08.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í B-deild Alþingistíðinda. (987)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Björn Kristjánsson:

Fyrsta brt., sem eg á, er á þgskj. 583. Það er viðauki við breyt.till. fjárlagan. á þgskj. 518, og eftir samkomulagi milli háttv. fjárlagan. og mín, tek eg hana nú aftur. Eg er nefndinni þakklátur fyrir það, að hún sá að það var sanngjarnt að styrkja þennan sjúkling.

Þá er önnur breyt.till. á þgskj. 582, sem eg á með háttv. þm. N.-Þing. (B.Sv.). Hún er um það, að í stað hraðskeyta komi loftskeyti og stað hraðskeytasambands loftskeytasamband. Við gerum sem sé ráð fyrir því, þrátt fyrir breytingu háttv. e. d. á fjáraukalögunum, að þingið skiljist svo við þetta mál, að þessi orðun verði réttari, og vona eg, að háttv. deild fallist á þetta.

Við 13. gr. eru ýmsar breyttill. frá háttv. þm. S.-Þing. (P. J.), og eru þær að vísu allar í sparnaðaráttina, en ekki hygg eg að deildin muni fallast á þær

af þeim, sem fella burtu úr fjárl. það, sem þegar hefir verið samþykt með miklum atkvæðamun að eigi að standa þar. En það sem eg vildi sérstaklega minnast á í till. hans er vegurinn frá Hafnarfirði til Keflavíkur, sem hann kallar sýsluveg, en ætti að heita þjóðvegur. Til þessa vegar hefir nú verið veitt fé úr landssjóði á 4 þingum minst gegn jafnmiklu tillagi annarstaðar að (?: frá sýslunni), og þetta sem nú stendur í fjárl.frv., er síðasta fjárveitingin til þess að lúka honum. Það væri því í meira lagi óviðkunnanlegt að hætta við hana, og þar eð sýslubúar leggja sjálfir svo mikið á sig til þess að fá þessu framgengt, þá vona eg, að eitthvað falli fyr en þetta. Þá vantar mig og ástæður fyrir því, að fara að fella Bjargtangavitann, en setja annan í staðinn á Vattarnesi. Eg vona, þar sem fjárveitingin til Bjargtangavitans er að eins bundin við síðara ár fjárhagstímabilsins, að þá finni háttv. deild enga ástæðu til þess að fresta því máli ennþá lengur.

Þá vil eg minnast á breyt.till. á þgskj. 525 við aths. aftan við 14. gr. B. IV. c. 13., um styrki til nemenda við æðri skólana. Samkv. frv. á húsaleigustyrkur ekki að veitast öðrum nemendum en þeim, sem eiga heima utan bæjar, og að námsstyrk eiga þeir einnig að ganga fyrir innanbæjarmönnum. Nú kemur það stundum fyrir, að menn á æðri skólunum gifta sig og verða fjölskyldufeður hér. Þeir eru líka einatt úr sveit, og það er hart ef þeir, sem eiga sérlega örðugt uppdráttar þessa vegna, verða sviftir styrknum. Þessi till. er því til þess gerð, að þeir nemendur, sem hér hafa fjölskyldu fram að færa, geti orðið styrksins aðnjótandi, og vænti eg þess, að hún mæti ekki mótspyrnu.

Næst get eg minst á viðaukatill. á þgskj. 524 um styrk til Reynis Gíslasonar til þess að fullkomna sig í samhljómsfræði og hljóðfæraslætti, og var það gleymska ein, að sú till. kom eigi fram við 2. umr. Þetta er unglingsmaður, sonur Gísla Finnssonar járnsmiðs hér í bænum, og er þegar orðinn kunnur að því, hve vel hann leikur á hljóðfæri og orðinn mjög vel að sér í »harmoníu«-fræði. Hann hefir ekki haft annað fyrir stafni í mörg ár en stunda þetta, og er nú orðinn svo vel að sér, að hann mun ganga næstur þeim útlenda manni, O. Johansen, sem hér þykir leika bezt, enda hefir sá maður nú tekið hann til aðstoðar sér. Það er fullkomin ástæða til þess að veita áheyrn ungum, efnilegum manni, sem hefir stundað slíkt svo lengi án styrks, og á að eins eftir að verða fullnuma erlendis. Þessi piltur hefir hugsað sér að ganga á »Musikkonservatorium« í Khöfn og hefir ekki farið fram á meira til þess en 600 kr. hvort árið, en veran þar mun kosta miklu meira, því að kensla í slíkum greinum er mjög dýr, ef til vill 6—8 kr. á tímann, ef tekin er tímakensla hjá góðum kennurum auk kenslu á skólanum, sem þörf er á. Það sjá því allir, að hér er ekki að ræða nema um brot af kostnaðinum, en á hinn bóginn er það víst, að ef hann getur verið þar í 2 ár, þá kemur honum það að miklu liði. Hann hefir og hin beztu meðmæli frá öllum söngfræðingum þessa bæjar, enda veit eg, að enginn sem hefir heyrt til hans, efast um hæfileika hans.

