08.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 328 í B-deild Alþingistíðinda. (989)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Hálfdán Guðjónsson:

Nafn mitt stendur hér á tveim breyttill. Verð eg að minnast á báðar. Þær eru á þgskj. 546 og 574. En í sambandi við aðra þeirra verð eg líka að minnast dálítið á brtill. á þgskj. 506 og 536, því að þær eru henni mjög skyldar. Hin síðarnefnda fer fram á dálítinn vegabótastyrk, sem snertir kjördæmi mitt, og háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) vill nema burtu. Eg hélt nú satt að segja, að nægileg grein hefði verið gerð fyrir þessari fjárveitingu við 2. umr., en h. þm. S.-Þing. (P. J.) hefir ekki látið sér nægja þær upplýsingar. Á seinasta þingi var veitt dálítil fjárupphæð til þessa vegar, en hún nægði ekki til þess að koma vegarspottanum á þurt land, þ. e. a. s. í samband við færan veg. Það var því ekki annað fyrir hendi, en að fara fram á dálítinn viðbótarstyrk, svo að vegurinn gæti komið að fullum notum. Háttv. fjárlaganefnd hefir líka fallist á þessa beiðni okkar, en háttv. þm. S.-Þing.

(P. J.) hefir nú snúist öndverður á móti henni. Eg hygg, að ef hér yrði staðar numið, mundi mörgum ferðamanninum bregða í brún, þegar hann kæmi af bezta reiðvegi út í hinar verstu torfærur og sæi, að hann kæmist hvorki um strönd né lönd. Hann mundi spyrja, hver hefði ráðstafað þessu, og þá væri leiðinlegt ef svarið yrði: Það hefir h. þm. S-Þing. (P. J.) gert. Málefnisins og mannsins vegna vona eg, að ekki fari svo ólíklega, og vænti þess, að h. deild lofi fjárveitingunni að standa.

Þá verð eg að minnast á breyttill. okkar þm. Húnv., sem fer fram á það, að færa saman í eina tölu þær tvær fjárupphæðir, sem veittar eru til kvennaskólans á Blönduósi. Við komum með tillöguna aðallega í því skyni, að samræmi kæmist á í fjárveitingunni til þessa skóla og kvennaskólans í Reykjavík, en annars er okkur þetta ekki mikið kappsmál. En þegar eg lít á breyt.till. háttv. 1. þm. S-Múl. (J. J.), sé eg að hún fer í nokkuð gagnstæða átt við tillögu okkar, frumvarpsins og nefndarinnar. Það fer ekki mikið fyrir þessari breyttill. hans, en þegar hún er athuguð nánara og ræða háttv. þm. skoðuð um leið, sést ljóslega, hvað hún fer fram á, og það er að allur styrkur til skóla þessa sé feldur niður og skólinn þá að sjálfsögðu lagður niður, því að styrklaust býst eg ekki við, að hann ætlist til að þessi skóli starfi, fremur en aðrir skólar. Sá tilgangur hans kom og berlega fram í ræðu hans í dag. Þetta óhapp, bruna skólans og forlög byggingarstyrksins til skólans í efri deild í gær, vill háttv. þm. nota til að loka skólanum, hinni einu mentastofnun, sem opin stendur fátækum stúlkum. Háttv. þm. lítur án efa svo á, að skólastofnun þessi standi nú óvanalega illa að vígi eftir þessi óhöpp. Það tækifæri vill hann ekki láta ganga sér úr greipum ónotað. Raunar sagði þm. jafnframt einhver fremur óákveðin orð um það, að þarna ætti í þess stað að koma upp einhver gagnleg mentastofnun. Hann skoðar þá ekki þá stofnun gagnlega, sem styður eingöngu að mentun kvenna. — Að svifting alls fjárstyrks miði til þess, að þarna komi upp önnur gagnleg mentastofnun, er mér alveg óskiljanlegt. Maður skyldi nú ætla, eftir framkomu háttv. þm. í kvenréttindamálinu og tillögum hans gagnvart þessum skóla, að hann mundi vera mótfallinn öllum fjárframlögum til kvenna, ef hann væri sjálfum sér samkvæmur. En svo er þó ekki. Hann hefir svo sterka trú á kvennaskólanum í Reykjavík, að hann vill leggja allmikið fé til þess skóla. Það er þó sú stofnun, sem heita má lokuð fyrir fátækum stúlkum, og þær yrðu þá að sitja hjá með sárt ennið, þótt námfúsar væru og góðum gáfum gæddar. Þær hefðu engin ráð á því að leggja fram hálfu meira fé til náms síns hér í Rvík, og svo miklu dýrara er þeim námið hér. Þetta er ekki vel gert, því að það veit þm. þó, að góð konuefni geta verið, þótt fátæk séu. Þeim vill hann meina mentabrautina, sem þeim er eðlilegust, en það er ódýr kvennaskóladvöl. Það er eftirtektartektarvert tímanna tákn, að sá andi skuli koma upp, þegar loks er farið að veita konum jafnrétti á við karlmenn með öllum þeim skyldum og allri ábyrgð, sem því er samfara og öllum þeim menningarkröfum, sem því fylgja, þá sé ráðlagt að loka samtímis menningarbrautinni fyrir fátækum, námfúsum stúlkum, sem hafa hug og hæfileika til að búa sig undir lífsstörfin og lífsskyldurnar, en lítil efni til þess. Í þá átt gengur þó tillagan, sem felur í sér fjörráð við þessa margreyndu, góðu stofnun. Að þessu athuguðu vona eg, að háttv. þingd. felli tillögur háttv. þm.

