08.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í B-deild Alþingistíðinda. (980)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Framsögumaður (Björn Þorláksson):

Eins og sjá má á fjárlagafrv. eftir 2. umr., er tekjuhallinn 187 þús. kr. Get eg þessa til þess að minna á, að menn verða að sýna mikla varúð í að samþykkja mjög stórar fjárupphæðir, nema brýn nauðsyn sé fyrir hendi.

Við þessa umræðu liggja fyrir 60—70 breyt.till., þar af 12 eða 13 frá nefndinni, hinar frá þingmönnum. Flestar breyt.till. hafa komið svo seint fram, að nefndin hefir ekki getað tekið þær til athugunar. Eg fyrir mitt leyti hefi fæstar séð, og verður framsagan því ófullkomnari en ella mundi.

Eg skal fyrst snúa mér að breyt.till. nefndarinnar. Tek eg þær af handahófi, en get mönnum til hægðarauka númersins á þingskjalinu, sem þær standa á.

Á þgskj. 519 leggur nefndin til að færa styrk til Andrésar Fjeldsteðs augnlæknis upp um 500 kr., úr 1000 kr. upp í 1500 kr. Þetta kemur til af því, að óánægju var að heyra við 2. umr. hér í þingd. út af lækkun launanna, og það fundið til, að þessi maður hefði þurft að kosta meira upp á sig en aðrir læknar, sem styrks njóta. Enn er á það að líta, að hann hefir tekið sig upp frá góðu læknishéraði. Sömuleiðis hefir hann boðist til að halda ókeypis fyrir fátæka »klinik« einu sinni á viku, ef hann yrði hér áfram. Af þessum ástæðum þótti nefndinni vert, að styrkurinn væri færður upp um 500 kr.

Þá er breyt.till. á þgskj. 515, um að sveitastúlkum sé veitt ókeypis tilsögn í leikfimi. Er ætlast til, að landsstjórnin útvegi kennara. Það má álíta nauðsynjamál, að kvenfólk taki þátt í leikfimi eigi síður en karlmenn og er í samræmi við þá skoðun allra siðaðra þjóða, að engu síður sé um vert að afla líkamanum þroska en sálunni.

Á þgskj. 518 er brtill. um að Önnu Magnúsdóttur séu veittar 1000 kr. upp í kostnað á ljóslækningastofnun Finsens. Eg þarf ekki að lýsa þessari breyt.till., menn minnast líkrar brtill. frá 2. umr. Það er athugandi, að sá maður, sem kostað hefir nefnda stúlku, hefir til þess varið fullum 3000 kr. og mun eiga enn eftir að veita henni styrk. Maðurinn er henni ekkert vandabundinn, hefir gert þetta af góðsemi sinni. Ætlast nefndin til, að þetta sé veitt í eitt skifti fyrir öll og að eigi komi fram breyt.till. um að hækka styrkinn. Þetta er auðvitað engin lagaskylda, en með því að nefndinni þykir þetta sanngjarnt gagnvart manninum, væntir hún, að br.till. verði vel tekið.

Ein af breyt.till. nefndarinnar á þgskj. 514 er sú, að prestinum í Suður-Dalaþingum, séra Jóhannesi Lynge, verði veittar 1200 kr. fyrra árið til þess að byggja upp baðstofu á Kvennabrekku. Jörðin er kirkjujörð. Það er óvíst, hvort þar verður prestsetur áfram, en þessi bygging mundi miða til þess að hækka jörðina í verði; hér er ekki verið að fleygja peningum út til einkis, heldur verða þeir lagðir í jörðina. Það mælir líka með þessu, að hér á í hlut sárfátækur maður, með fjölda barna, er hefir orðið fyrir ýmsu heimilsböli, og er því sanngjarnara að veita honum þetta.

Þá er lítil breyt.till. á þgskj. 568; hún hefir engin áhrif á upphæð fjárveitingarinnar, heldur eingöngu á það, hvernig verja skuli fénu, sem ætlað er til bráðabirgðaruppbótar brauðum, sem sé að verja megi 1000 kr. til húsaleigustyrks handa prestum, sem heima eiga í kauptúnum. Biskup landsins hefir farið fram á það, að þessi breyting sé gerð, og hefir nefndin tekið það til greina. Vænti eg að háttv. deild amist ekki við svo saklausri breytingartillögu.

Á þgskj. 517 er breyt.till. um styrk til mótorbátaferða í Austur-Skaftafellssýslu, 400 kr. hvort árið, til þess að greiða fyrir samgöngunum á þessu svæði, sem ekki nýtur gufuskipaferðanna. Og vil eg mæla með henni.

