03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í B-deild Alþingistíðinda. (953)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Jón Jónsson (1. þm. N.-Múl.):

Eg á till. um lánveitingu til sláturhúss á Austfjörðum. Eg heyrði hæstv. ráðherra (Kr.J.) skýra frá því, að árangurslaust væri að samþykkja slíkar lánveitingar, því að fé væri ekki til í viðlagasjóði handbært til að fullnægja þeim. Eg vil ekki vekja hjá mönnum tálvonir og tel ekki vansalaust, að tildra upp á fjárlögin lánveitingum, sem engin von er að fáist. Það hefir komið fyrir, að mönnum hefir verið synjað um lán, þótt þeir hefðu lánsheimild. Af þessum ástæðum tek eg tillöguna aftur og slíkt hið sama tillögu um lánsheimild til læknisins í Hróarstunguhéraði til að koma upp læknissetri.

Eg ætlaði mér að minnast ofurlítið á styrkinn til smjörbúanna. Það hefir verið stefna þingsins, að veita sömu smjörbúunum styrk ár eftir ár, jafnvel þótt þau séu fyrir löngu orðin arðvænleg fyrirtæki. Og þótt hin árlega styrkupphæð úr landssjóði til smjörbúa yfirleitt hafi farið lækkandi ár frá ári, þá get eg ekki felt mig við þessa stefnu. Það er mín skoðun, að þau ein rjómabú sé nauðsyn að styrkja, sem eru á byrjunarstigi; þau eiga erfiðast uppdráttar. Því er það tillaga mín, að veittar séu 5000 kr. á ári til styrktar nýjum rjómabúum, þó eigi meira en 1000 kr. hverju.

Hæstv. ráðherra (Kr. J.) talaði um botnvörpungasektirnar, og taldi hann sjálfsagt, að við létum Dani fá ? hluta sektanna. Það hefir verið mikið um þetta mál talað, og mér finst, að hvernig sem þetta er skoðað, þá eigi Danir ekkert tilkall til sektanna. Ef við lítum á þetta mál frá sjónarmiði Dana, þá er það sameiginlegt mál, og þá ber Dönum að hafa strandgæzluna á hendi án nokkurs endurgjalds frá vorri hálfu; ef við skoðum það sem sérmál, þá fá þeir svo mikið endurgjald með því að við leyfum þeim að veiða í landhelgi, að það er fullkomin borgun. En færi svo, að okkur þætti Danir reka eftirlitið slælega, þá skil eg ekki annað, en að við gætum haft eftirlitið á hendi sjálfir, ef til þess kæmi.

Eg vildi gjarnan spyrja hæstv. ráðherra, hvernig hann lítur á fjárveitinguna til viðskiftaráðunautsins; það væri fróðlegt að fá yfirlýsingu frá honum um, hvernig hann lítur á það mál.