Það er hvorttveggja stórskaði og ekki hneykslislaust, ef svo ófimlega skyldi takast, að þessi maður lenti í örbirgð, og þar að auki getur það haft ill áhrif á heilsu hans. Eg vonast því til, að fjárlaganefndin taki þetta atriði til nýrrar yfirvegunar og láti upphæð þá, sem fráfarandi stjórn lagði til að honum yrði veitt, standa óbreytta.

Þá vil eg taka í sama streng og h. þm. Dal. (B. J.) um lánveiting til Ólafs Jónssonar til að koma á fót myndamótaverksmiðju hér. Eins og sami þm. tók fram, er það stórbagalegt fyrir bóka- og blaðaútgefendur, að hér er engin slík verksmiðja, og þar sem hér er aðeins um lántöku að ræða, vonast eg til að deildin samþykki það.

Sömuleiðis vil eg mæla hið bezta með styrk til mag. Jóns Ófeigssonar, til að semja þýzka orðabók, og það því fremur sem hann fylgir ekki þeim leiðum, sem venjulegar eru í slíkum orðabókum, að útiloka viðskiftamál. Frá þessari hlið er því bókin mjög praktísk, og kemur eflaust að miklum notum, og þingið á því að styrkja það.

Að lokum skal eg minnast lítið eitt á tillögur frá 2. þm. Rangæinga (E. J.) um að lækka styrkinn til tveggja skálda. Þessi tillaga miðar í sparnaðaráttina, en stundum er það svo að menn spara skildinginn og fleygja dalnum.

Hann talaði um, að það væri lítið að vöxtunum, sem lægi eftir þessi skáld, og skal eg, hvað Einar Hjörleifsson snertir, láta mér nægja, að skírskota til ummæla h. þm. Vestm. (J. M.). En viðvíkjandi Þorsteini Erlingssyni, er það að segja, að hann yrkir í bundnu máli, og er þar að auki mjög vandvirkur. Það er nú að vísu satt, að ekkert hefir komið út eftir hann á milli þinga, en hann er búinn að semja við bókaútgefanda að gefa út rit, og það er aðeins fyrir annríki prentsmiðjunnar, að bókin er ekki komin út. Eg vona því, að till. háttv. fjárlaganefndar verði látin standa um þessa menn.