03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í B-deild Alþingistíðinda. (961)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Pétur Jónsson:

Það eru fyrst nokkur orð viðvíkjandi breyt till. frá mér á þingskjali 337, sem eg raunar hafði búist við að háttv. framsögumaður (B. Þ.) mundi minnast á, því að h. fjárlaganefnd hefir tjáð sig henni meðmælta. Tillagan fer fram á 500 kr. fjárveitingu hvort árið, til þess að halda fyrirlestra um kaupfélagsskap og samvinnufélagsskap framleiðenda í landinu. Till. mælir bezt með sér sjálf, því að í athugasemdunum við hana er ljóslega skýrt frá því, hvernig fé þessu skuli varið eftir nánari ákvæðum stjórnarráðsins. Tillagan er framkomin á þann hátt, að eg hefi fengið áskorun um að flytja hana hér á þinginu frá bændum og bændaefnum, er voru við aukanámsskeið á búnaðarskólanum á Hvanneyri. Álíta þeir réttilega, að fræðsla um þetta efni sé bráðnauðsynleg á öllum búnaðarskólum og fleiri skólum. Meiningin er ekki að eins að rekja sögur erlendra samvinnufélaga og fyrirkomulag þeirra, heldur og að sýna fram á hvaða áhrif þessi félagsskapur hefir á skipun mannfélagsins, í hverju sambandi hann stendur við ýmsar ráðgátur þar að lútandi, og hverja framtíð hann mundi eiga hér á Íslandi. Eg vil því vona, að þessi litla fjárveiting fái góðan byr hér í deildinni.

Þá vil eg minnast á 98. breyt.till. nefndarinnar um að fella niður fjárveitingu til viðskiftaráðunauta. Eg er þessari tillögu nefndarinnar samþykkur. Þegar málið kom til umræðu á þinginu 1909, skýrði eg frá því, að mitt atkvæði væri bundið við það, hvort kostur væri á þeim manni, sem eg og aðrir gætu haft þá tiltrú til, að hann mundi starfinu vaxinn að öllu leyti. Þetta var ekkert nýmæli 1909. Það hafði oft verið umtal um það áður, sérstaklega á fundum kaupfélagasambandsins, en altaf strandað á vöntun á færum manni. Auðvitað var ekki um aðra að ræða en kaupmenn, sem hefðu næga þekkingu og æfingu í þessu efni, eða verzlunarfróðan mann, en mann sem þó væri laus við eða algerlega losaði sig við alla kaupmensku. Á þinginu 1909 spurði eg ráðherra, hvort hann hefði nokkurn sérstakan mann í huga til þess að takast starfið á hendur, og ef svo færi, hvaða maður það væri þá. Ráðherra kvaðst að vísu hafa ákveðinn mann í huga, en áleit að ekki væri rétt að skýra frá, hver það væri, því að svona mál ætti ekki að snúast um nafn. En það er nú mín skoðun, að í þessu máli er það aðalatriðið, hver maðurinn er. Það þarf engri pólitík að blanda inn í það efni. Og þótt eg sé með þvi að fella burt þennan lið fjárlaganna, þá er það ekki af því, að eg á minsta hátt vilji niðra Bjarna Jónssyni, en segi bara það eitt, að eg hefi aldrei treyst honum til þessa starfs, og get bætt því við, að mér hefir stundum þótt hann hafa orðið fyrir nokkuð miklu álasi, þegar hann tók verkið að sér. Eg er þess fullviss, að hann hefir gert það eftir beztu vitund. Einnig held eg að 10 þús. kr. sé alt of lítið fé til þess að hæfur maður fáist og fjárveitingin komi að fullu gagni. Raunar hefir komið breyt.till. frá háttv. þm. Dal. (B. J.) um að tillagið sé hækkað, en mér er nær að halda, að ennþá meira fé þurfi, en þar er stungið upp á, ef full not eiga að vera að fjárveitingunni og hún á að borga sig.

Þá skal eg minnast á breyt.till frá háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) um heiðursverðlaun til Jóns Stefánssonar skálds. Eg skal geta þess, að hún er flutt án nokkurra tilmæla frá honum sjálfum, og eg er ekkert við hana riðinn heldur. En eg gladdist þó, er eg sá að till. var framkomin, því að maðurinn er sannarlega verðlauna verður fyrir rit sín. Og honum á eimnitt að vera sómi sýndur í þessu formi, að hann fái ákveðna upphæð í eitt skifti. Eg held hann hafi ekki skaplyndi til þess að vera á fjárlögum ár eftir ár með þessum venjulegu eftirtölum og nöldri, þótt svona viðurkenning geti glatt hann og muni gleðja hann. Raunar hefði eg kunnað betur við annað orðalag á tillögunni, en það má leiðrétta, ef þörf þykir við 3. umr. Eg vona, að málið fái góðan byr hér í deildinni og tillagan verði tekin aftur, ef ekki er alveg áreiðanlegt, að hún verði samþykt, því að maðurinn er mjög tilfinninganæmur, og eg vil heldur, að hann missi af þessum 1200 kr., en tilfinningar hans séu að nokkru særðar.