03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í B-deild Alþingistíðinda. (963)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Ráðherrann (Kr. J.):

Eg hefi leyft mér að biðja um orðið, út af nokkrum orðum, sem beint var til mín áðan, viðvíkjandi botnvörpusektunum. Eg hefi haft mína eigin skoðun á þessu máli áður, sem sé þá, að sektirnar ættu eigi að renna í ríkissjóð. En eg skal geta þess, að málið horfir nú alt öðruvísi við en áður, eftir að alþingi 1905 og 1907 hefir sett ákvæði um það inn í fjárlögin, að nokkur hluti sekta m. m. skuli renna í ríkissjóð. Að því er snertir sögu þessa máls, get eg vísað til þess, er háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) tók fram; það sem hann hefir sagt um uppruna þessa máls, er satt og rétt, og er það sannað með skjölum og skilríkjum. Þar sem nú Danir hafa samkvæmt ályktun þingsins getað gert kröfu til nokkurs hluta af sektarfé og andvirði upptæks afla, geta þeir litið svo á, að þetta sé orðið samkomulag eða nokkurs konar samningur milli þeirra og Íslendinga. Ef þessi skoðun er rétt, verður þessu ákvæði ekki breytt nema í samkomulagi við Dani. Það er því athugavert fyrir þingið, að breyta þessu, áður en vér höfum leitað hófanna hjá Dönum um það. Eg átti tal við fyrv. ráðherra (B. J.) um þetta, þá er hann var því fylgjandi, að ákvæðið væri felt burtu. Eg sagði honum, að eg liti svo á, að ekki væri rétt að fella það burtu umtalslaust. Það, að fyrv. ráðherra hefir tekið þetta ákvæði upp í fjárlögin nú aftur, er einmitt sönnun þess, að hann er sömu skoðunar og eg, sem sé, að það sé mjög varhugavert að fella ákvæðið úr fjárlögunum. Til frekari sönnunar skal eg geta þess, að eg hefi skjöl í höndum, er bera það með sér, að eg fer hér með rétt mál. Skjöl þessi eru bréf, sem farið hafa á milli fyrv. ráðherra (B. J.) og dönsku stjórnarinnar. Hann lofar stjórninni dönsku í júlí 1909 að kippa þessu máli í lag. í bréfinu er talað um »Tilsagn«, þ. e. loforð. Það lítur enda út fyrir, að hann hafi ætlað sér að leggja fyrir þingið frumv. til laga, um að Danir skuli fá nokkurn hluta sektarfjár og andvirði upptæks afla, og hafi þannig ætlað að fá botnvörpulögunum breytt beina leið. Í bréfi til forsætisráðherra Dana frá fyrv. ráðherra (B. J.) kannast hann við að hafa gefið loforð um þetta, en að ekki sé hægt að uppfylla það, fyr en á næsta þingi. Fyrv. ráðherra (B. J.) hefir því ætlað sér að koma með frv. um þetta á þessu þingi, en það er ókomið enn, og hvers vegna? Hinsvegar hefir hann tekið ákvæði um þetta upp í fjárlagafrv., og með því viljað uppfylla loforð sitt. Eg hygg, að heppilegast sé, að fella ekki þetta ákvæði burtu, fyr en vér höfum talað við dönsku stjórnina um málið. Þannig horfir málið við nú. Eins og sakir standa nú, hygg eg að íslenzka stjórnin hafi gefið dönsku stjórninni loforð um þetta mál; þessu loforði má ekki bregða, því að gerð loforð verður að halda, annars væri sómi þings og stjórnar í veði. Eg vona nú að háttv. deild hugsi sig vel um, áður en hún fellir ákvæðið burtu. Það er að vísu á valdi þingsins að gera það, en það er harla varhugavert.

Eg vildi því næst gera stutta athugasemd snertandi hina margumtöluðu lántöku fyrverandi stjórnar til bankavaxtabréfakaupa. Eg hefi ekki sagt, eða ætlað mér að segja, að lán þetta hafi misfarist. En eg hefi sagt, að eg hafi enn ekki fengið fullar og nægilegar skýrslur fyrir því, hvernig því hefir verið varið. Eg hefi í dag átt tal við þann mann í stjórnarráðinu, sem á að hafa þetta lán mál með höndum og hann hefir lofað mér að gera brátt grein fyrir því öllu. Eg hygg, að lánið og ráðstöfun þess hafi ekki verið bókfært eins og skyldi. Eg mun gera grein fyrir þessu, þegar fullnægjandi skýrsla er fengin. Eg trúi því ekki, að lánið hafi misfarist eða því varið öðruvísi en vera bar. —