08.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 332 í B-deild Alþingistíðinda. (990)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Hannes Hafstein:

Eg ætla ekki í þetta sinn að taka þátt í þeim umræðum, sem hér hafa fram farið um aðalágreiningsatriðin, eins og t. d. Thorefélagsstyrkinn, kvennaskólamálið o. s. frv. Eg ætla að eins að minnast með fám orðum á 2 meinlausar breyt.till., sem eg er við riðinn.

Önnur breyt.till. mín fer fram á það, að prestmatan frá Grund í Eyjafirði gangi næsta fjárhagstímabil til þess að halda við kirkjunni á Grund. Sú till. er þannig tilkomin, að við þingm. Eyf. fengum í gærkveldi bréf frá biskupi og fylgdi því bréf frá Magnúsi Sigurðssyni bónda á Grund með beztu meðmælum prófasts, þar sem farið er fram á þetta, og það í viðbót, að prestmatan hverfi framvegis til kirkjunnar á Grund. Svo langt þorðum við þó ekki að fara, heldur leggjum vér til, að prestmatan gangi til kirkjunnar að eins þetta tímabil. Eg skal nú sýna, hverjar ástæður eru fyrir þessari tillögu. Magnús Sigurðsson er eigandi Grundarkirkju. Hann hefir, eins og þjóðkunnugt er, varið til kirkjunnar meira fé en hún getur nokkurn tíma borgað honum. 1904—1905 átti kirkjan í sjóði 1990 kr., en kirkjuna þurfti að byggja upp. Magnús sá það fyrir, eins og síðar varð raun á, að fækkað mundi kirkjum í Eyjafirði og þær lagðar til þessarar kirkju, en hún standa. Hann lét þá byggja kirkju, sem kostaði 25 þús. kr. og er það hin fegursta sveitakirkja á landinu. En nú þarf kirkjan viðhald og síðan hún var bygð hafa komið ný lög, lögin um sóknargjöld, sem rýra mjög tekjur kirkjunnar, svo að þær eru nú að eins 123 kr. og nægir það varla fyrir venjulegum ársútgjöldum, því að enn eru breytingar þær á prestakallaskipuninni, sem ráð er fyrir gert, ekki komnar til framkvæmda. Nú í sumar þarf að mála kirkjuna, og Magnúsi Sigurðssyni hefir dottið í hug, að ekki væri viðkunnanlegt, að hann auk þessara gjalda yrði einnig sem eigandi kirkjunnar að greiða prestmötu 2 hdr. á landsvísu, sem skiftist svo, að ? ganga til hlutaðeigandi prests, en ? til prestins á Akureyri. Biskup mælir með beiðninni, enda er hún svo hógvær, að eg vona, að háttv. deild samþykki hana. Á næsta þingi kemur til athugunar, hvort tekjur kirkjunnar hafa aukist eða aðrar kirkjur lagst til hennar, svo að fella megi þennan lið niður. Eg skal geta þess, að prentvilla er á þskj., 200 áln., á að vera 2 hdr. á landsvísu, og er það leiðrétt með annari brt.

Hin breyt.till. er á þgskj. 539. Hinn h. samþm. minn (St. St.) hefir gert grein fyrir henni og hvað nauðsynlegt sé til þess að flutningabrautin í Eyjafirði komi að fullum notum, að árnar séu brúaðar, sem eru á þeim hluta brautarstæðisins, sem enn er ógerður. En þess er enginn kostur, nema landssjóður leggi fram fé til þess, því að þetta er lögákveðin flutningabraut og fé má ekki leggjast til hennar úr sýsluvegasjóði eða hreppsvegasjóði. Í 10 ár hefir ekkert verið veitt til framhalds brautarinnar. Upphæðin er sú sama, sem við bárum fram við 2. umr. að yrði varið til flutningabrautarinnar. En nú förum við fram á að brúa þessar ár: Finnastaðaá, Skjóldalsá og Djúpadalsá, alls 9500 kr. Þar við bætist fyrir áhöld og verkstjórn 500 kr. Ef þetta næði fram að ganga yrði mögulegt að fara með vagna mikið af veginum milli Grundar og Saurbæjar, með því að ryðja og slétta milli brúnna svo að akfært yrði. Eg vona, að þingd. líti sanngjarnlega á þetta mál, sökum þess, hve lengi hefir dregist að halda áfram brautinni, og má svo að orði kveða, að héraðsmönnum sé lögbannað að gera þessar brýr, meðan ekkert fé er veitt til þeirra, af því það er lögboðið, að landssjóður skuli kosta brautina og brýrnar.

Eg skal áður en eg sest niður gera stutta fyrirspurn til háttv. fyrverandi ráðherra

(B. J.). Eg sé að í 16. gr. stendur lítil upphæð, 300 kr., í leigu eftir Gullfoss. En nú hefi eg heyrt, að ráðherra hafi 1909 leigt fossinn norskum ingeniör Johnson að nafni, og hafi hann verið að selja aktiur og mynda félag til að nota fossinn. Sé þetta satt, þá skil eg ekki, að þessi liður þurfi að standa á fjárlögunum. Eg vænti, að háttv. fyrverandi ráðherra taki af öll tvímæli um það, hvernig í þessu liggur.