03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í B-deild Alþingistíðinda. (957)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Skúli Thoroddsen:

Eins og mönnum er kunnugt hefir fjárlaganefndin lagt til, að fella burtu það ákvæði, að 2/8 botnvörpusektanna renni í ríkissjóð. Eg vil leyfa mér að fara nokkrum orðum um þetta mál, sérstaklega vegna þess, sem háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) og hæstv. ráðherra (Kr. J.) hafa um það talað. Háttv. 1. þm. Eyf. (H. H). gat þess, að Danir hefðu lagt mikið í kostnað þegar þeir bygðu Íslands Falk til strandgæzlu hér. Þetta er alveg rétt, en hvernig fóru þeir að við það tækifæri? Litu þeir á hagsmuni Íslendinga, eða höfðu þeir annað fyrir augum? Eg lít svo á, að við Íslendingar höfum við það tækifæri verið notaðir sem skálkaskjól. Svo var mál með vexti, að ráðuneytið vildi auka flotann, en hér gat það slegið tvær flugur í einu höggi og byggt skip, sem var tvent í einu, varðskip og herskip. Enn má geta þess, að Danir færa kostnaðinn við »Fálkann« undir útgjöldin úr ríkissjóði til Íslands, og ætti þá skipið eftir því að vera okkar eign. Þetta er alt saman mjög svo óviðfeldið. Ef þeir hefðu litið á hagsmuni vora, þá hefðu þeir átt að byggja 2—3 fallbyssubáta á stærð við »Beskytterem«; það hefði orðið okkur miklu notadrýgra en þetta eina stóra skip. Háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) gat um, að háttv. þm.

S.-Þing. (P. J.), sem 1905 var framsm. fjárlaganefndarinnar, hafi þá gefið yfirlýsing um þetta mál hér í deildinni fyrir hönd nefndarinnar. En eg, sem átti þá sæti í nefndinni, get vottað, að hinn háttv. þm. hefir talað heimildarlaust fyrir nefndarinnar hönd, hafi hann gefið aðra yfirlýsing en þá, sem fólst í fjárveitingunni sjálfri. Eins og öllum er kunnugt nær fjárhagstímabilið yfir 2 ár, og fyrir þann tíma var þessi fjárhæð veitt, en um það var ekkert ákveðið, að hún ætti að halda áfram eftir það.