Á þgskj. 512 er till. um aukna fjárveiting til kvöldskóla á Seyðisfirði. Forstöðunefnd skólans hefir nefnilega fyrir skemstu farið fram á hækkun, því að það er í ráði að hafa skólann í fullkomnari stíl framvegis en hingað til hefir verið, vildi eg mæla með þessari fjárveitingu, því ef borið er saman við Akureyri og Ísafjörð, þá verður munurinn of mikill að tiltölu við fólksfjölda, þar sem Seyðisfirði er ekki ætlað nema 300 kr., en hinum 800—1000 kr., hér er heldur ekki farið fram á nema 100 kr. hækkun hvort árið.

Í breyt.till. á þgskj. 516 er ekki farið fram á hækkun útgjalda, heldur lækkun. Það er Búðardalssíminn, er hér er um að ræða, og er gert ráð fyrir, að hlutaðeigandi hérað, Dalasýsla, borgi meira til hans, 1000 kr. meira, af því að síminn er lengdur alla leið að Hjarðarfelli.

Þá er að minnast á Fiskifélagið. Það er lagt til, að það fái 2500 kr. árlega, og er meiningin að styrkja félagið til þess að koma á laggirnar deildum út um landið með föstu skipulagi. Nefndin lítur svo á, að þetta fé geti ekki orðið til neinna verklegra framkvæmda.

Þá er ein breyt.till. frá nefndinni á þgskj. 567 þess efnis, að landstjórninni veitist heimild til að taka lán til að kaupa bæjarsímakerfi Reykjavíkur fyrir alt að 74 þúsund krónur. Þetta er að vísu stórt fyrirtæki, en eykur þó ekki tekjuhallann, af því hér er að ræða um lántöku. Það mælir og með því að taka ákvörðun um þetta nú, að fyrir 1. jan. næsta ár á að vera útgert um það, hvort landið kaupir þetta símakerfi eða ekki, svo að ef það er ekki gert fyr, þá er það um seinan í bráð. Hér er líka að ræða um mjög arðsamt fyrirtæki, sem samkvæmt skýrslu símastjórnarinnar gefur hluthöfunum 13—15% í ársarð. —

Í breyt.till. á þgskj. 569 er það lagt til að hækka útgjöldin til Holdsveikraspítalans um 200 kr. á ári. Þessi hækkun er sundurliðuð og kemur niður á ýmsa útgjaldaliði, hefir læknir spítalans farið fram á þetta og segir, að ekki verði komist af án þess. Þá skal eg og geta þess, að nefndin er því meðmælt, að laun læknisins á Kleppi séu hækkuð úr 2400 upp í 2700 kr., þótt það sé ekki tekið með hér, það er á þgskj. 590. Annars liggur hér fyrir brtill. um að hækka þau upp í 3000 kr., en hana hefir nefndin ekki getað tekið til greina, vegna þess að sami maður hefir 300 kr. þóknun fyrir kenslu við Læknaskólann og ókeypis bústað, svo að honum má heita fyllilega vel launað í samanburði við aðra, ef breyt.till. nefndarinnar gengur fram.

Í breyt.till. á þgskj. 566 er engin breyting á upphæðinni, hún er um styrk þann, er Jóni Ófeigssyni var veittur við síðustu umræðu til þess að semja þýzka orðabók, og er meiningin sú, að styrkurinn sé bundinn því skilyrði, að þessi maður fullsemji og búi undir prentun eigi minna en 45 arka bók. Fyrir nefndinni vakti að með þessu móti mætti fá handhæga bók líka á stærð ensku orðabókinni, er út hefir komið á íslenzku, og vonast hún eftir, að þessi breytingartill. verði samþykt. (Bjarni Jónsson: Hvað fær hann þá fyrir örkina? Hann fékk 80 kr. síðast). Já, en það þótti nefndinni of hátt, nú fær hann 67 kr. og það er sæmilegt.

Þá er breyt.till. á þgskj. 510. Þar er launum skógræktarstjóra haldið óbreyttum, styrkurinn til skógræðslunnar færður upp í 8000 kr., en feldur burtu ferðastyrkur skógræktarstjóra. Nefndinni hefir verið skýrt svo frá, að hann hafi brúkað meira fé til ferðalaga en þær 600 kr., sem honum hafa verið ætlaðar í ferðakostað. Er svo til ætlast, að hann hagi ferðum sínum eftir samkomulagi við stjórnarráðið, og eyði ekki meira fé en þarf, til þess að sem mest fé fáist til virkilegrar skóggræðslu. Hér er um 2000 kr. hækkun að ræða frá því, sem var í frumvarpi stjórnarinnar.