Á þgskj. 574 höfum við háttv. 1. þm. Skagf. (Ó. Br.) lagt til að færa saman ýmsa styrki til einstakra manna, sem bundnir eru við skáldskap, listir og vísindi. Það vakti fyrir okkur, að það væri óheppilegt og óeðlilegt, að þingið veitti þessa styrki, meðal annars vegna dómanna um styrkþega, sem falla óspart í umræðunum, listadóma, sem falla jöfnum höndum frá þeim, sem miður eru hæfir og betur til slíkra dóma, sem oft eru til ama styrkþegunum og sýna alloft misskilning á þeim og verkum þeirra. Till. ber með sér, að ekki er farið fram á beinan fjársparnað fyrir landssjóð, en óbeinn hagnaður er það þó að spara tíma þingsins og alt það þref, sem í þingtíðindunum birtist út af þessu. Því fé sem þannig sparast, væri betur varið til einhvers nytsamara. Sannarlega væri nytsamara að verja því fé, sem við það sparast, til þess að styrkja útgáfu góðra bóka og gagnlegra. Einhver þm. segir, að það sé þegar búið að tala um þetta og nú geti enginn sparnaður af þessu hlotist, en seinna koma sumir dagar, og þótt þessi stefna verði ekki ofan á nú, þá er hún þó vænleg til sigurs. Það teljum við ennfremur líklegt til sparnaðar í þessu efni, að líkindi eru til, að slíkum fjárbænum og fjárveitingum fjölgi ekki hóflaust, þegar sú upphæð er fastákveðin, sem verja má í þessa átt. Þessi stefna er ekki ný, en vandhæfi hefir á því þótt, hvernig ætti að framkvæma hana. Ef stjórninni einni væri falin úthlutunin, hafa sumir óttast hlutdrægni; sama mætti nú raunar segja um úthlutun þingsins. En þetta, að stjórnin veiti styrkinn eftir tillögu 5 manna nefndar kosinnar með hlutfallskosningum í sameinuðu þingi, tryggir það bezt, að styrkurinn verði veittur fremur eftir verðleikum styrkþeganna, en flokksfylgi. Það má deila um það, hversu marga liði ætti að taka með, og má laga það síðar. Ekki geri eg það heldur að kappsmáli, þótt upphæðin væri færð niður. Mér þótti vænt um að heyra, að fjárlaganefndin var ekki mótfallin tillögunni, og er það bending í þá átt, að líklegt sé, að þessi stefna sæki fram til sigurs.