09.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í B-deild Alþingistíðinda. (986)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Jón Þorkelsson:

Til þess að ekki sé þögn og umr. slitið, stend eg upp nú, þótt eg ætlaði ekki að taka til máls fyr en síðar. Eg er viðriðinn nokkrar breyt.till. og vildi því segja fáein orð um þær. Skal eg þá fyrst minnast á breyt.till. á þgskj. 570 við 14. gr., er fer fram á að laga ýms nöfn að því er söfnin snertir. Eins og menn vita, er þetta alt í mesta rugli, það er t. d. veitt fé til »fornmenjasafnsins«, en svo einnig skipað að halda opnu »þjóðmenjasafninu«, sem ekkert fé er veitt. En til safns þessa má ekki nema fjárveitinguna altof mjög við neglur sér. Forstöðumaður safnsins er og mikill áhugamaður í sinni grein og hefir hann hugsað sér, að safnað skyldi bæði fornum og nýjum munum, svo að orðið fornmenjasafn á alls ekki við, heldur þjóðmenjasafn. »Safnahúsið« hefir, eftir tillögum bókavarðar, verið skýrt »bókhlaða«, en stjórnin hefir stungið upp á því, að það skuli nefnt »þjóðmentasafn«. En með því að þetta féll við síðustu umræðu, er komin tillaga um að það skuli nefnt «mentasafn“ (»Museum«).

Eg er háttv. deild þakklátur fyrir, að hún hefir hækkað fjárveitinguna til innbindingar á bókum skjalasafnsins.

Eg hefi leyft mér að fara fram á, að fjárveitingin til Sighvats Grímssonar yrði hækkuð. Mér rann til rifja, þegar eg sá þennan gamla fræðimann hér síðast, og sá hversu vel hann varði styrknum, sem hann hafði fengið síðast. Eg hefi farið fram á, að honum séu veittar 300 kr. fyrra árið. Háttv. þm. N. Þing. (B. Sv.) hefir aftur á móti farið fram á, að honum séu veittar 200 kr. hvort árið og greiði eg þeirri tillögu atkvæði, en falli hún fylgi eg fram tillögu minni.

Háttv. þm. Dal. (B J.) hefir komið fram með breyt.till. um, að Einari Jónssyni málara sé veittur 400 kr. styrkur fyrra árið. Eg er þessari till. hlyntur mjög, því að maðurinn er snillingur af náttúru; hann er fyrir stuttu byrjaður á málaralistinni og er nú þegar orðinn svo góður í henni að furðu gegnir.

Þá hefi eg komið fram með athugasemd viðvíkjandi viðskiftaráðunautnum. Er ætlast til þess að hann fái 6000 kr. í laun og 4000 kr. í ferðakostnað og að erindisbréf hans frá 30. júlí 1909 haldist óbreytt. Það hafa að vísu komið fram skiftar skoðanir um þetta efni. Vilja sumir að eins hafa ráðunaut, sem skifti sér ekki af öðru en verzlun. En eg lít svo á, að við þurfum margs annars að gæta en verzlunar, og á því byggist þessi tillaga. Í rauninni efast eg ekki um það, að fjárveiting til verzlunarráðunauts handa duglegum manni væri einhver hin þarfasta, er þingið gæti í té látið. Viðskiftum vorum hefir verið svo hagað hingað til, að þau hafa að mestu verið bundin við stað, sem liggur krók úr leið, við Khöfn í Danmörku. Þaðan höfum vér fengið flest, og það óþægilegra, dýrara og stundum verra, en það annars mætti vera. Mikið af varningi, sem hingað flytst frá ýmsum löndum, hefir lengi til vor komið yfir Kaupmannahöfn, og varningur margur héðan, sem til annara landa hefir farið, hefir einmitt lagt sömu leiðina, og jafnan við það fallið kostnaður óþarfur á hvorutveggja. Þessu þyrfti að breyta, þannig, að vér fengjum nauðsynjar vorar þaðan sem skemst er og hentugast til að sækja. Það eimir enn þá eftir af gamla laginu, svo að jafnvel hinar öflugustu verzlanir vorar eru hlunnfastar þar ytra. Þetta verður að komast í annað horf. Vér megum ekki án vera viðskiftaráðunauta, það horfir til skaðsemda og skammsýni. Og hvað manninn snertir, þá er ekkert út á hann að setja. Hann hefir gert það sem hægt var að ætlast til, og því vildum við, flutn.m., binda þessa fjárveitingu við nafn hans, svo að þar mætti ekki skjöpla.

Þá vildi eg minnast á Fiskifélag Íslands. Eg er háttv. fjárlaganefnd þakklátur fyrir það, að hún hefir þó viljað veita nokkurt fé til þess, að koma þeim félagsskap á laggirnar. Hún hefir einungis eigi séð sér fært að leggja fram svo mikið sem eg hefði talið nauðsynlegt. Eg hafði til reynslu stungið upp á 4500 kr, en nefndin vill veita 2500. Eg sé nú að háttv. þm. Dal. (B. J.) hefir farið meðalveginn og stungið upp á 3500, og felli eg mig auðvitað betur við það, en vil þó ekki halda því til þeirrar streitu, að það geti orðið málinu til falls í heild sinni.