Þá er á þgskj. 522 till. frá peningamálanefndinni um eftirgjöf á leigum af seðlaláni til Landsbankans, 7,500 kr. hvort árið. Á þgskj. 319 er skýrt frá því í nefndarál., hvers vegna þetta er lagt til, og sjálfur gerði eg einnig grein fyrir því við 2. umr. Bankinn hefir orðið að leggja fram svo mikið fé að veði fyrir veðdeildinni, að hann tapar á því 13 þús. kr. beinlínis í vöxtu, auk þeirra hagsmuna, sem hann hefði annars getað haft af því fé. Og það er því fremur ástæða til þess að létta af þessu gjaldi, þar sem á bankanum hvílir annað gjald, sem sé 7500 kr. til byggingarsjóðs. Nú hefir peningamálanefndin heldur viljað gera þessa breyt.till. við fjárl. en að létta byggingarsjóðsgjaldinu af bankanum, og er því frumv. þess efnis tekið aftur.

Í síðari breyt.till. á þgskj. 538 frá háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) er það lagt til að fella burtu styrkinn til hafnarbryggjugerðar í Hafnarfirði, sem samþyktur var hér í deildinni síðast við 2. umr. Mér þykir það kynlegt að koma með slíka tillögu, svona umsvifalaust, og eg efast jafnvel um, að hún geti orðið borin undir atkvæði. Og einkum þykir mér mikið, að hún skuli koma frá sama háttv. þm., sem líka leggur það til, að kippa burtu fjárveitingu til vegar í sama kjördæmi, sem nú er búið að veita fé til í 4 fjárhagstímabil, og vona eg að báðir liðirnir fái að standa. En ef svo skyldi ekki verða, mót von, þá vil eg þó af tvennu illu heldur missa þetta, en að vegurinn fái að standa, því að vandræði eru að verða að hætta við hann í miðju kafi og láta hann bíða, hver veit hve lengi.

Þá fáein orð um breyt.till. þm. S.-Þing. (P. J.) um Flensborgarskólann.

Eg sagði það við 2. umr. þessa máls, að eg furðaði mig á því, að mótbárur skyldu koma fram um það, að veita þessum skóla þann styrk, sem hann þó naumast kæmist af með; annað ekki farið fram á. Þessi háttv. þm. lætur sem hann viti ekki, að skóli þessi er landsskóli og landssjóðseign; skólinn er stofnaður árið 1878 með gjafabréfi séra Þórarins Böðvarssonar og 2 manna annara. Þessi gjöf var því skilyrði bundin, að ef skólinu legðist niður, þá félli þetta fé aftur til erfingjanna. Þetta vil eg biðja deildina að athuga, að ef ekki er veitt nægilegt fé til skólans, svo að hann geti haldið áfram, þá mundi landssjóður gefa einstökum mönnum ekki svo lítið fé. Ennfremur skal eg benda á það til sönnunar mínu máli um að skóli þessi sé ekki prívatskóli, og það er, að þegar eftir að skólinn var stofnaður, var hann þegar settur undir 3 manna nefnd, er landshöfðingi skipaði, en sú nefnd stóð aftur undir eftirliti stiftsyfirvaldanna; skólinn hefir þannig frá fyrstu byrjun verið undir yfirumsjón landsstjórnarinnar, og þess vegna getur enginn sagt, að skóli þessi sé einstaklings eign. Og þegar þess er gætt, að skóla þessum hefir nú um 33 ára skeið verið lagt af almannafé það sem hann hefir þarfnast til þess að geta haldið áfram, þá virðist mér sem það sé nokkuð hart að fara nú að svifta hann þessum styrk, því skóli þessi verður að skoðast sem eign hins opinbera, sem því er skyldugt að halda við.

Út af því að fjárlaganefndin hefir stungið upp á því, að þessi skóli legði skólagjald á nemendur sína, þá verð eg að líta svo á, að slíkt sé með öllu ógerningur; því þess ber að gæta, að á þennan skóla ganga mestmegnis mjög efnalitlir menn, sem alls ekki hafa efni á að greiða skólagjald, að því einnig ógleymdu, að hvorki hér við mentaskólann né skólann á Akureyri á slíkt gjald sér stað — þvert á móti er nemendum við þessa skóla veittur styrkur til námsins; það virðist því vera lítið samræmi í því að láta nemendur Flensborgarskólans eina borga skólagjald.

Þá hefir því verið haldið fram og fundið skólanum til foráttu, að hann væri aðallega fyrir Hafnfirðinga. Auðvitað eiga Hafnfirðingar hægast með að nota skólann, en Reykvíkingar eiga líka hægast með að nota mentaskólann hér, og dettur þó engum hinna háttv. þm. í hug að leggja til að lækka styrkveitingu til hans. Það gegnir furðu, hversu mikið kapp sumir þm. sýnast vilja leggja á það, að svifta þennan skóla styrk, og mér finst óneitanlega, að háttv. þm. S.-Þing.

(P. J.) höggvi nokkuð oft í sama knérunn, er hann flytur 3 brtill. um niðurskurð á fjárveitingum í þessu kjördæmi, þótt það kóróni að vilja endilega eyðileggja Flensborgarskólann, af því að hann er svo óheppinn að standa í þessu kjördæmi.