Það stendur skýrum orðum í 21. gr. fjárl., að allar þær fjárveitingar, sem eigi standa í öðrum lögum, en fjárlögunum, eru aðeins bindandi fyrir fjárhagstímabilið. Þingið hafði því fullan rétt til þess, að kippa að sér hendinni, eins og það gerði. Að þetta var nokkurntíma veitt 1907, skoða eg sem fljótfærni og að málið hafi ekki verið yfirvegað sem skyldi. Hæstv. þáverandi ráðh. hafði mikinn hug á að fá því framgengt, og hafði það þau áhrif, að eg og aðrir létu eftir. Blaðið Ísafold hafði þá og nýlega flutt grein um það, hve óviðkunnanlegt það væri, að veita ekki neitt til strandgæzlunnar. Háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) lagði þá þýðingu í það, er þessu var í burtu kipt, að sjálfstæðismenn vildu liggja uppi á Dönum. Eg fyrir mitt leyti verð nú að álíta, að Dönum færi hér lítilmannlega að fara fram á annað eins. Sjálfir skilja þeir stöðulögin svo, að landhelgin sé alríkismál, og það er tekið fram með berum orðum í stöðulögunum, að til hinna sameiginlegu mála eigum vér Íslendingar ekkert að leggja, meðan vér eigum ekki fulltrúa á ríkisþinginu. Þannig er þetta frá dönsku sjónarmiði, og virðist mér það því smásmugleg pólitík. — Annars gladdi það mig, að í þessum hluta ræðu háttv. þm. fólst játning á því, að það væri okkar réttur að verja landhelgina og ættum við að kosta til þess. Hann er þá kominn á nokkuð aðra skoðun, en hann hafði í millilandanefndinni forðum. Þegar frv. hennar var á dagskrá, taldi hann það eina ástæðuna til þess að hafa sameiginleg hermál, að vér hefðum ekki heimild til þess, Íslendingar, að hafa strandgæzluna á hendi. En þegar litið er á þetta frá íslenzku hliðinni, þá sést, að Danir fá fulla borgun fyrir strandgæzluna, þótt þeir fái engan eyri af þessu sektarfé. Samkvæmt 2. gr. stöðulaganna eru fiskimið vor íslenzkt sérmál, sem vér getum farið með hvernig sem vér viljum. Þetta sambland, sem nú gengst við, að Danir og Færeyingar hafi jafnan rétt við oss í þessu, eru leifar af dönskum áhrifum, sem hér voru rík í löggjöfinni, meðan ráðherra var búsettur ytra. En þessi réttindi hafa þeir af okkar náð, við getum tekið þau af þeim hvenær sem við viljum, og þetta eru engin smáræðis hlunnindi, þar sem þeir eiga hér allskonar skip við landið að veiðum, og jafnvel smábáta á fjörðum inni. Við þurfum því ekki að bera kinnroða fyrir það, að við séum ómagar á Dönum, að því er strandgæzluna snertir, hún er þeim fullkomlega endurgoldin. Og það má benda á það, að fyrir þessu er fram komin viðurkenning í millilandanefndinni. Þar létu menn sér einungis lynda að láta svo búið standa meðan Íslendingar vildu ekki hagnýta sér rétt sinn til uppsagnar, og — eo ipso — hljótum við að geta tekið af þeim fiskveiðaréttinn um leið og við tökum að okkur strandgæzluna. Það er þessi skoðun, sem vér verðum að heimta, að ráðherra vor haldi fram við Dani og geri þeim þetta ljóst. Þess vegna þótti mér það leitt að heyra hæstv. ráðh. (Kr. J.) vera að reyna að telja þingið á það í ræðu sinni áðan að láta þetta ákvæði standa í fjárl.frv, því að eg verð að halda því fast fram, að hann eigi að halda fram okkar skoðun í þessu máli. Eg sé svo ekki ástæðu til þess að tala meira um þetta, en vænti þess, að meiri hl. háttv. deildar fallist á till. nefndarinnar.