Það mætti minnast hér á ýmsar till. frá öðrum, t. d. á breyt.till. háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) um laun Þórðar Sveinssonar geðveikralæknis á Kleppi, sem er duglegur maður. Till. um þetta efni hefir komið fram fyr, en ekki fengið nægan byr. En ósanngjarnt þykir mér að gera svo mikinn mun þessa manns og læknisins við Vífilsstaðahælið, sem hefir 3200 kr., og álít eg það þó alls ekki of mikið. Háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) hefir nú farið fram á það, að hækka þessi laun úr 2400 kr. upp í 3000 kr., en háttv. fjárl.n. vill ekki fara hærra en upp í 2700, og mun eg halda mér við hærri töluna, þangað til eg sé að það tjáir ekki lengur.

Breyttill. háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) get eg fæstum verið meðmæltur. Eg get ekki fallist á þá breyt.till. á þgskj. 571, að nema burtu nafn Thorefélagsins úr fjárlögunum, því félaginu hafa verið faldar ferðirnar með sérstökum samningi, og get eg því eigi séð, að þetta sé á nauðsynlegum rökum bygt, meðan eigi er sannað, að sá samningur hafi verið rofinn af félaginu.

Þá má nefna breyt.till. á þgskj. 573 frá háttv. 1. þm. Skagf. (Ó. Br.) um að lækka ýmsa námsstyrki. Eg skal játa, að hóflega er í það farið, en af mörgum ástæðum verð eg þó að vera till. mótfallinn, enda er féð ekki mikið, eins og er.

Háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) talaði um kvennaskóla. Hann hefir lengi verið því málefni hollur og góður, en ei að síður þori eg ekki að lofa því að fallast á till. hans að þessu sinni, hvað sem verða kann, álít það, eins og nú stendur á, algerlega ógerning. Hann gat þess líka að þær mundu ekki vera alveg óaðfinnanlegar, og hefði háttv. 1. þm. Skagf. (Ó. Br.) séð leik á borði móti þeim. Enda skoða eg þær meira sem gaman og glingur, en alvöru. (Jón Jónsson S. Múl.: Háttv. þm. hefir engan rétt til þess). Jú, hann er gamansamur 1. þm. S.-Múl., og eg hugsa, að honum væri ekki meir en svo um, ef þær væri samþyktar, svo að eg veit ekki nema eg kunni að greiða einni þeirra atkvæði. En ekki álít eg þó, að þær hafi það fylgi, að eg þurfi að tala mikið á móti þeim að öðru leyti.

Þá er eg meðmæltur till. háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) um styrk til Reynis Gíslasonar, þótt eg sé ekki söngvinn maður sjálfur. Styrkur til meistara Ágústs Bjarnasonar er aðeins settur fyrra árið. Hygg eg að það sé prentvilla, sem er leiðrétt á þgskj. 589 og hafi átt að vera bæði árin, og mæli eg með því, að svo standi framvegis, hver sem tilætlunin hefir verið upphaflega.

Þá er hér ein breyt.till. á þgskj. 580 frá háttv. þm. Dal. (B. J ), vini mínum, sem eg veit að hann muni tala fyrir sjálfur. Hún er um það, að það á að fara að gefa einhverjum C. O. Jensen 2000 kr. fyrir það, að hann hefir búið til pestarlækninga-bóluefni — ef eg kann að nefna það. — Þetta verð eg að játa að mér er öldungis óskiljanlegt. Eg hefi að vísu heyrt að það hafi verið gefið eitthvað af því hingað til þess að lækna með því pestarkindur, en sé lyfið svo óyggjandi, sem af er látið, þá ætti ekki að þurfa önnur laun, en þá borgun, sem fæst fyrir það, því að pestin fer varla svo fljótt úr landi, að ekki verði nógur markaður fyrir það hér fyrst um sinn. Aftur á móti vil eg styðja breyt.till. á þgskj. 497 um styrk handa verzlunarfróðum manni til þess að kynna sér verkun og flokkun á ull og markað fyrir hana. Það er komið meira en mál til þess, að eitthvað slíkt sé gert fyrir þá vörutegund. Það hefir komið að góðu haldi, sem gert hefir verið fyrir fiskinn okkar í þessu skyni, en hitt er kunnugt, að ull er enn oft flutt út héðan sendin, hlandvot og illa þvegin. Það væri meira að segja ástæða til þess, að athuga hvort ekki væri rétt að hafa þá meðferð við um fleiri vörutegundir, að senda valda menn til þess að efla og útvega markað fyrir þær sérstaklega.

Á síðasta þingi komum við, háttv. 2. þm. Rangv. (E. J.) og eg fram með góða og eftirbreytnisverða till. um fjárveitingu til bónda eins, sem verið hefir landinu þarfur maður, Þorvalds Björnssonar á Eyri, en háttv. E. d. sá ráð fyrir þeim lið þá, svo að þótt það væri í raun réttri ekki nema sjálfsagt, að bændum væri veitt einhver viðurkenning fyrir framúrskarandi dugnað, þá álitum við ekki ráð að koma fram með þá beiðni aftur nú. Annar maður, sem nefna hefði mátt í þessu sambandi, — og eg hefi fengið hvöt til þess, — er Vigfús Þórarinsson. Hans nafn er mörgum kunnugt, því að það er sami maðurinn, sem fylgt mun hafa flestum þeim, sem einhverntíma á síðasta mannsaldri hafa farið um austurvegu, yfir eina á (Jökulsá á Sólheimasandi), sem samþykt var í þinginu í gær að brúa; gamall og góður bóndi langa hríð. En með því að svo er að sjá, sem þinginu virðist það fjarstæða, að bændur hljóti nokkra sæmdarviðurkenningu í fjárveitingum, þá sé eg ekki ástæðu að fjölyrða frekar um þetta efni að svo komnu, þó að eg álíti að þingið eigi að taka nokkuð á annan veg í slík mál en gert hefir verið hér til.