03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í B-deild Alþingistíðinda. (975)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Ráðherrann (Kr. J.):

Það er út af ummælum háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) að eg ætla að segja nokkur orð. Hann talaði um tillag landssjóðs til fiskigæzlu hér í kring um strendur landsins, er goldið hefir verið í ríkissjóð Dana af sektum botnvörpunga og andvirði upptæks afla og veiðarfæra. Hann sagði, að þetta mál hefði stórpólitíska þýðingu. Eg get, með mínum bezta vilja, ekki séð, að þetta mál hafi stórpólitíska þýðingu, það er að segja þýðingu fyrir framgang og afdrif þess máls, sem hann hafði fyrir augum, sem sé sambandsmálsins, eg get ekki séð, að þessi fjárveiting standi í neinu sambandi við nefnt mikilsvert mál. Aðalatriðið í þessu máli, og það sem ekki verður framhjá gengið, er það, að hér var komið á samkomulag milli alþingis annars vegar og Dana hins vegar um meðferðina á botnvörpungasektunum m. m., og að þetta hafi í raun og veru verið svo, sannast bezt með því, að fyrverandi ráðherra, sem á síðasta þingi var mjög mótfallinn ákvæðinu um botnvörpusektirnar, hefir breytt skoðun sinni á málinu, er hann var í Danmörku, og hefir nú sjálfur tekið ákvæðið upp í fjárlögin. Eg skal fúslega viðurkenna, að þingið hefir formlegan rétt til þess að fella ákvæðið úr fjárlögunum, og þannig neita að greiða þetta tillag til fiskiveiðagæzlunnar, en eg er hræddur um, að svo verði litið á, að við höfum þá gengið á gerða samninga. Það hafa því miður heyrst raddir frá ýmsum merkum og mikilhæfum mönnum í Danmörku í þá átt, að vér hefðum brugðið loforðum okkar í þessu máli, og að okkur væri ekki trúandi. Eg veit ekki, hversu mikið tillit háttv. þm. nú munu vilja taka til ummæla háttv. fyrv. ráðherra, þar sem hann hefir sagt við forsætisráðherra Dana, eins og nú er sannað, að hann mundi »bestræbe sig for« — þ. e. vinna að því, að þetta ákvæði yrði sett inn á fjárlögin aftur og þá auðvitað einnig samþykt, en eg held því fram, að þingið eigi sóma síns vegna að samþykkja ákvæðið um botnvörpusektirnar, því það er harla mikilsvert fyrir þjóðina, að eigi komist það orð á eða verði með sönnu sagt, að þing og stjórn gangi á gefin loforð. Að öðru leyti en þessu hefir málið ekki stórpólitíska þýðingu