Út af því, sem háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) sagði um Boga meistara Melsteð, skal eg geta þess, að mér þykir það að vísu mjög gleðilegt að heyra hve einstaklega sá maður er orðinn samvizkusamur og grandvar í pólitíkinni. Nú má ekki líta á hana framar, þegar um styrki er að ræða. En »nota bene« þykir mér því að eins vænt um þetta, að hér sé um sanna iðrun og yfirbót að ræða, en ekki rétt svona við tækifæri, því að eg verð að játa það, að mér hefir eigi ætíð virzt hann svo grandvar að undanförnu. (Jón Jónsson 1. þm. S.-M.: Dæmi). Það mætti benda á atkv.gr. í þó nokkrum málum. En um styrkinn til hr. Boga Melsteðs er það að segja, að sumum hefir þótt sem hann væri ekki algerlega óviðkomandi pólitíkinni. Og ekki er hægt annað að segja, en að þinginu hafi farist mjög vel við hann. Hann fékk fyrst styrk 1891 og hefir síðan haldið honum — 1000 kr. á ári — til ársloka 1910. Kann vera, að eitt ár hafi gengið úr, en alls er nú búið að veita þessum manni milli 15 og 20 þús. kr. af landsfé, og hver hefir orðið árangurinn? Maðurinn byrjaði á fornsögunum og er ennþá að gjöra útdrátt úr þeim! Það fer illa á því, þegar þingið styrkir einhvern þannig í góðu skyni, að menn þá reiðist og verði óánægðir, ef þeir fá styrkinn ekki meðan þeir draga andann. Þessi maður hefir líka notið styrks úr ríkissjóði Dana til hins sama starfs, auk þess sem hann hefir verið stipendiarius A.-M., enda hefi eg heyrt, að hann sé allvel efnaður, og gera það margir, sem líkt stendur á fyrir, að dunda við svona ritstörf, ef þeir hafa gaman af því, án þess að hafa styrk til þess. Eg mótmæli því þess vegna, að illa hafi verið farið með þennan mann, heldur hygg eg, að honum hafi verið sýnd innileg pólitísk velvild, og vaki hún enn í háttv. 1. þm. S.-M. (J. J.) og geri hann svo brennheitan sem hann er í þessu. Og eg skal líka játa það, að pólitíkin geti haft óbeinlínis áhrif í mótsetta átt, þannig, að mönnum verði það ósjálfrátt ekki eins ljúft að styrkja menn, sem þeir vita að leggja sig í framkróka til þess að blekkja menn og atyrða, sverta og svívirða vissar stefnur og flokka. Það er oft og einatt ekki svo gott að komast hjá slíku, þegar mennirnir hafa ekki vit á að halda sér saman. Afskiftin af pólitík geta verið þannig löguð, að það á ekki saman nema nafnið, hvort menn berjast með rökum, eða varpa fram sleggjudómum og nafnlausum ósannindum með hæfilegum fjölda smánarorða.

Um skáldastyrkina er það að segja, að fjárln. álítur heppilegast, að þeir standi óbreyttir, eins og þeir voru í frumvarpinu og á síðasta þingi. Annars er svipað um þá að segja og styrkinn til Boga Melsteðs, að sá hugsunarháttur virðist vera farinn að komast inn, að ef þingið styrkir einhvern tíma einhvern, þá eigi hann að halda þeim styrk um aldur og æfi. Þetta er óheppilegt, því að þá verður landssjóður ekki fær um að veita öðrum styrk, þótt sjálfsagt væri, eða að minsta kosti ekki jafnmörgum sem ella. Hepplegra væri að styrkja þann og þann, sem gáfurnar hefir, um ákveðinn tíma, en ekki lengur, því að þá þarf að fara að hjálpa öðrum. Það er vel gert, ef nokkrum er hjálpað, og þeir mega ekki reiðast, þótt kipt verði að sér hendinni, þegar frá líður til þess að hjálpa öðrum. En ekki er eg að ámæla þessum mönnum, því að ætíð hlýtur að seljast lítið af ritum þeirra, og því eru þeir flestir fátækir.

Þá er að minnast á viðskiftaráðunautinn. Meiri hluti nefndarinnar vill kippa þeirri fjárveitingu burt, en því er eg mótfallinn. Hún hefir vakið mikla eftirtekt í útlöndum, en fyrir mér vakir sú pólitíska þýðing, sem hún hefir. Oss er það alveg ómissandi að eiga ábyggilegan mann í útlöndum, sem gefi öðrum upplýsingar um oss og oss um aðra, og leiðrétti þar mishermi um vor mál. Vér stöndum uppi alveg varnarlausir, að heita má, í því efni, allir vita hvernig gengur að koma í dönsk blöð greinum um Íslands mál. Það er eins og það séu samtök meðal þeirra um það að gera mönnum sem örðugast fyrir um það, og kemur það mest af því, að ef einhver Íslendingur skrifar eitthvað, þá rís oftast jafnharðan einhver annar honum samlendur, annaðhvort þar eða hér heima, og ber brigður á það, sem hann segir, en danskir blaðamenn eru ókunnugir högum vorum. En ef vér ættum slíkan fulltrúa, þá vita menn, að hann þorir ekki annað, stöðu sinnar vegna, en fara með það eitt, sem satt er og ábyggilegt.