Þá er styrknum til fræðslumála öðru vísi hagað í frumvarpi stjórnarinnar en verið hefir, sérstaklega með tilliti til þess, að meiningin var að breyta fræðslulögunum algerlega samkvæmt frumvarpi, er stjórnin lagði fyrir þingið. Það frumvarp fór nú til efri deildar og eftir afdrifum þess þar, þóttist nefndin sjá, að hún yrði að miða breyt.till. sínar við nú gildandi fræðslulög. Þær till. eru á þgskj. 564 og eru, í stuttu máli sagt, flestallar gerðar í samráði við fræðslumálastjóra; að vísu er farið nokkuð lægra en hann vildi sumstaðar, en það munar ekki miklu. Að öðru leyti hefir nefndin lagt til að bæta við þremur styrkveitingum fyrir utan tillögur fræðslumálastjórans. Það er sem sé til unglingaskólahalds á Ísafirði og á Seyðisfirði, og skal eg strax taka fram ástæður fyrir því. Í tillögum fræðslumálastjórans var styrkurinn einungis lagður til unglingaskóla utan kaupstaða. Nú eru kaupstaðirnir 4 fyrir utan Reykjavík, og þar af hefir Akureyri gagnfræðaskóla og Hafnarfjörður alþýðuskóla, sem styrktir eru af landsfé, annar að öllu og hinn og að mestu leyti. Það er því ósanngjarnt að sleppa alveg Ísafirði og Seyðisfirði, og miðar tillagan til þess, að þeir fái jafnrétti við hina í þessu. Það er auðvitað, að útgjöldin til fræðslumálanna verði eftir þessu miklu hærri en í stjórnarfrv. og nemur það 40—50 þús. kr. á öllu fjárhagstímabilinu, þar sem hér er farið fram á hvort árið til barnaskóla 24 þúsund, til farskóla 18 þúsund, til barnaskólahúsa 20 þúsund og til unglingaskóla utan kaupstaða 8 þúsund. Sérstaklega munar mikið um styrkinn til unglingaskólanna, því að þeim fjölgar ár frá ári, og sá nefndin sér þó ekki fært að fara svo hátt, sem fræðslumálastjóri hafði ætlast til.

Þá er lagt til að veita 1500 kr. hvort árið til lýðháskólans á Hvítárbakka; sú fjárveiting stóð ekki í frumvarpi stjórnarinnar, en hún stendur í gildandi fjárlögum, og vildi meiri hluti nefndarinnar halda sér við það, sem þar stendur.

Þá eru ekki fleiri breytingartillögur, sem nefndin hefir gert, og vil eg því víkja að þeim breyt.till háttv. þm., sem nefndin hefir getað fallist á, að meira eða minna leyti.

Fyrst er þá að nefna breyt.till. á þgskj. 594., þar sem lagt er til að lækka Borgarfjarðarbraut um 20 þús. kr., eða fella niður tillag hennar seinna árið, en leggja 12 þús. kr. annað árið til brúar á Haffjarðará. Þá till. getur meiri hluti nefndarinnar aðhylst, og það því fremur, sem það hefir jafnvel komið til tals í nefndinni áður.

Í breyt.till. á þgskj. 537 er farið fram á að lækka Flensborgarskólann úr 7 þús. kr. niður í 6 þús. kr. gegn styrk að fjórðungi annarstaðar frá. Þessu er nefndin samþykk, þar eð þetta er ekki landsskóli, heldur var hann upphaflega gefinn Garðahreppi, en komst í eigu Hafnarfjarðar, þegar þar varð kaupstaður, enda hefir Hafnarfjörður mest gagn af honum og ætti að styrkja hann drjúgum.

Nefndin hefir fallist á, að styrkurinn til Guðm. Finnbogasonar sé miðaður við 50 kr. fyrir örkina, og eins að Jón Ólafsson sé nefndur rithöfundur en ekki ritstjóri.

Enn er fallist á breyt.till. á þgskj. 538, um styrkinn til búnaðarfélaganna, þar sem lagt er til að færa hann aftur í sína upphaflegu mynd, úr 2600 kr. niður í 2200 kr.

Þá er og lagt til að fella burtu styrkinn til Hafnarfjarðarbryggjunnar, 25 þús. kr. Það er stór fjárveiting og varhugaverð, eins og nú er ástatt með fjárhaginn, þar sem nýbúið er að samþykkja 400 þús. kr. fjárveitingu til hafnar hér í Rvík. Ekki svo að skilja, að eg vildi ekki gjarna að Hafnfirðingar fengju bryggjuna, ef fé væri til.

Eg man ekki hvort eg mintist á brt. á þgskj. 522 við 2. umr. Hún um eftirgjöf á leigum af láni til Landsbankans, 7,500 kr. á ári, og er nefndin henni meðmælt. Og loks má nefna till. um það, að fjárveiting til bókbands við skjalasafnið sé hækkuð úr 800 kr. upp í 900 kr.

Það getur nú verið, að nefndin fallist á fleiri breyt.till. en þetta Hún hefir haft svo nauman tíma, að hún hefir ekki getað tekið afstöðu til þeirra allra ennþá. Annars get eg sagt það fyrir mig, að eg mun verða á móti flestu því, sem hefir aukin útgjöld úr landssjóði í för með sér, og læt eg svo þetta nægja að sinni. Eg býst við, að það fari eins og vant er, að allir þurfi að tala, og er þá kostur að því loknu að segja eitthvað fyrir nefndarinnar hönd.